Feðgin Áróra Rún gluggar í bókina og Svanur Már ánægður með verkið, sem upphaflega átti að vera skólaverkefni.
Feðgin Áróra Rún gluggar í bókina og Svanur Már ánægður með verkið, sem upphaflega átti að vera skólaverkefni. — Morgunblaðið/Eggert
Mikið hefur verið fjallað um Sigur Rós, eina þekktustu íslensku hljómsveitina heima og erlendis, en fyrst nú er komin út bók um hana á íslensku og ensku og til stendur að gefa hana út á japönsku innan tíðar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Mikið hefur verið fjallað um Sigur Rós, eina þekktustu íslensku hljómsveitina heima og erlendis, en fyrst nú er komin út bók um hana á íslensku og ensku og til stendur að gefa hana út á japönsku innan tíðar. „Það er mikil ástríða í bandinu og bókin hefur þegar vakið mikla athygli,“ segir Svanur Már Snorrason, höfundur og útgefandi ritsins.

Svanur Már er bókmenntafræðingur og fyrsta bók hans, lokaritgerðin í BA-náminu, var Egils saga og Kiljunnar. Um sögu sjónvarpsþáttarins Kiljunnar og áhrif hans á bókmenntalíf Íslendinga. Eftir að hafa starfað sem bókavörður og blaðamaður um árabil bauðst honum að halda erindi um efnið á hugvísindaþingi í Háskóla Íslands í mars í fyrra. Það hafi kveikt í sér að taka aftur upp þráðinn á bókmenntabrautinni og hann hafi byrjað í ritlistarnámi í HÍ í fyrrahaust. „Ég fékk þá hugmynd í fyrrasumar að skrifa stóra grein um Sigur Rós og skráði mig því í ritlist, þar sem ég hugðist skrifa greinina.“

Hafnfirðingurinn segir að hugmyndin hafi fljótt undið upp á sig. Í heimildaöfluninni hafi hann komist að því að þótt ágrip um sögu sveitarinnar mætti finna hér og þar væri ekki til bók um ferilinn. „Ég var fljótlega kominn með mikið efni og eftir að ég skilaði verkefninu um Sigur Rós fór ég á fullt að undirbúa það í bókarform. Ég hef ekki gert annað og því ekki getað sinnt frekara námi í ritlistinni að sinni.“

Langur titill

Titill bókarinnar er langur: … það besta sem guð hefur skapað … Von sem varð að Ágætis byrjun – sagan af Sigur Rós. Listamaðurinn Gotti Bernhöft hannaði teikninguna á umslagi plötunnar Ágætis byrjun, sem Sigur Rós sendi frá sér 1999, og er listaverkið þekkt víða um heim. „Ég fékk Gotta til að uppfæra myndina á bókarkápuna, lét þýða bókina á ensku og japönsk kona er að þýða hana á japönsku.“ Hann sjái um allt sem viðkomi bókinni og nú fari allur tími í að sinna dreifingu í verslanir og koma henni á erlendan markað.

Bókin er 84 blaðsíður með heimildaskrá og í litlu broti. Svanur Már segir að þótt uppbygging hennar sé á sagnfræðilegan hátt og að mestu unnin upp úr heimildum, sem vísað sé í með tilvísunum neðanmáls, hafi hann lagt áherslu á að hafa textann mjög auðlesinn. „Þetta er saga Sigur Rósar frá 1994 til 2001 án þess að vera fræðileg úttekt.“

Svanur Már segist hafa haldið liðsmönnum sveitarinnar upplýstum um gang mála og sent þeim texta til yfirlestrar og ósk um leiðréttingar ef rangt væri farið með. „Þeir gerðu engar athugasemdir.“ Hann hafi ekki unnið bókina í samvinnu við tónlistarmennina heldur upp úr heimildum og bætt eigin viðtölum við. „Þetta er saga þeirra skrifuð með velvilja þeirra,“ áréttar hann.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson