Þessi mynd var tekin árið 1974 eftir sigur Abba í Eurovision.
Þessi mynd var tekin árið 1974 eftir sigur Abba í Eurovision. — AfP/Olle Lindeborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann sendi henni hrollvekjandi bréf og í einu þeirra stóð: Eigum við brenna saman til bana?

Hálf öld er liðin frá því sænska hljómsveitin Abba vann Eurovision með flutningi sínum á Waterloo. Aðdáendur Abba hafa minnst þessa með margvíslegum hætti. Sterklega er gert ráð fyrir að í Eurovision-keppninni í Malmö í ár verði þessa einnig minnst, en afar ólíklegt þykir að hljómsveitin láti sjá sig. Meðlimir hennar eru fremur lítið fyrir að baða sig í sviðsljósinu og eru auk þess á áttræðisaldri.

Meðlimir Abba eru dáðir um allan heim og hafa lengi getað veitt sér allt sem hugur þeirra girnist. Ógæfan hefur þó kvatt dyra hjá söngkonum hljómsveitarinnar, en þær Agnetha Fältskog og Anni-Frid Lyngstad, hafa þurft að þola þung áföll í einkalífi sínu.

Móðurmissir og týndur faðir

Anni-Frid fæddist árið 1945, móðir hennar, Synni, var norsk en faðir hennar þýskur hermaður, sem sneri aftur til Þýskalands eftir stríðið. Talið var að hann hefði látist þegar skipið sem hann var á sökk. Móðir Anni-Frid og amma fluttu til Svíþjóðar en Synni lést skömmu síðar úr nýrnabilun, einungis tuttugu og eins árs. Anni-Frid, sem var ekki orðin tveggja ára þegar móðir hennar lést, ólst upp hjá ömmu sinni.

Árið 1977 birti unglingatímaritið Bravo plakat af Anni-Frid, sem þá var orðin heimsfræg, ásamt æviágripi hennar og nöfnum foreldra hennar. Hálfbróðir Anni-Frid þekkti þar nafn föður síns og nokkrum mánuðum síðar hitti söngkonan föður sinn í fyrsta sinn.

Anni-Frid var átján ára þegar hún giftist í fyrsta sinn. Maður hennar var tónlistarmaður og þau eignuðust tvö börn. Þau skildu eftir fjögurra ára hjónaband. Hún giftist seinna Benny Andersson og þau urðu hluti af Abba ásamt Agnetha Fältskog og eiginmanni hennar Birni Ulvaeus. Þau skildu árið 1981 en héldu á áfram samstarfi sínu í Abba.

Þungbær dauðsföll

Árið 1986 flutti Anni-Frid til Sviss og giftist nokkrum árum seinna unnusta sínum Heinrich Ruzzo sem var prins, greifi og landslagsarkitekt. Þau bjuggu í kastala og Anni-Frid fékk prinsessutitil. Í gegnum mann sinn kynntist hún Sylvíu Svíadrottningu og þær eru nánar vinkonur. Sælan í einkalífinu varð skammvinn því prinsinn lést úr krabbameini árið 1999, 49 ára gamall. „Ég elskaði hann meira en allt annað,“ sagði Anni-Frid. „Hann breytti lífi mínu að miklu leyti og færði mér gleði og ást.“

Árið áður en eiginmaður hennar dó lést dóttir Anni-Frid, Ann Lise-Lotte, þrítug að aldri eftir bílslys í Bandaríkjunum. Anni-Frid sagði seinna að dauði hennar hefði skapað einmanakennd sem hún búi við enn í dag. Sonur Ann Lise-Lotte, Jónatan, lést síðan árið 2023, 34 ára gamall eftir baráttu við krabbamein.

Anni-Frid, sem er 78 ára gömul, hefur frá árinu 2007 verið í sambúð með hinum breska Henry Smith, sem er greifi, og þau búa í Sviss. Þar sem hún ber bæði prinsessu- og hertogaynjutitil hefur hún rétt á því að vera ávörpuð „yðar konunglega tign“, en ekki er líklegt að mikið sé um titlatog í lífi hennar.

Sagt er að Anni-Frid sé sá meðlimur Abba sem hafi notið sviðsljóssins hvað best. Hún hafði unun af tónleikaferðalögum og því að hitta aðdáendur og tók þátt í því að hanna fatnað á hljómsveitina.

Vafasamur unnusti

Hin hlédræga, viðkvæma og feimna Agnetha Fältskog giftist Birni Ulvaeus árið 1971. Þau eignuðust saman tvö börn en skildu eftir sjö ára hjónaband. Þau héldu áfram samstarfi í Abba en skilnaðurinn reyndist Agnethu mjög erfiður og hún leitaði sér sálfræðimeðferðar. Hjónin fyrrverandi ákváðu þó að láta skilnaðinn ekki standa í vegi fyrir samstarfi í Abba. Björn samdi Abba-lagið fræga The Winner Takes It All um skilnað þeirra.

Agnetha giftist aftur árið 1990 sænskum skurðlækni en þau skildu þremur árum seinna. Árið 1994 framdi móðir Agnethu sjálfsmorð með því að stökkva fram af svölum á heimili sínu. Ári seinna lést faðir Agnethu. Andlegri heilsu söngkonunnar hrakaði mjög í kjölfarið.

Árið 1997, þegar andlegt ástand hennar var bágborið og hún afar einmana, hóf hún ástarsamband við hollenskan mann sem vann við að keyra lyftara. Hann var með þráhyggju gagnvart henni og smám saman áttaði hún sig á því að hann væri veikur. Hún reyndi að slíta sambandi þeirra en hann tók ekki mark henni. Hann sendi henni hrollvekjandi bréf og í einu þeirra stóð: Eigum við brenna saman til bana? Hann birtist óvænt fyrir utan eldhúsglugga hennar og elti hana þegar hún fór út úr húsi. Hún fékk nálgunarbann á hann og honum var gert að yfirgefa Svíþjóð. Hann kom þangað tveimur árum síðar og var þá aftur sendur úr landi.

Agnetha er 74 ára gömul og á fjögur barnabörn. Hún býr á bóndabýli fyrir utan Stokkhólm og er með hunda, hænur og hana og mikið hestastóð.

Hún forðast sviðsljósið en þegar breskur blaðamaður tók viðtal við hana fyrir tveimur árum vegna útgáfu nýrrar plötu hennar var honum sagt að tvennt ætti hann að forðast að spyrja hana um: sjálfsmorð móðurinnar og kærastann einkennilega. Blaðamaðurinn hlýddi því og útkoman var viðtal þar sem söngkonan gaf fjarska lítið af sér – enda vill hún helst af öllu fá að vera friði.