„Í verkum mínum er ég að einhverju leyti að fást við þetta tengslaleysi mannanna við náttúruna,“ segir Anna Rún Tryggvadóttir.
„Í verkum mínum er ég að einhverju leyti að fást við þetta tengslaleysi mannanna við náttúruna,“ segir Anna Rún Tryggvadóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í verkum mínum er ég að einhverju leyti að fást við þetta tengslaleysi mannanna við náttúruna en nýt þeirra forréttinda sem listamaður að geta notað vísindi, í þessu tilviki jarðeðlisfræði, sem útgangspunkt í minni listrænu rannsókn

Anna Rún Tryggvadóttir sýnir skúlptúr og tvívíð verk á sýningunni Margpóla í Listasafni Íslands en sýningin opnar nú um helgina. Anna Rún starfar sem myndlistarmaður á Íslandi og í Berlín. Hún hefur sýnt verk sín víða á alþjóðlegum vettvangi en einnig unnið við búninga- og sviðsmyndagerð í leikhúsum víða í Evrópu.

„Þessi verk koma í rökréttu framhaldi af listrænni rannsókn minni á segulsviði jarðarinnar,“ segir Anna Rún. „Ég hnaut um þetta viðfangsefni fyrir þónokkrum árum og hef verið að þróa með mér leiðir til að gera þessum miklu kröftum skil í myndlist minni. Segulsviðið verndar andrúmsloftið fyrir eitruðum geislum sólarinnar og er því forsenda alls lífs á jörðinni. Það var mér meiriháttar hugljómun að komast að því að segulsvið jarðarinnar sest í öll berglög sem verða til á yfirborði jarðarinnar. Vitaskuld enginn nýr sannleikur fyrir jarðfræðinga og jarðeðlisfræðinga en hjá mér urðu vatnaskil þegar ég komst að því að segulpólarnir norður og suður eru alltaf á hreyfingu, ekki fastir, og að þegar hraun storknar dregur það í sig staðsetningu segulpólanna. Það má því segja að öll berglög séu heimildaskrá um reikulleika norðurs og suðurs frá upphafi jarðarinnar.“

Um titil sýningarinnar, Margpóla, segir Anna Rún: „Það kitlar mig að ögra viðteknum skoðunum okkar á náttúrunni. Mannfólkið þyrstir í að skilja umhverfi sitt og hefur byggt sér upp ótal kerfi sem hjálpa okkur að komast af. Vitneskjan sem safnast hefur saman gerir að verkum að við teljum okkur hafa einhvern gefinn sannleika um umhverfi okkar svo við eigum á hættu að horfa ekki lengur á það sem fyrir augun ber. Við hættum að fylgjast með náttúrunni og sjáum ekki að þessi sannleikur okkar er ekki varanlegur.

Við þurfum meðvitað að næra með okkur umburðarlyndi og skilning fyrir því að þessi kerfi eru tilbúningur. Annars missum við tengsl við náttúruna í okkur sjálfum og þar með dulmagn tilverunnar.

Í verkum mínum er ég að einhverju leyti að fást við þetta tengslaleysi mannanna við náttúruna en nýt þeirra forréttinda sem listamaður að geta notað vísindi, í þessu tilviki jarðeðlisfræði, sem útgangspunkt í minni listrænu rannsókn. Ég nota hana til að læra, sjá og hugsa og upplifi stundum að útkoman í myndlist sé nokkurs konar vísindaskáldskapur þar sem ég vísa í aðrar hliðarvíddir fortíðar og framtíðar. Á sýningunni gef ég áhorfendum tækifæri til að stíga inn í þennan heim og upplifa þessar hugleiðingar um hverfulleika áttanna.“

Segulnál í rými

Fyrsta verkið sem áhorfendur standa frammi fyrir á sýningunni er skúlptúrinn Afvísun. „Skúlptúrinn er eins og segulnál í rýminu, hárauður og nær frá lofti niður í gólf, utan um hann hringsólar viðstöðulaust 220 metra langur kaðall. Rauði liturinn vísar í rauða nál áttavitans. Verkið er sett fram sem myndlíking um hverfulleika segulnorðursins, nál sem hringsnýst og vindur af sér og í sífellu, kannski svolítið áttavillt,“ segir Anna Rún.

„Í tvívíðu verkum sýningarinnar vinn ég með segulvirkni vatnslitarins. Verkin eru minn óður til dulmagnsins þar sem ég leyfi náttúrulegum ferlum efnisins að opinbera sig handan minnar aðkomu. Ég leyfi mér að sjá fyrir einhverja útkomu, verða spennt fyrir möguleikum efnanna sem ég er að vinna með, en sleppa svo stjórninni og opna augun fyrir gjörningi vatnslitarins og segulkraftsins þegar þeir mætast á pappírnum.“

Anna Rún var á síðasta ári valin til að taka þátt í opnunarsýningu Menningarhöfuðborgar Evrópu, Bad Ischl í Salzkammergut í Austurríki, en sýningin var opnuð 20. janúar síðastliðinn. Þar sýnir hún 25 metra langa innsetningu, Garden – Strata, sem er hluti af samsýningunni Sudhaus – Kunst mit Salz & Wasser, en sú sýning stendur yfir í heilt ár. Verkið er gert úr grjóthnullungum, salti og vatnslitum.

„Þessi innsetning byggist á einkasýningu minni í Listasafni Reykjavíkur árið 2017 sem hét Garður. Sýningin í Austurríki er í gamalli saltverksmiðju þar sem ég vann með salt- og steinanámu á svæðinu við gerð verksins. Ég setti upp á svið nítján misstóra steinhnullunga úr námunni sem eru nokkurs konar karakterar í þeim gjörningi sem verkið er. Steinana klæði ég í salthjúp og það drýpur á þá litaður vökvi viðstöðulaust í heilt ár. Þessi litaði vökvi brýtur sig í gegnum saltið og heldur verkinu í spennitreyju niðurbrots og uppbyggingar svo það er aldrei eins. Mér er umhugað um að sýna að við búum í veröld sem er öll á lífi, jafnvel það sem við skilgreinum ekki sem lifandi er á öðrum tímaás hreyfanlegt lifandi ferli.“

Hringiða lista

Anna Rún býr í Berlín og Reykjavík. Spurð hvort hún fái fleiri tækifæri sem listamaður við að búa í Berlín segir hún: „Það að starfa í Berlín hefur gert mér kleift að vaxa á annan og ófyrirséðan hátt. Þar er hringiða lista og auðvelt að verða fyrir hughrifum sem mögulega víkka það samhengi sem ég vinn í.“

Hún segir reynslu sína af búninga- og sviðsmyndagerð skila sér í myndlistarverkin. „Ég hef unnið talsvert í leikhúsi og var svo heppin að tilheyra leikhúsfjölskyldu til fjölda ára. Að einhverju leyti endurspeglar gangverk leikhússins það hvernig ég hugsa í myndlist, því leikhúsið byggir á samstarfi og er tímabundinn miðill. Ég er á einhvern hátt alltaf að sviðsetja hverfulleika í gegnum tímabundna efnislega gjörninga. Ég hef ekki haft áhuga á að vinna sem sóló valdhafi í minni listsköpun. Mér finnst miklu áhugaverðara að finna leiðir til að vinna með efni og skapa upplifanir í gegnum samstarf sem nær út fyrir mínar hugmyndir og mína möguleika.

Ég næ ekki miklu sambandi við hugmyndina um „meistaraverk“, í henni liggur hætta á að horfa framhjá samhenginu sem verk spretta upp úr. Listasagan er rituð af valdhöfum síns tíma og kerfisbundin skráning hennar hefur í gegnum aldirnar hindrað aðgengi kvenna og annarra jaðarsettra inn í sögubækurnar. Hver tími hampar ákveðnum menningarsmiðum á kostnað annarra og hugmyndin um snillinga er eitthvað sem við þurfum alltaf að setja í gagnrýnið samhengi við aðgengi fólks að menntun og möguleikum. Sennilega hef ég lagt áherslu á hverfulleika og hið ferilbundna í verkum mínum sem andsvari við sögunni, og kannski út af þessari þrúgandi sögu hef ég sem kona og móðir fundið mig betur þegar ég skapa heim sem byggist á samvirkni og hlustun og miðlun á þeim þáttum.“

Efnislegur gjörningur

Í maí verður Anna Rún með stóra innsetningu í gamalli stálbræðsluverksmiðju í Avesta sem fyrrum var námubær í Svíþjóð. Þessi verksmiðja er ekki lengur í notkun en þarna verður samsýning tíu listamanna víðsvegar að úr heiminum.

„Ég er að vinna með stálnámu í Norður-Svíþjóð og frá henni fæ ég 20 tonn af hliðarafurð úr stálframleiðslu. Þarna er ég aftur að vinna með segulvirkni. Verkið verður fjögurra mánaða og 35 metra langur efnislegur gjörningur. Stálþráður sem er fastur við risastórt segulstál líður um rýmið og dregur með sér teppi af 20 tonnum af stálsandi, nokkurs konar risavaxinn snjóbolti af stálögnum.

Í þessu verki vinn ég einnig með hljóð og ræddi við vini mína Hildi Guðnadóttur og Sam Slater um sköpun á sérstökum hljóðheimi fyrir verkið. Hljóðið sem myndast þegar þráðurinn dregur á eftir sér stálsandinn er mikilfenglegt og Sam er að þróa með mér útfærslu á því.“

Þess má að lokum geta að á síðasta ári gátu landsmenn kosið uppáhaldsverk sitt úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Verk Önnu Rúnar, Hringfarar, varð þar hlutskarpast en lýsa má því sem eins konar gjörningi trjáa. „Ég var hrærð yfir því að sjá að mörg hundruð manns væru að hugsa um þetta verk. Það kom mér á óvart að það skyldi vinna og mér þótti mjög vænt um það,“ segir listakonan