Rangárþing eystra Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitarfélagsins.
Rangárþing eystra Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitarfélagsins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Fyrirtækið Explora, sem rekur hótelkeðjur í S-Ameríku, stefnir að því að reisa hótel fyrir allt að 90 gesti í Fljótshlíð.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fyrirtækið Explora, sem rekur hótelkeðjur í S-Ameríku, stefnir að því að reisa hótel fyrir allt að 90 gesti í Fljótshlíð.

„Á jörðinni Barkarstöðum í Fljótshlíð er spennandi verkefni í gangi. Þetta er ansi flott hótelkeðja sem hefur nánast einungis verið í ferðaþjónustu og hótelrekstri á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum í S-Ameríku,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra. Tillaga að nýju deiluskipulagi ásamt breytingu á aðalskipulagi var auglýst á dögunum. Þar er gert ráð fyrir tveimur byggingarreitum. Annars vegar 4.000 fermetra hótelbyggingu og hins vegar 1.500 fermetra starfsmannahúsi. Hótelið yrði allt að 11 metrar á tveimur hæðum. Mikil uppbygging er fyrirhuguð í ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu.

„Áform eru um stóra hótelbyggingu og baðlón við Holtsós undir Eyjafjöllum en Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögnum um það. Tvö mál eru í gangi á Seljalandi hjá Seljalandsfossi en þar eru tvö hótel áformuð. Þær framkvæmdir eru í skipulagsferli með deiliskipulagstillögu og aðalskipulagsbreytingu. Við þetta má bæta að uppbygging á nýjum miðbæ á Hvolsvelli er að fara af stað sem og 250 herbergja hótel við Lava á Hvolsvelli. Sem stendur eru þetta miklar áætlanir en vonandi verður sem mest af þessu að veruleika,“ segir Anton Kári.

Öflugt landbúnaðarsvæði

Í sveitarfélaginu búa um 2.100 manns og hefur fjölgað á undanförnum árum. Útlit er fyrir frekari fólksfjölgun samfara mikilli uppbyggingu í ferðaþjónustu.

„Andrúmsloftið í sveitarfélaginu er jákvætt gagnvart þessu en á undanförnum árum hefur verið gríðarleg uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýlinu. Íbúar njóta góðs af uppbyggingunni því henni fylgir aukin þjónusta og meira úrval af afþreyingu. Þetta er atvinnuskapandi því uppbyggingunni fylgja ótalmörg störf. Á undanförnum árum hefur búskapur færst á færri jarðir og margir eru í ferðaþjónustu meðfram búskap á einhvern hátt,“ segir Anton Kári en bætir við að í sveitarstjórninni velti fólk því fyrir sér hvort sambúð landbúnaðar og ferðaþjónustu gangi vel.

„Hjá okkur í sveitarstjórninni hefur verið nokkuð til umræðu hversu langt megi ganga því Rangárþing eystra er eitt öflugasta landbúnaðarhérað landsins og hér er mesti mjólkurkvóti landsins. Við viljum að sjálfsögðu passa upp á ræktarlandið okkar og að það sé hæft til matvælaframleiðslu til framtíðar. 30% af öllu landi í Rangárþingi eystra eru í svokölluðum úrvalsflokki ræktarlands. Eru það rúmlega 60 þúsund hektarar en í dag eru 5-10% þess lands nýtt. Aðalskipulagið hjá okkur er nokkuð skýrt varðandi það að vernda beri svæði sem eru í úrvalsflokki. Við reynum að beina uppbyggingunni á aðra staði jarðarinnar þar sem landgæði eru rýrari og þess háttar. Flestir ef ekki allir taka því afskaplega vel.“

Höf.: Kristján Jónsson