Björg Baldursdóttir fæddist á Seyðisfirði þann 7. apríl 1958. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 31. mars 2024.

Foreldrar Bjargar voru Baldur Sigurðsson, sjómaður frá Djúpavogi, f. 9. júní 1937, og Stella Sigurbjörg Björgvinsdóttir, húsmóðir frá Seyðisfirði, f. 2. október 1939.

Björg var elst fimm systkina, en hin eru í aldursröð: Sigurður, f. 14. nóvember 1959, d. 15. september 1973; Sólveig, f. 19. nóvember 1960; Brynjar, f. 17. janúar 1963, d. 27. nóvember 2013; Auðunn, f. 5. desember 1964.

Eftirlifandi eiginmaður Bjargar er Karl Jónsson, f. 17. ágúst 1955. Varð Björgu og Karli fjögurra barna auðið og eru þau: 1) Sigurborg Ósk, f. 19. nóvember 1975, maki Gunnar Heiðdal, f. 31. janúar 1973. Börn þeirra eru Helga Björg, f. 6. apríl 2001, og Gunnar Karl, f. 22. nóvember 2007. 2) Sigurður, f. 24. apríl 1980, maki Lína Móey Bjarnadóttir, f. 3. janúar 1979. Saman eiga þau dótturina Sóleyju Lív, f. 7. september 2023. Fyrir átti Sigurður Sólveigu, f. 3. október 2003, og Baltasar Loga, f. 20. október 2014. 3) Sólveig, f. 10. september 1981, maki Stefán Eggert Jónsson, f. 14. febrúar 1980. Börn þeirra eru Jón Auðunn, f. 28. maí 2005, Alexander Örn, f. 13. október 2012, og Björgvin Karl, f. 12. febrúar 2017. 4) Jón, f. 21. júlí 1983, maki Anna Lilja Henrysdóttir, f. 4. mars 1989. Dætur þeirra eru Rebekka Ýr, f. 4. ágúst 2019, og Rakel Sara, f. 23. júlí 2022. Fyrir átti Jón dótturina Kolfinnu, f. 4. mars 2016.

Björg átti ellefu ömmubörn.

Björg ólst upp á Djúpavogi og gekk í Barnaskóla Djúpavogs, sem hún kláraði vorið 1974. Björg kynntist Karli, eiginmanni sínum, sama ár og bjuggu þau fyrst um sinn í Geysi á Djúpavogi. Björg stundaði nám við Hússtjórnarskólann í Reykjavík veturinn 1974-75. Nokkrum árum eftir fæðingu frumburðarins, eða síðla árs 1979, fluttu þau í Skjólbrekku, við Hammersminni 12. Byggðu þau húsið sjálf og bjuggu þar alla sína tíð. Björg vann hin ýmsu störf samhliða uppeldi barna og heimilishaldi í Skjólbrekku. Um nokkurra ára skeið vann hún hjá Búlandstindi hf., við fiskvinnslu sem og þrif í vinnslusal fyrirtækisins. Björg var mikill bakari og seldi hún um langt skeið kleinur og annað bakkelsi sem kost um borð í Sunnutind SU-59, auk þess sem kleinur hennar voru um tíma fáanlegar í kjörbúðinni á Djúpavogi.

Lengst af starfaði Björg sem dagmóðir á Djúpavogi. Má segja að keppst hafi verið um þau takmörkuðu pláss sem í boði voru hjá Björgu. Björg starfaði einnig á leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi á árunum 2006 til 2015. Björg var um árabil meðlimur í Kvenfélagi Djúpavogs og var um tíma í stjórn þess.

Útför Bjargar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 12. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13. Slóð á streymi:
https://mbl.is/go/hqup9

Það er margs að minnast eftir fráfall elsku eiginkonu minnar eftir 50 ára samveru.

Þú varst einstök húsmóðir, alltaf allt í röð og reglu á heimili okkar í Skjólbrekku. Okkur tókst að ala upp fjögur yndisleg börn og ekki má gleyma öllum krökkunum sem voru í pössun hjá okkur. Þér fannst létt verk að passa fimm börn daglangt og keyra með þau í kerru um Djúpavog.

Eitt af því skemmtilegasta sem okkur þótti að gera saman var að ferðast um landið. Þegar krakkarnir voru litlir voru ófáar ferðirnar sem við fórum með fullan bíl af dóti og gistum í tjaldi víðs vegar um landið.

Í einni slíkri ferð dreif bíllinn okkar ekki upp Almannaskarðið. Þá sagðir þú við Boggu að þið mynduð bara labba upp skarðið, ef það yrði til þess að koma skrjóðnum upp. Þú leitaðir alltaf lausna á öllum vandamálum. Þegar börnin voru flutt að heiman tóku við ferðir á húsbílnum.

Þú varst mikið jólabarn og vörðum við ófáum stundunum saman fyrir hver jól að skreyta húsið hátt og lágt, bæði að innan og utan.

Ég minnist þess þegar við Hjalti bróðir fórum norður í Laxárdal að sækja timbur. Þar voru stór tré sem höfðu verið rifin upp og þá sagðir þú að við yrðum að taka eitt þeirra og setja upp heima. Þegar heim var komið settum við jólaseríu saman á tréð.

Þú varst alltaf til í eitthvað frumlegt. Við áttum yndislegan tíma saman í Gautaborg hjá vinum okkar og ferðuðumst mikið um Svíþjóð. Þú varst fyrst og síðast mikil barnakona. Þú elskaðir börnin okkar afar heitt og gerðir allt fyrir þau. Sama verður að segja um barnabörnin, þér fannst fátt skemmtilegra en að hafa þau hjá okkur í Skjólbrekku. Það var oft mikið líf í kotinu hjá okkur á sumrin þegar þau voru öll í heimsókn.

Það er svo margs að minnast þegar ég hugsa til þín, elsku Björg mín. Ég, börnin og barnabörnin lofum að halda fast í minningarnar um þig og þú munt lifa með okkur að eilífu.

Karl Jónsson.

Ég opna útidyrnar og á móti mér taka tónar Helga Björns, Sem lindin tær. Það er pönnukökulykt í loftinu. Þú situr úti á palli með þráðbeina krosslagða fætur og ruggar þeim taktfast eftir laginu. Símtólið er í vinstri hendinni og sú hægri er vafin í bolfaldinn, þú situr alltaf svona. Austfjarðaþokan er loks horfin og það er sól úti. Freknurnar spretta upp á framhandleggjum þínum, hver á eftir annarri. Ég horfi á þig og dáist að þér, þú ert konan sem kemur til dyranna eins og hún er klædd, konan sem segir það sem henni liggur á hjarta, konan sem berst fram að leikslokum. Ég elska þig svo heitt, elsku amma. Ég held áfram að berjast fyrir þig. Við sjáumst.

Helga Björg Heiðdal.