Veggverk Kristinn Már Pálmason málaði verkin fyrir sýningarrýmið.
Veggverk Kristinn Már Pálmason málaði verkin fyrir sýningarrýmið. — Morgunblaðið/Eggert
Kristinn Már Pálmason sýnir fjögur stór málverk á sýningu í Listasafni Árnesinga. Titill sýningarinnar er Kaþarsis, en það er forngrískt hugtak sem merkir hreinsun eða útrás. Samkvæmt skáldskaparkenningu Aristótelesar er kaþarsis markmið harmleiksins

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Kristinn Már Pálmason sýnir fjögur stór málverk á sýningu í Listasafni Árnesinga. Titill sýningarinnar er Kaþarsis, en það er forngrískt hugtak sem merkir hreinsun eða útrás. Samkvæmt skáldskaparkenningu Aristótelesar er kaþarsis markmið harmleiksins.

„Þegar ég var að byrja að vinna þessa sýningu var ég að lesa bók Maggie Nelson, Art of Cruelty: A Reckoning þar sem hún fjallar um uppruna „Catharsis“ og margvíslegar tengingar þess. Orðið er komið af „katharos“ sem þýðir meðal annars hreinleiki, nýtt upphaf og einnig endalok. Kaþarsis heillaði mig í fjölbreytileika sínum og opnaði gáttir með tengingar í ýmsa harmleiki samtímans og varð einhvers konar fókuspunktur í hinu kaótíska og persónulega ferli málverksins.” segir Kristinn.

„Málverkin eru stór og unnin fyrir rýmið sem sem minnir kannski eilítið á kapellu. Eitt verkanna, „Silfurskot“, er sprengt út fyrir rammann og unnið beint á endavegg salarins. Í sýningartexta er verkunum líkt við tónlist. „Ég er ekki með tónlist í huga þegar ég skapa verkin en hlusta mikið á tónlist. Þótt ég sé ekki að búa til tónlist í verkunum þá byggi ég þau upp ekki ólíkt og gert er í elektrónískri tónlist þegar hljómbútum er skeytt saman fram og til baka,“ segir Kristinn.

Það eru sterkar andstæður í verkunum, þrjú verkanna eru dökk og eitt mjög litsterkt í öllum litum en ríkjandi rauðum. Þau eru unnin með akrýl, akrýlpennum og sprautu. Verkin hafa öll sinn titil: „Yfir“, „Blóðgæti“, „Gullgrafarinn“ og „Silfurskot“, en það síðastnefnda er einnig hvati veggmálverksins.

Veggverkið mun hverfa þegar sýningunni lýkur en þá verður rúllað yfir það. „Ég hef áður málað verk beint í rými, í Kling & Bang árið 2019. „Silfurskot“ er myndlistarverk sem verður til í ákveðinn tíma, reyndar nokkuð langan tíma því sýningin stendur í sex mánuði. Svo verður ekki hægt að sjá það lengur, sem er bara skemmtilegt.“

Um sköpun listaverkanna segir Kristinn: „Í byrjun veit ég ekki nákvæmlega hvert ég er að fara en hef þó einhverja óljósa mynd af verkinu, aðallega í gegnum litaskalann, en svo gerast hlutirnir mikið til í ferlinu. Ég vil ekki vita of mikið. Ég vil að verkið komi mér á óvart. Ef það kemur mér ekki á óvart þá er ekki hægt að ætlast til að það komi öðrum á óvart.“

Sýning Kristins í Listasafni Árnesinga stendur til 25. ágúst.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir