Kostnaður Vinnumálastofnunar (VMST) vegna búsetuúrræða og daggjalda til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd er um 10,5 milljarðar króna frá júlí 2022. Þetta kemur fram í svari frá stofnuninni í gær en fyrirspurnin var lögð fram 4

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kostnaður Vinnumálastofnunar (VMST) vegna búsetuúrræða og daggjalda til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd er um 10,5 milljarðar króna frá júlí 2022.

Þetta kemur fram í svari frá stofnuninni í gær en fyrirspurnin var lögð fram 4. apríl. Þar kom fram að tæplega 1.900 umsækjendur um alþjóðlega vernd eru nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Stofnunin hafi tekið við málaflokknum í júlí 2022.

Alls 1.893 umsækjendur um alþjóðlega vernd eru nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Að sögn upplýsingafulltrúa er búsetuúrræði í raun herbergi fyrir viðkomandi með eldhúsi og baðaðstöðu.

„Þá eru um 1.050 umsækjendur sem búa í eigin húsnæði eða hjá vinum og vandamönnum. Af þeim eru hér um bil 100 í úrræðum á vegum ríkislögreglustjóra vegna fyrirhugaðrar brottfarar. Vinnumálastofnun hefur jafnan ekki milligöngu um útleigu á einstaka íbúðum til umsækjenda. Það húsnæði sem stofnunin er með á leigu er hvert um sig nýtt sem búsetuúrræði fyrir 50-200 einstaklinga.

Þekkja ekki heildarfjöldann

Í gildi eru þjónustusamningar við sveitarfélögin um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og samningar um samræmda móttöku flóttafólks. Sveitarfélög hafa útvegað eða haft milligöngu um leigu á einstaka leiguíbúðum en stofnunin hefur ekki upplýsingar um heildarfjölda leiguíbúða sem nýttar eru í þessum tilgangi hjá sveitarfélögum. Vinnumálastofnun greiðir ekki beina leigu til sveitarfélaga vegna leiguíbúða á þeirra vegum heldur er greitt daggjald á grundvelli þjónustusamnings. Í daggjaldi til sveitarfélaga er m.a. innifalinn kostnaður við húsnæði, fæði, framfærslufé og skólavist.“

Þegar þetta svar lá fyrir var spurt um fjárhæðir daggjalda í þessu samhengi. Svarið var að tímabilið frá júlí til desember 2022, eða eftir að Vinnumálastofnun tók við þessu verkefni, hafi kostnaðurinn numið rúmum 778 milljónum. Þá hafi kostnaðurinn numið tæplega 1.984 milljónum í fyrra og áætlað að hann muni nema um 2,3 milljörðum króna á þessu ári. Sú áætlun miðast við spá um áætlaðan fjölda nýrra umsækjenda um alþjóðlega vernd í ár. Alls er þetta tæplega 5,1 milljarður króna. Við þetta bætist kostnaður Vinnumálastofnunar af áðurnefndum búsetuúrræðum. Hann nam 453,5 milljónum tímabilið frá júlí til desember 2022, rúmum 2 milljörðum árið 2023 og áætlað er að hann muni nema um 2,9 milljörðum í ár. Alls eru þetta tæplega 5,4 ma. Samanlagður kostnaður VMST af úrræðunum og daggjöldunum nemur því um 10,5 milljörðum frá miðju ári 2022.