Aksel V. Johannesen
Aksel V. Johannesen
Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, sagði á þemaþingi Norðurlandaráðs um öryggi, frið og viðbúnað á Norður-Atlantshafi, sem haldið var í Þórshöfn í vikunni, að Færeyingar vildu taka virkan þátt í varnarsamstarfi Norðurlanda

Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, sagði á þemaþingi Norðurlandaráðs um öryggi, frið og viðbúnað á Norður-Atlantshafi, sem haldið var í Þórshöfn í vikunni, að Færeyingar vildu taka virkan þátt í varnarsamstarfi Norðurlanda.

„Við viljum, í nánu samstarfi við norræna nágranna okkar, axla hluta af ábyrgðinni í breyttum heimi,“ sagði Johannesen á þinginu. Hann sagðist vilja undirstrika að virk þátttaka í svæðisbundnu öryggissamstarfi væri ekki aðeins táknræn heldur vildu Færeyingar með samstarfi tryggja sína framtíð og norræn gildi sem best.

Til að ná þessu markmiði sagði lögmaður að Færeyingar vildu fá fulla aðild að Norðurlandaráði og sæti á leiðtogafundum Atlantshafsbandalagsins.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingfundir Norðurlandaráðs eru haldnir í Færeyjum. Á þinginu var m.a. rætt um hvernig bregðast ætti við fjölþættum ógnum, sem verða sífellt tíðari. Þá flutti Louise Dedichen, aðstoðaraðmíráll og fulltrúi Noregs í hernaðarnefnd NATO, fyrirlestur og lagði áherslu á aukna samvinnu Norðurlanda.