Pálmi V. Jónsson
Pálmi V. Jónsson
Lyfjagjöf er vandaverk. Ábending þarf að vera fyrir hendi en hún byggist á að greining sé rétt.

Pálmi V. Jónsson

Meðferð sjúkdóma hefur fleygt fram á síðustu áratugum og með meiri hraða með hverju árinu. Þetta á ekki síst við um lyf. Oft er árangur lyfjameðferðar mjög góður og stundum stórkostlegur. Að öllu samanlögðu, þá lifa fleiri lengur og með meiri lífsgæði en ella. En það er vandasöm hlið á lyfjameðferð sem ekki má taka léttilega.

Hvert og eitt lyf hefur aukaverkanir, stundum fyrirsjáanlegar þegar þær tengjast hinu beina inngripi lyfsins í líkamsstarfsemina, stundum ófyrirsjáanlegar þegar þær birtast eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Aukaverkanir geta haft varanlegar alvarlegar afleiðingar, þó að það sé hlutfallslega fátítt, enda miðar rannsóknarferli lyfja að því að tryggja öryggi lyfja eins og kostur er.

En hvert og eitt lyf hefur aukaverkanir, algengar eða fátíðar, sem hver og ein hefur áhrif, þó að ekki sé um lífshættu að ræða. Aukaverkanir lyfja eru misalgengar eftir tegund lyfja en einnig eftir því hver tekur lyfin. Dæmi um almennar aukaverkanir lyfja sem sjást mjög oft: þreyta, sljóleiki, lystarleysi, ógleði, uppköst, hægðatregða, niðurgangur, svimi, óstöðugleiki, byltur, útbrot, kláði, munnþurrkur, þyngdartap eða þyngdaraukning, tilfinningasveiflur, kvíði, þunglyndi og truflun á kynlífi. Þetta á við lyfseðilsskyld lyf, en einnig hjályf og lyf sem má nálgast án lyfseðils.

Stundum er erfitt að átta sig á því hvort um aukaverkun lyfs er að ræða eða nýtt sjúkdómseinkenni. Hættan þá er að aukaverkun sé meðhöndluð með enn einu lyfi í stað þess að draga til baka lyfið sem orsakaði einkennin. Ef mjög mörg lyf geta valdið lystarleysi, hverjar eru þá líkurnar á því að sá einstaklingur sem tekur mörg, jafnvel mjög mörg, lyf sé lystarlaus? Það er talsvert líklegt. Lystarleysi leiðir auðveldlega af sér vannæringu sem opnar inn á hrörnunarferli líkamans með margvíslegum afleiðingum.

Lyfjagjöf er vandaverk. Ábending þarf að vera fyrir hendi en hún byggist á að greining sé rétt. Oft kemur fleiri en eitt lyf til álita. Þá þarf ekki aðeins að horfa til meðferðarvirkni heldur einnig til líklegra aukaverkana út frá þeim einstaklingi sem í hlut á. Horfa má til þess að reyna að meðhöndla fleiri en eitt einkenni samtímis, t.d. hjartaöng og háþrýsting.

Ellin tengist ýmsum lífeðlisfræðilegum breytingum með aldri, svo sem skertri nýrna- og lifrarstarfsemi, sem hafa áhrif á umbrot og útskilnað lyfja. Einnig eru aðrar aldurstengdar breytingar sem minnka mótstöðu eldra fólks fyrir lyfjum. Gigtarlyf af fyrstu kynslóð, svo sem ibuprofen og dikcofenac, eru stórhættuleg eldra fólki þar sem varnir magans eru mjög skertar og þeim mun meira sem fólk er eldra. Þessi lyf geta á stuttum tíma leitt af sér blæðandi magasár eða rof á maga með lífhimnubólgu og að mínu mati ætti ekki að nota þau.

Eldra fólk er afar ólíkt miðaldra fólki og út frá því má skilgreina lyf sem eru aldursvæn og velja þau fyrst og fremst. Þannig væri paracetamól aldursvænn valkostur við gigtarlyfin sem nefnd voru að ofan.

Í upphafi skal einnig endinn skoða. Opíóíðar, róandi lyf og svefnlyf hafa ákveðnar tiltölulega þröngar ábendingar og þá einkum og sér í lagi í bráðum aðstæðum, áföllum, stórum aðgerðum eða í dánarferli. Það þarf mjög að vera á varðbergi fyrir því að eldra fólk festist ekki á þessum lyfjum vegna annarra ábendinga til lengri tíma, þar sem þau hafa umtalsverðar aukaverkanir og líkaminn hefur tilhneigingu til að kalla eftir hækkandi skömmtum, sér í lagi ópíóíðarnir.

Skammtar skipta einnig máli. Þó að lítið sé gott er ekki víst að meira sé betra. Gagnvart eldra fólki á við að byrja með lægri skammta og auka þá rólega. Þá þarf að fylgja fólki eftir, ekki aðeins með tilliti til hinnar eiginlegu virkni lyfsins heldur einnig með tilliti til aukaverkana og alloft með blóðrannsóknum og myndgreiningu.

Einstaklingar með langvinn veikindi, sem geta meðal annars speglast í fjöllyfjameðferð, þurfa náið og reglulegt eftirlit læknis eða teymis fagfólks gagnvart hverjum og einum sjúkdómi. Miklu skiptir einnig að hver og einn þekki gjörla sjúkdóm sinn og meðferð og sé virkur þátttakandi í meðferðinni, hafi hún eða hann burði til þess. Ástvinir fá það hlutverk í alvarlegum veikindum.

Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands.