Þórshöfn Lagt er til að raflína með mikla flutningsgetu verði lögð frá Öxarfirði til Þórshafnar, en hún yrði hluti af flutningskerfi Landsnets.
Þórshöfn Lagt er til að raflína með mikla flutningsgetu verði lögð frá Öxarfirði til Þórshafnar, en hún yrði hluti af flutningskerfi Landsnets.
Stóraukin flutningsgeta á raforku til Þórshafnar og nágrennis er forgangsmál, skv. niðurstöðu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að greina hvernig efla mætti samfélagið á Langanesi

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Stóraukin flutningsgeta á raforku til Þórshafnar og nágrennis er forgangsmál, skv. niðurstöðu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að greina hvernig efla mætti samfélagið á Langanesi.

Að mati hópsins liggur beinast við að þetta verði gert með nýrri og öflugri raflínu frá Öxarfirði til Þórshafnar sem yrði hluti af flutningskerfi Landsnets. Slík uppbygging sé nauðsynleg til að tryggja samkeppnishæfni svæðisins, greiða fyrir orkuskiptum og skapa forsendur fyrir sókn nýrra atvinnuvega.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem ráðherrann kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær.

„Ég er mjög ánægður með þessa skýrslu, hún er mjög vel unnin. Tillögur starfshópsins eru skýrar og ég mun fylgja þeim eftir,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Morgunblaðið.

„Það er augljóst að það þarf að líta á orkumálin, ekki bara heildstætt, heldur líka einstök svæði sem hafa orðið út undan og við verðum að sinna þeim. Langanes er gott dæmi um það. Þarna er lögð áhersla á tvennt. Annars vegar orkuframboð og orkuöryggi og hins vegar spennandi hugmyndir um þjóðgarð á þessu stórkostlega svæði. Ég mun styðja þessar tillögur og fer fljótlega á Langanes til að ræða þessi mál við heimafólk,“ segir Guðlaugur Þór.

Starfshópurinn leggur einnig til að ráðuneytið vinni áfram tillögur um friðlýsingarkosti á utanverðu Langanesi og að stofnaður verði þjóðgarður í sátt við íbúa og hagsmunaaðila. Samhliða verði unnið að uppbyggingu innviða og m.a. horft til þess að koma upp starfsstöð í náttúrurannsóknum í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa fimm ráðherra um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa frá árinu 2018.

Þá leggur starfshópurinn til aðgerðir til þess að styðja við græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu, að stutt verði við jarðhitaleit og skoðaðir möguleikar á orkuöflun á svæðinu í samstarfi við orkufyrirtæki. Í hópnum voru Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Berglind Harpa Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.