Abstrakt Verkið „Abstraksjón“ (1957) eftir Nínu Tryggvadóttur.
Abstrakt Verkið „Abstraksjón“ (1957) eftir Nínu Tryggvadóttur.
Fjórar sýningar verða opnaðar í Listasafni Íslands í dag, 13. apríl, kl. 15 en safnið hefur verið lokað frá því í lok febrúar vegna breytinga. Á sýningunni Járn, hör, kol og kalk eru sýndar nýlegar teikningar, grafík og þrívíðir strúktúrar eftir Þóru Sigurðardóttur

Fjórar sýningar verða opnaðar í Listasafni Íslands í dag, 13. apríl, kl. 15 en safnið hefur verið lokað frá því í lok febrúar vegna breytinga.

Á sýningunni Járn, hör, kol og kalk eru sýndar nýlegar teikningar, grafík og þrívíðir strúktúrar eftir Þóru Sigurðardóttur. Öll verkin vitna um vinnu Þóru með lóðréttar og láréttar línur sem útgangspunkt myndsköpunar um áratugaskeið.

Anna Rún Tryggvadóttir beinir sjónum að miklum en ósýnilegum kröftum jarðsegulmagnsins og hinu síflakkandi segulnorðri á sýningunni Margpóla. Rætt er við Önnu Rún í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt er teflt saman þremur hópum listamanna af ólíkum kynslóðum sem koma úr mismunandi áttum. Sýnd eru verk eftir hóp listamanna sem fram komu í kringum seinni heimsstyrjöld og unnu með hugmynda- og fagurfræði abstrakt myndlistar. Þá eru sýnd verk eftir fatlaða listamenn sem vinna beint og óheft á flötinn og eru í sterku samtali við sinn innri tilfinningaheim. Í þriðja lagi eru sýnd verk annarra samtímalistamanna sem hafa hlotið formlega menntun á sviði myndlistar og vinna á ólíkan hátt.

Loks verður til sýnis verkið „Borealis“ eftir Steinu, sem er vídeó- og hljóðinnsetning sem var fyrst sýnd árið 1993. Borealis þýðir „norðlægt“ en verkið er frá því tímabili þegar Steina fór að beina athyglinni út fyrir vinnustofuna og að náttúrunni.