Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík fara vel af stað í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta, en liðin fögnuðu heimasigrum í fyrstu leikjum sinna einvígja í gærkvöldi.
Grindavík lék á als oddi gegn Íslandsmeisturum Tindastóls á nýjum heimavelli sínum í Smáranum í Kópavogi. Urðu lokatölur 111:88, í leik þar sem Grindavík var með völdin nánast allan tímann.
Spilamennska Grindavíkur var til fyrirmyndar og ljóst að liðið getur farið ansi langt í ár. Grindavíkurliðið hefur verið á mögnuðu flugi eftir áramót og virðist staðan í Grindavíkurbæ hafa þjappað liðinu saman og styrkt leikmenn andlega.
Grindavík bauð upp á mögnuð tilþrif í gærkvöldi og margar stórglæsilegar körfur litu dagsins ljós, í öllum litum regnbogans. Grindavík skaut vel fyrir utan, spilaði vörn Tindastóls sundur og saman oft á tíðum og bauð upp á stórglæsilegar troðslur þess á milli.
Það er gaman að horfa á Grindavíkurliðið spila og leikmenn á borð við Dedrick Basile og DeAndre Kane njóta sín þegar mikið er undir. Þeir höfðu nóg að segja við leikmenn Tindastóls á milli þess sem þeir buðu upp á falleg tilþrif. Virtust þeir ná að trufla meistarana, sem voru ólíkir sjálfum sér. Arnór Helgason og Julio De Asiss komu sterkir af bekknum, eins og Valur Orri Valsson. Margir lögðu sitt af mörkum hjá Grindavík og var sigurinn algjörlega verðskuldaður.
Jacob Calloway og Davis Geks komu sterkir inn af bekknum hjá Tindastóli en allt byrjunarliðið getur betur. Sigtryggur Arnar Björnsson, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Adomas Drungilas, Callum Lawson og Keyshawn Woods mynda það sem á að vera glæsilegt byrjunarlið, en enginn þeirra gat farið sáttur á koddann í gær. Þeir skulda mögnuðum stuðningsmönnum sínum betri frammistöðu í næsta leik, en stemningin í Smáranum í gær var eins og best verður á kosið.
Öruggt hjá Keflavík
Í Keflavík unnu heimamenn 99:92-heimasigur á Álftanesi, sem var að leika sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni frá upphafi. Keflvíkingar voru hins vegar með völdin allan leikinn og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 77:60.
Keflvíkingar gátu leyft sér að slaka á í lokin, án þess að forskotinu hafi verið ógnað að ráði. Um mikla liðsframmistöðu var að ræða hjá Keflavík. Allir í byrjunarliðinu skoruðu meira en tíu stig og Danero Thomas kom með tólf stig af bekknum.
Remi Martin hitti ekkert fyrir utan, en var samt sem áður með 19 stig og var stigahæstur. Sigurður Pétursson skoraði 17 stig og lagði sitt af mörkum. Keflavík náði mest 25 stiga forskoti í leiknum og gefa lokatölurnar ekki endilega rétta mynd því sigurinn var öruggur og verðskuldaður.
Álftnesingar voru að glíma við einhvern skrekk og áttu ekki sinn besta leik. Dúi Þór Jónsson var lengi í gang og Hörður Axel Vilhjálmsson náði sér engan veginn á strik á gamla heimavellinum.
Douglas Wilson, Ville Tahvanainen og Haukur Helgi Pálsson voru flottir hjá Álftanesi, en fleiri leikmenn Keflavíkur spiluðu vel í gær og því fór sem fór. Wilson og Tahvanainen voru stigahæstir með 21 stig hvor. Haukur kom næstur með 18.