Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson
Tímamótin núna eru fyrst og fremst mörkuð starfi og eftirfylgd Óskars Magnússonar við að ná fram samþykkt nýrra kirkjulaga 2021.

Halldór Gunnarsson

Á þjóðhátíðarári 1974 fjallaði prestastefna Íslands um kirkjuna og samtíðina þar sem við sr. Þórhallur heitinn Höskuldsson vorum framsögumenn og í framhaldi skipaðir af herra Sigurbirni Einarssyni biskupi í fimm manna starfsháttanefnd ásamt sr. Jónasi Gíslasyni, sr. Jóni Bjarman og sr. Jóni Einarssyni, sem við kusum sem formann. Þessir menn eru látnir, en þeirra allra vil ég minnast með þakklæti, þegar núna fyrst fimmtíu árum síðar eru að koma fram skilyrði til að fylgja eftir þeim breytingum sem nefndin lagði til með sjálfstæðri þjóðkirkju fyrir biskupa, kennimenn og leikmenn, bæði skipulega og fjárhaldslega.

Forysta kirkjunnar óttaðist tillögurnar. Sérstaklega breyttta stöðu kirkjuþings og biskups, þar sem leikmenn ættu að taka við fjármálstjórn en þrír biskupar við yfirstjórn boðunar og fræðslu kristinnar trúar.

Aðdragandi breytinga

Við tóku mörg erfið ár umfjöllunar og skoðanaskipta innan kirkjunnar ásamt baráttu fyrir fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar með mörgum áföngum, fyrst með nýjum þjóðkirkjulögum nr. 78/1997 þar sem kirkjujarðasamkomulagið var staðfest. Í þeim lögum áttu leikmenn að taka forystu á kirkjuþingi með forseta, en biskup var þar með seturétt án atkvæðisréttar. Svo varð ekki, því biskup hélt áfram yfirstjórn fjármála og stjórnaði málum kirkjuþings. Síðan voru síðustu fjársamningar við ríkið gerðir um prestssetrin 2007. Þessu sjálfstæði var ekki heldur fylgt eftir með breytingu á fjármálastjórn kirkjunnar, þar sem leikmenn áttu að stjórna og bera ábyrgð. Afleiðingin varð fjármálaóstjórn í mörg ár, til mikils skaða fyrir þjóðkirkjuna.

Til að ná fram breytingum á þessu kaus kirkjuþing þriggja manna utanþingsnefnd með forystu Óskars Magnússonar hrl., rithöfundar og bónda á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, til að vinna að samþykkt nýrra þjóðkirkjulaga, sem náðist með lögum nr. 77/2021 með hans góðu samstarfsmönnum og mikilli umfjöllun og erfiðum samningafundum með kirkjunnar mönnum og með ráðherrum, embættismönnum og alþingismönnum, sem studdu breytingarnar. Það var ekki auðvelt að ná þessu fram. Með hógværð og rökum, greind og festu Óskars náðist það, sem vert er hér að þakka. Í lögunum var fjármálastjórn kirkjunnar færð frá biskupi og kirkjuráði til kirkjuþings, en var þó ekki fylgt eftir á kirkjuþingi.

Breytingarnar

Við kirkjuþingskosningar haustið 2022 gaf Óskar Magnússon kost á sér til kjörs til að ná fram þeim breytingum, sem unnið hafði verið að um fjármálastjórn leikmanna í svo mörg ár. Hann hlaut kosningu og tók þar forystu um að þetta næðist fram, sem náðist loks í framkvæmd 9. mars sl., þegar ný fimm manna yfirstjórn þjóðkirkjunnar var kosin á kirkjuþingi með þremur leikmönnum, þar sem leikmaður er formaður, og með tveimur prestum. Stjórnin hefur til framkvæmdar og ábyrgðar sjálfstæðan framkvæmdastjóra. Þetta vil ég þakka sérstaklega núna á þeim tímamótum sem kirkjan okkar stendur frammi fyrir.

Tímamótin

Þau eru núna fyrst og fremst mörkuð þessu starfi og eftirfylgd Óskars Magnússonar við að ná fram samþykkt nýrra kirkjulaga sem leitt hafa af sér kosningu leikmanns sem formanns stjórnar þjóðkirkjunnar um skipulag og fjármál hennar 2024.

Þessi breyting gefur möguleika á enn stærri tímamótum þegar leikmenn að langstærstum hluta kjósa biskup, sem getur þá helgað sig stjórn boðunar og fræðslu um kristna trú og kristin gildi til heilla fyrir íslenska þjóð. Ég óska þessari nýju forystu kirkjunnar, sem verður með nýkjörnum biskupi, allra heilla á þessum tímamótum, eftir fimmtíu ára aðdraganda fyrir þessar breytingar.

Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur í Holti.