„Ef það er einhver sem hefur húmor fyrir sjálfum sér og kringumstæðum sínum er það ég. Húmorinn bjargaði lífi mínu. Þegar maður getur ekki grátið er svo gott að hlæja,“ segir leikarinn Gunnar Smári.
„Ef það er einhver sem hefur húmor fyrir sjálfum sér og kringumstæðum sínum er það ég. Húmorinn bjargaði lífi mínu. Þegar maður getur ekki grátið er svo gott að hlæja,“ segir leikarinn Gunnar Smári. — Morgunblaðið/Ásdís
Mér fannst svo skrítið að vakna og vita að mamma myndi deyja. Við föðmuðumst í myrkinu og þá kemur eitthvert ljós. Þó dauðinn sé ljótur getur hann líka verið fallegur.

Himinninn yfir Tjörninni í Reykjavík er einkennilega grár þennan vormorgun í borginni, en vorið stendur þó eitthvað á sér því lítil snjókorn svífa til jarðar. Í Tjarnarbíói bíður mín leikarinn Gunnar Smári Jóhannesson, ungur maður sem á sér mikla sögu. Í litlu sminkherbergi baksviðs finnum við næði til að ræða saman um lífið og listina sem oft tvinnast saman, en Gunnar er einmitt um þessar mundir að sýna verk sitt Félagsskapur með sjálfum mér, sem hann byggir á sinni sögu. Gunnar, sem er rúmlega þrítugur, hefur upplifað meiri harm á sinni ævi en margir sem náð hafa háum aldri. Hann missti báða foreldra sína þegar hann var á barnsaldri og hafa áföllin að vonum litað allt hans líf. Eftir að hafa misst fótanna um hríð hefur Gunnar fundið sinn tilgang í lífinu og nýtir reynslu sína til að skapa list. Hann notar húmorinn óspart, enda segir hann alveg klárt mál að í harminum búi mikill húmor.

Pabbi hitti krullhærða konu

Gunnar segist alls ekki hafa ákveðið ungur að verða leikari.

„Ég ætlaði alltaf að verða forsætisráðherra. Mamma var pólitísk og var lengi vel í bæjarpólitíkinni á Tálknafirði,“ segir hann.

„Ég fór í leiklist af því að ég var með svo lélega meðaleinkunn úr Kvennó; mér stóð ekkert annað til boða. Ég fékk meira að segja viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu félagslífsins,“ segir Gunnar og hlær.

„Sumir þurfa að fórna sér,“ segir hann kíminn.

Við bökkum aðeins aftur í tíma, en Gunnar er alinn upp á Tálknafirði þar sem hann bjó fyrstu fimmtán ár ævi sinnar. Hann er langyngstur fjögurra systkina, sonur hjónanna Kristínar Ólafsdóttur og Stefáns Jóhannesar Sigurðssonar. Móðir Gunnars var Vestfirðingur í húð og hár en faðir hans borgarbarn sem fór vestur að vinna.

„Pabbi átti víst að vera ólátabelgur úr Kópavogi og hafði verið sendur vestur að vinna í fiski. Honum fannst Tálknafjörður krummaskuð með malarvegum en hitti svo þessa fallegu krullhærðu konu með smitandi hlátur og flutti aldrei til baka,“ segir hann og rifjar upp minningar um föður sinn.

„Pabbi hafði unnið eitthvað á sjó og í vélsmiðju en ég man best eftir honum sem sundlaugarverði í svörtum klossum og flíspeysu. Hann var alltaf í þessum klossum, en hann var örugglega höfðinu lægri en mamma. Föðurfjölskyldan mín er kölluð „einn og ekkert“ því það eru allir svo lágvaxnir,“ segir hann og brosir.

Ógæfan dundi yfir kvöld eitt þegar Gunnar var á sjöunda ári.

„Þetta kvöld var þorrablót í bænum en foreldrar mínir fóru ekki. Mamma var heima en pabbi fór niður á verkstæði að gera við gamlan Citröen. Tjakkurinn gaf sig, seig niður og hann deyr,“ segir Gunnar, en faðir hans var aðeins 46 ára gamall.

Sagði að pabbi væri dáinn

Kvöldið örlagaríka þegar slysið varð er Gunnari enn í fersku minni.

„Mamma var að bíða eftir pabba og maturinn var að kólna. Hún sendi mig yfir í næsta hús svo hún gæti farið að athuga með hann. Ég fann á mér að ekki var allt með felldu, en fór að horfa á bíómynd. Nokkru síðar kom mágkona mömmu inn án þess að banka og ég man að hún gat ekki horft í augun á mér,“ segir Gunnar sem fór svo með henni heim.

„Heima var fullt af fólki og allir í fínum fötum, enda höfðu allir verið á þorrablóti, en mamma sat og starði út í tómið. Ég var sendur inn í herbergi að leika, sem mér fannst sérstakt þar sem klukkan var orðin ellefu um kvöld. Þó ég hafi bara verið sex ára þá vissi ég að eitthvað hafði gerst. Svenni prestur kom svo inn og settist á rúmið hjá mér, en hann er með rosa hlýja nærveru og er gull af manni,“ segir hann og á við Svein Valgeirsson núverandi dómkirkjuprest.

„Ég man hann sagði að pabbi væri dáinn. Ég vissi hvað orðið dáinn þýddi og fór að gráta og mamma kom svo inn að hugga mig. Ég man vel eftir þessu kvöldi en get engan veginn sett atburði í rétta röð,“ segir hann.

„Þetta var svo skrítið; allt í einu var hann ekki þarna lengur að glamra á gítarinn inni í stofu.“

Móðir Gunnars hellti sér út í vinnu og segir Gunnar að það hafi mögulega verið hennar leið til að takast á við sorgina. Auk þess var hún ung ekkja sem þurfti að sjá fyrir fjórum börnum.

„Ég man ekki alveg hvað hún var að vinna við þegar pabbi dó, en síðar varð hún forstöðukona í sundlauginni, byrjaði svo í löggunni á Patreksfirði og var í alls kyns félagsstörfum. Hún var allt í öllu, en vanrækti okkur alls ekki. Hún var yndisleg mamma og það var alltaf lasagna á föstudögum. Hún var hörð kona, en aldrei vond, og sagði hlutina beint út.“

Sofnuðum með mynd af mömmu

Lífið hélt áfram hjá Gunnari litla en ekki var boðið upp á sálfræðiþjónustu fyrir barnið eftir andlát föður hans. Fimm árum eftir missinn, þegar Gunnar var á tólfta ári, reið annað áfall yfir. Móðir hans fékk heilablóðfall og lést tveimur dögum síðar, rétt rúmlega fertug.

„Mamma keyrði sig í þrot. Hún svaf illa og vann of mikið. Hún reykti og drakk mikið kaffi og það endaði með að hún fékk blóðtappa sjöunda janúar 2004. Það var aftakaveður en sendur var sjúkrabíll frá Patreksfirði,“ segir hann og nefnir að fjótlega hafi verið ljóst að flytja þyrfti Kristínu suður á spítala. Sjúkraþyrlan var kölluð út, þrátt fyrir brjálað veður, en allt tók þetta sinn tíma. Gunnar lýsir atburðarásinni:

„Mamma var stödd í íþróttahúsinu þar sem systir mín Eydís var í badmintontíma. Besta vinkona systur minnar, Sveinbjörg, tekur eftir því að mamma virðist vera að missa meðvitund og sér hana halda um höfuðið. Þær báru hana fram og hringt var á sjúkrabíl,“ segir Gunnar og bætir við að leikfimikennarinn á Tálknafirði, kölluð Inga leik, hafi hlúð að Kristínu á meðan beðið var eftir sjúkrabílnum.

„Það er áhugavert að segja frá því að Inga leik, sem sat yfir mömmu þegar líf hennar var að fjara út, reyndi að blása lífi í föður minn þegar hann lést.“

Flogið var með Kristínu suður á Landspítalann á meðan börnin, vinir og ættingjar söfnuðust saman í stofunni heima.

„Síminn hringir stöðugt heima og þetta var sama sagan og þegar pabbi dó, nema þegar þarna er komið eru bræður mínir Árni og Óli búsettir í Reykjavík. Þannig að það vorum bara við Eydís og okkar nánustu. Engin mamma og enginn pabbi,“ segir Gunnar en hann hafði verið staddur hjá vini sínum að spila tölvuleik þegar Sveinbjörg hringdi. Gunnar segist hafa verið hissa að síminn hafi verið til sín og óttaðist strax að eitthvað hefði komið fyrir.

„Eftir að pabbi dó las ég í allt sem fullorðna fólkið sagði. Ég fór heim og þar var fullt af fólki og okkur var sagt að mamma væri alvarlega veik. Við grétum og héldum bænastund. Vinir systur minnar voru þarna líka og við ákváðum að horfa á bíómynd og völdum grínmyndina Goonies. Þarna var stappað af unglingum og allir voru að hjúfra sig hver að öðrum og við reyndum að gleyma um stund hvað væri að gerast. Þarna sér maður hvað sögur geta bjargað og látið mann gleyma, en við meira að segja hlógum stundum að myndinni. En alltaf annað slagið birtist raunveruleikinn því síminn var alltaf að hringja,“ segir hann.

„Okkur var sagt að þetta liti ágætlega út, eftir atvikum, sem þýðir í raun ekkert. En svo hringir síminn aftur og okkur er sagt að læknar gætu ekkert gert. Þá man ég að ég fylltist reiði og fór inn í herbergið mitt og fór að gráta.“

Um nóttina gistu unglingarnir allir saman í flatsæng.

„Við Eydís lágum saman og föðmuðumst og sofnuðum með mynd af mömmu. Mér fannst svo skrítið að vakna og vita að mamma myndi deyja. Við föðmuðumst í myrkinu og þá kemur eitthvert ljós. Þó dauðinn sé ljótur getur hann líka verið fallegur.“

Góður brandari í skugga dauðans

Daginn eftir fóru systkinin til Reykjavíkur en áður hafði þeim verið sagt að Kristín væri heiladauð í öndunarvél og að nú ætti að taka vélina úr sambandi.

„Þar hittum við móðurömmu mína og bræður,“ segir hann, en föðuramma og -afi voru löngu látin og móðurafinn hafði látist árinu áður.

„Á spítalanum lá mamma með alls konar snúrur og slöngur, í vél sem andaði fyrir hana. Ég mun aldrei gleyma þessu. Fallega krullaða hárið á mömmu var svo fínt og þá leið mér eins og þetta væri mamma, þó að hún væri í raun farin. Við fórum með bæn og allir fengu að kveðja hana og ég man að ég sagði við hana „sjáumst seinna mamma mín“ og fiktaði í krullunum hennar, en það hafði ég alltaf gert áður en ég sofnaði,“ segir Gunnar.

„Við fórum út á meðan læknar tóku vélina úr sambandi. Læknir kom svo að tilkynna okkur að hún væri látin og ítrekar þá bón sem við höfðum samþykkt að gefa úr henni líffæri. Hann sagði að það væri kona í Danmörku sem þyrfti hjarta. Einn ættingi minn segir þá: „Það má líka gefa úr henni lungun en þá mun sá hinn sami vakna og vilja reykja Salem lights.“ Og þá hlógum við. Þetta var fyrsti hláturinn í langan tíma enda góður brandari sem ég veit að mamma hefði hlegið að,“ segir Gunnar.

„Amma faðmaði mig að sér og ég sat í kjöltunni hennar. Amma, sem var líka hörð kona eins og mamma, sagðist ætla að flytja vestur og hugsa um okkur sem hún gerði. Óli bróðir gerðist forráðamaður okkar Eydísar og við bjuggum áfram í húsinu okkar en amma flutti í næsta hús,“ segir hann.

„Stuttu síðar man ég að síminn hringdi þegar við Eydís vorum að horfa á uppáhaldsþáttinn okkar, The Block. Það var þá Óli bróðir sem segir ömmu vera komna með krabbamein um allan líkamann og að hún væri að fara að deyja. Eydís tók símtalið og lagði svo á og segir við mig: „Amma er að fara að deyja en mig langar bara að horfa á The Block. Eigum við ekki bara að gera það?“ Ég svaraði því játandi,“ segir Gunnar og segir ömmu sína hafa þraukað í nokkur ár áður en hún lést.

„Hún neitaði að deyja á undan mömmu sinni, langömmu minni, og það tókst henni,“ segir hann.

„Ég man að ég hugsaði að það væri eðlilegt að ömmur dæju, en hún var bara 67 ára.“

Borðaði nesti inni á klósetti

Gunnar flutti til Reykjavíkur þegar hann var fimmtán ára og bjuggu hann og Eydís hjá bróður sínum.

„Að flytja suður var í raun áfall út af fyrir sig,“ segir Gunnar sem var þá að flytja úr 300 manna bæjarfélagi í höfuðborgina.

„Fyrir mér var það bara eins og að flytja til New York. Allt í einu sá maður nýtt fólk á hverjum degi en heima á Tálknafirði þekkir maður alla og lífið er í föstum skorðum. Þá kom þessi félagskvíði yfir mig og ég átti erfitt með að fara í röð eða í strætó,“ segir Gunnar og segir alla hafa tekið vel á móti sér í Kársnesskóla þar sem hann mætti í níunda bekk.

„Þetta var mikil breyting og fyrsta hálfa árið borðaði ég nestið mitt einn inni á klósetti eða á steini úti í frostinu. Ég forðaðist það sem ég þekkti ekki. En krökkunum tókst hægt og rólega að fá mig til að vera með,“ segir hann.

„Ég fór svo í Kvennó og var enn félagskvíðinn en það var guðsgjöf að lenda í bekk með eintómum stelpum sem voru yndislegar. Kvennaskólinn var eins og lítið samfélag, eins og Tálknafjörður,“ segir Gunnar og segir stelpurnar í bekknum hafa hvatt hann til að fara í leikfélagið sem hann gerði á öðru árinu.

„Ég elskaði leikfélagið! Þarna fann ég mig. Eitt sinn komu krakkar úr LHÍ í leikfélagið og sögðu við mig að ég ætti að fara í LHÍ, ég væri svo flottur. Ég vissi ekki hvað LHÍ var og hafði aldrei áður dottið í hug að hægt væri að læra að verða leikari. En þarna sá ég að hægt væri að gera eitthvað úr þessu.“

Þegar Gunnar var á lokaárinu í Kvennó fékk hann kvíðakast og leið eins og hann væri að deyja.

„Þetta kom alveg upp úr þurru og ég vissi ekkert hvað þetta var. Ég byrjaði að ofanda og hjartað virtist ætla út úr bringunni. Ég fékk doða í allan líkamann og vöðvakrampa. Ég fékk þrýsting í höfuðið eins og ég væri að fá heilablóðfall en byrjaði svo að gráta og þá slokknaði á öllu. Ég grét eins og lítið barn,“ segir Gunnar, en farið var með hann á spítala þar sem honum var tjáð að hann hefði fengið kvíðakast.

„Ég skildi ekki hvernig eitthvað andlegt gæti komið fram sem líkamalegir verkir, því þetta var vont. En ég fór svo á Kvíðameðferðarstöðina og lærði allt um þetta, hitti sálfræðinga og gerði upp ýmis mál.“

Hugsunarhátturinn var eitrið

Reiði hafði ekki verið tilfinning sem Gunnar hafði fundið fyrir eftir öll áföllin en um 23 ára aldur breyttist það.

„Yfir mig kemur rosaleg heift og reiði og ég vissi ekkert hvert ég ætti að beina henni. Ég leitaði í eitthvað til að sefa reiðina og fer í áfengi sem gerir allt verra. Ég tók enga ábyrgð á eigin lífi og var skítsama um allt. Ég fór að lesa níhílistabækur og fannst ekkert skipta máli. Ég fór að lifa lífinu eftir því að ekkert skipti máli,“ segir Gunnar.

„Ég varð eins og túramaður og drakk kannski viðstöðulaust í tvo mánuði og svo ekkert í tvo mánuði, en hugsunarhátturinn og áfengið var eitrið. Ég fór í sjálfsvorkunn og fannst að lífið skuldaði mér. Ég átti í alls konar ástarsamböndum, var óheiðarlegur og haldinn sjálfseyðingarhvöt,“ segir Gunnar, en á þessum tíma var hann nemandi í leiklist í LHÍ.

„Mér var skítsama um allt og var í raun aumkunarverður lítill karl,“ segir hann.

„Eftir útskrift fékk ég strax vinnu í Þjóðleikhúsinu og fannst það bara sjálfsagt. Þjóðleikhúsið mótaði mig mikið og ég lærði mikið af öllum þessum góðu leikurum sem þar starfa. Vinnan gekk bara vel og ég lék í Ástu, Kardemommubænum og Jólaboðinu, en mér leið alltaf illa á sviði,“ segir hann og segir að þessi sjálfseyðandi hegðun hafi haldið áfram með hléum.

„Þetta var eiturfræ sem kom og fór. Svo kom covid og ég einangraðist mikið,“ segir Gunnar og segist hafa dottið í algjöra sjálfsvorkunn og hóf að skaða sjálfan sig.

„Ég hugsaði að ég hefði átt ömurlegt líf og að fólk skuldaði mér; að lífið skuldaði mér. Enginn hefði átt jafn slæmt líf og ég. Ég var fórnarlamb minnar eigin sjálfsvorkunnar,“ segir hann.

„Ég fékk stöðu þar sem ég gat miðlað minni þekkingu til yngra fólks, en drakk það frá mér. Ég mætti ekki á æfingar og hugsaði bara um sjálfan mig. Það fer út í það að ég svaf ekki og fór að sjá ofsjónir, en þá var ég farinn að neyta harðari efna. Það er ekki skrítið að fólkið í Þjóðleikhúsinu var farið að sjá að eitthvað væri að,“ segir hann og tekur fram að hann sé ákaflega þakklátur öllu því góða fólki sem þar vinnur.

„Ég vissi að ég væri kominn út í rugl en nennti ekki að breyta þessu því mér var orðið sama um hvort ég myndi lifa eða deyja. Ég reyndi að taka eigið líf og hef ekki sagt mörgum frá því. Það gekk ekki upp, sem betur fer, en ég var á þeim stað að ef ég sá mig í spegli, þá langaði mig að æla.“

Blóðslóðin lá inn í herbergi

Botninum náði Gunnar eina nóttina þegar hann datt á höfuðið og var bjargað fyrir tilviljun.

„Ég var ekki búinn að sofa í fjóra daga og hafði ekkert borðað og drakk ofan í það. Ég man ekkert eftir þessu en nágrannar mínir muna vel eftir þessu. Einn nágranni minn sá blóð í stigaganginum og slóðin lá inn í herbergið mitt. Þar lá ég í rúminu og blóð lak viðstöðulaust úr höfðinu mínu. Nágranninn hringir á sjúkrabíl, en það var blóð út um allt,“ segir Gunnar.

„Læknirinn sagði að ef nágranni minn hefði ekki komið að mér hefði ég bara sofnað og ekki vaknað aftur. Mér hefði blætt út. Það þurfti að sauma tólf spor í ennið. Ég skammast mín hræðilega fyrir þetta tímabil því ég var þess valdandi að þetta kom fyrir sjálfan mig. Það var alls konar fólk í mínu lífi sem hafði gefist upp á mér,“ segir hann og segir vont að vita að hann hafi brugðist fólki.

„Ég hafði verið „funkerandi“ alkahólisti sem vann sína vinnu en svo komu tímabil sem ég svaf ekki og mætti ekki. En þarna vaknaði ég loksins og byrjaði hjá sálfræðingi. Ég ákvað að gera ekki neitt fyrr en ég myndi snúa við mínum hugsunarhætti og ég gerði í raun ekkert annað en að vinna í sjálfum mér þar til ég frumsýndi þetta verk sem er algjör sjálfsskoðun. Eftir frumsýninguna sá ég fólk í salnum sem ég bjóst aldrei við að ég myndi sjá aftur,“ segir Gunnar og er alveg ljóst hvað það var honum mikils virði.

„Mig langar að vera hluti af samfélaginu og í grunninn er ég ekki þessi níhílisti sem ég reyndi að vera. Mér finnst lífið fallegt og það skuldar mér ekki neitt. Það fer upp og niður og ég vil vera sá sem fólk getur leitað til ef það fer niður. Ég ætla aldrei að dæma nokkurn mann,“ segir Gunnar og segist nú hættur að vera fórnarlamb.

„Ef maður ræktar illskuna og sjálfshatrið þá byrjar maður líka að sjá það hjá hinum. Maður hlær að fólki sem hefur það erfitt. Hversu sjúkt er það? En þegar ég hætti þessu og fór að brosa til fólks þá byrjaði ég að koma fram við mitt tráma eins og ég átti að gera.“

Að finna húmor í harminum

Í dag einblínir Gunnar á edrúmennskuna.

„Það er ekki fyrr en maður viðurkennir fyrir sjálfum sér mistökin sín, og að maður sé dauðleg vera og að það sé til eitthvað æðra en við sjálf, að maður byrjar að ná bata og sjá ljósið,“ segir hann og segist í dag vera þakklátur fyrir svo margt.

„Ég er þakklátur fyrir að búa í kjallaraíbúð á Suðurgötunni. Ég er þakklátur fyrir góðu kærustuna mína sem hefur kennt mér svo margt. Hún kenndi mér að maður á ekki að dæma fólk,“ segir Gunnar, en hann kynntist henni rétt áður en hann datt og slasaði sig og hefur hún staðið við hlið hans eins og klettur.

„Lengi vel var hún eina manneskjan sem ég þorði að hitta en hún sannfærði mig um að fólk væri að bíða eftir að fá að hitta mig. Þá fyrst grét ég. Auðvitað er til vont fólk en flestir vilja brosa til þín,“ segir Gunnar og segist sjá fyrir sér gott líf án áfengis.

Gunnar fann sína leið til baka með því að semja einleikinn Félagsskapur með sjálfum mér sem byggist á hans eigin lífsins harmi og kómískum hliðum hans. Sýningar eru nú í Tjarnarbíói og vonar Gunnar að sýningar muni halda áfram í maí og jafnvel aftur í haust.

„Systkini mín kenndu mér að finna húmorinn í harminum. Einn daginn átti ég mömmu og næsta dag var hún öll í slöngum og snúrum á spítala. Það er absúrd. Auðvitað á maður ekki að setja á sig grímu og fara í gegnum lífið eins og það sé grín. En grín er svo sterkt meðal þegar það er notað rétt. Ef það er einhver sem hefur húmor fyrir sjálfum sér og kringumstæðum sínum er það ég. Húmorinn bjargaði lífi mínu. Þegar maður getur ekki grátið er svo gott að hlæja.“

Þannig að það er til húmor í harmi?

„Absólút! Það er mikið hlegið á sýningum og fólk tengir mikið við efnið. Ég er líka með hlaðvarpið Félagsskapur þar sem ég fæ annað fólk til að koma og spjalla um húmorinn í harminum,“ segir Gunnar sem hyggst leggja fyrir sig frekari skrif og jafnvel leikstjórn í framtíðinni.

„Mig langar að gefa út mína fyrstu bók sem er að verða tilbúin og svo er ég með annað leikverk í bígerð sem tengist sorginni.“

Framtíðin leggst vel í Gunnar og að sjálfsögðu mun hann heimsækja Tálknafjörð í sumar, æskustöðvarnar sem eiga hjarta hans.

„Ef ég fer ekki til Jóhönnu frænku minnar á Tálknafirði og fæ knús, þá dett ég aftur á hausinn. Maður þarf að hitta þá sem maður elskar. Ég er hamingjusamur maður í dag og finnst gaman að hitta fólk og vonandi finnst fólki gaman að hitta mig.“