Örvar Jóhannsson fæddist 12. apríl 1984 á Seyðisfirði og ólst þar upp.
„Ég bjó vel að því í uppvextinum að hafa bæði móður- og föðurafa mína og -ömmur nálægt mér, því þau bjuggu sitt í hvorum endanum á bænum á Seyðisfirði og það leið líklega varla sá dagur að ég eyddi ekki einhverjum tíma á a.m.k. öðrum hvorum staðnum.“
Grunnskólaganga Örvars var við Seyðisfjarðarskóla. Hann stundaði rafvirkjanám við Verkmenntaskólann á Akureyri með hléum frá 2000 og útskrifaðist þaðan í árslok 2009. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun 2014.
Meðfram námi og árin eftir útskrift vann Örvar ýmis fjölbreytt störf, mest við akstur vöru- og hópferðabíla. Hann er núna tæknimaður hjá Öryggismiðstöðinni. „Ég sérhæfi mig í aðgangs- og öryggiskerfum en hef ekkert verið í akstri eftir sveitarstjórnarkosningarnar, það hefur ekki verið tími til þess.“
Örvar hefur alla tíð leitað í allskyns félagsstörf. „Mínar fyrstu minningar sem tengjast félagsmálum, en um leið fyrstu minningar sem tengjast stjórnmálum, eru líklega síðan ég var að þvælast með pabba í kosningaundirbúningi Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar 1990, þá 6 ára, og sótti það fast að fá að fara sem oftast með á kosningaskrifstofuna eða á aðra Framsóknarviðburði.“
Alla tíð síðan hefur Örvar verið viðriðinn starf Framsóknar með einum eða öðrum hætti. Hann hefur verið í stjórn SUF, átt sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins um árabil, var formaður Framsóknarfélags Seyðisfjarðar og varabæjarfulltrúi á Seyðisfirði.
Hann flutti í Mosfellsbæinn árið 2019 og fór fljótlega að starfa innan Framsóknarflokksins þar. „Framsókn var þá ekki með neinn mann í bæjarstjórn og ég fór ásamt góðu fólki, Höllu Karenu Kristjánsdóttur og fleirum, að blása lífi í starf flokksins í aðdraganda þess að búa okkur undir næstu kosningar.“
Framsóknarflokkurinn vann síðan stórsigur í sveitarstjórnarkosningunum 2022, hlaut 32% atkvæða og kom fjórum mönnum inn. Örvar er nú formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar, skipaði 4. sæti Framsóknar í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 og hefur frá þeim kosningum verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og er nú forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfisnefndar. „Það hefur mikil uppbygging verið hérna og það er mikil uppbygging í kortunum eins og með Blikastaðalandið. Því fylgja áskoranir til að láta allt haldast í hendur varðandi innviðina.“
Örvar hefur verið virkur í Lionshreyfingunni í rúm 13 ár, fyrst sem félagi í Lionsklúbbi Seyðisfjarðar og nú í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar. „Mér var einhvern tímann sagt frá því að ég hefði líklega verið u.þ.b. 5 ára þegar ég sagðist ætla að verða Lionsmaður eins og afi.“
Örvar hefur einnig verið í allskyns öðru félagsstarfi, t.d. björgunarsveit, kirkjukórum og leikfélagi. „Ég stóð ásamt félögum mínum fyrir reglulegum og óreglulegum útvarpsútsendingum á Seyðisfirði um árabil.“
Núna kemst lítið annað að hjá Örvari en vinnan, bæjarmálin og fjölskyldan. „Ég hef ekki enn komist í að starfa með björgunarsveitinni hérna en ég var mjög virkur í því starfi fyrir austan.“
Fjölskylda
Eiginkona Örvars er Sandra
Guðmundsdóttir, f. 3.2. 1986, sjúkraliði. Þau eru búsett í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ. Foreldrar Söndru eru Guðmundur Helgi Valtýsson, f. 1.3. 1960, fyrrverandi verslunarstjóri, búsettur í Hafnarfirði, og Guðmunda Hallgeirsdóttir, f. 18.3. 1961, skrifstofumaður, búsett í Reykjavík.
Börn Örvars og Söndru eru Katrín Embla Jóhannsdóttir, f. 9.12. 2006; Adam Vilbergur Örvarsson, f. 2.6. 2014, og Alma Ósk Örvarsdóttir, f. 10.12. 2015.
Systur Örvars eru Eygló Björg Jóhannsdóttir, f. 17.1. 1974, bókari og laganemi, býr ásamt fjölskyldu á Seyðisfirði, og Eydís Bára Jóhannsdóttir, f. 15.3. 1976, skólastjóri, býr ásamt eiginmanni á Hvammstanga.
Foreldrar Örvars eru hjónin Jóhann Pétur Hansson, f. 9.1. 1950, fyrrverandi kennari og yfirhafnarvörður, og Guðrún Hrefna Vilbergsdóttir, f. 5.4. 1952, fyrrverandi gjaldkeri hjá sýslumanni. Þau eru búsett á Seyðisfirði.