Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari fæddist 14. apríl 1920 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Páll Ólafsson, f. 1887, d. 1971, og Hildur Stefánsdóttir, f. 1893, d. 1970. Ólöf nam við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn 1949-1955

Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari fæddist 14. apríl 1920 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Páll Ólafsson, f. 1887, d. 1971, og Hildur Stefánsdóttir, f. 1893, d. 1970.

Ólöf nam við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn 1949-1955. Hún útskrifaðist þaðan með gullverðlaun fyrir verk sitt Sonur sem stendur nú í Hljómskálagarðinum. Frekara nám stundaði hún í Kaíró í Egyptalandi árið 1954 og í Róm 1957.

Ólöf sýndi og seldi verk víða um heim, þar á meðal opinberum aðilum. Höggmynd hennar Tónlistarmaðurinn, af sellóleikaranum Erling Blöndal Bengtsson, stóð lengi við Háskólabíó en er nú við Hörpu. Ólöf var einn af stofnendum listamannasamtakanna Den Nordiske og hélt sýningar í Kettle's Yard Museum við Cambridge-háskóla og víðar í Bretlandi, svo og í Danmörku, Færeyjum, Frakklandi og Þýskalandi. Ólöf var sæmd íslensku fálkaorðunni árið 1970 og var kjörin heiðursfélagi í Konunglega breska myndhöggvarafélaginu árið 1986.

Eiginmaður Ólafar var Sigurður Bjarnason frá Vigur, f. 1915, d. 2012, þingmaður og ritstjóri Morgunblaðsins. Börn þeirra eru Hildur Helga og Ólafur Páll.

Ólöf lést 21. febrúar 2018.