Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Flóðbylgju hörmunga á Gasa er hægt að stöðva í dag ef Hamas-hryðjuverkasamtökin leggja niður vopn og láta gíslana lausa.

Birgir Þórarinsson

Palestínsk stjórnvöld í Ramallah á Vesturbakkanum sendu frá sér tilkynningu fyrir skömmu þar sem þau segja Hamas-samtökin bera fulla ábyrgð á „fjöldamorðum Ísraels á Gasa“. Í tilkynningunni, sem fréttaveitan Palestine Chronicle greinir frá, segir enn fremur að leiðtogar Hamas-samtakanna séu ekki í neinum tengslum við Palestínumenn og veruleikann. Þeir hafi ráðist á Ísrael án þess að spyrja nokkurn álits. Ákvörðunin hafi valdið því að meira en hundrað þúsund Palestínumenn hafi særst eða látist og hungursneyð vofi yfir á Gasa. Afleiðingin verði síðan nýtt hernám Ísraels á Gasa. Talsmaður Abbas-stjórnarinnar á Vesturbakkanum, Jamal Nazzal, sagði í viðtali nýverið að margir Hamas-leiðtogar hefðu aldrei komið til Palestínu. Þeir lifðu lúxuslífi í Katar, Tyrklandi og fleiri löndum. Vonandi kæmu þeir úr felum og færu í vettvangsferð til Gasa. Börnin á Gasa gætu tekið á móti þeim og sýnt þeim göturnar og húsin sem hafa verið jöfnuð við jörðu.

Mótmæli gegn Hamas á Gasa

Í febrúar sl. voru mótmæli á Gasa gegn Hamas. Ókvæðisorð voru hrópuð gegn Sinwar leiðtoga Hamas á Gasa, helsta höfundi hryðjuverkaárásarinnar á Ísrael: „Komdu þér í burtu Sinwar, niður með Hamas, við viljum ekki gísla og við viljum ekki stríð og ekkert sem Hamas gerir, við viljum lifa og lifa í friði, ef Hamas vill ekki frið skulu þeir láta okkur í friði, við erum fórnarlömbin. Sinwar og gengið hans ber ábyrgð á þessari flóðbylgju hörmunga á Gasa.“ Mótmælin má t.d. sjá á Memri TV og YouTube. RÚV hefur ekkert minnst á þessi mótmæli þrátt fyrir að ríkisfréttastofan hafi vikum saman flutt daglega fréttir frá Gasa í sjónvarpi og útvarpi.

Stríðinu er hægt að ljúka í dag

Stríðinu á Gasa og þeim hörmungum sem saklaust fólk þarf að þola þar er hægt að ljúka í dag með því að Hamas-hryðjuverkasamtökin leggi niður vopn og láti gíslana lausa. Þess í stað halda þeir áfram að fela sig innan um óbreytta borgara í skólum og á sjúkrahúsum og beita gíslana ofbeldi og þá sérstaklega konur. Hamas-elítan í Katar heldur svo áfram að fyrirskipa ungum karlmönnum á Gasa að berjast til síðasta manns. Þjáningar óbreyttra borgara varða þá engu. Khaled Mashal milljarðamæringur og Hamas-leiðtogi sagði í viðtali skömmu eftir hryðjuverkaárásina á Ísrael að það væri nauðsynlegt að fórna lífi Palestínumanna til að sigra Ísrael. Hann fórnar að sjálfsögðu engu og lifir með fjölskyldunni í vellystingum í Katar.

Friður fyrir Ísraelsmenn er friður fyrir Palestínumenn

Skömmu eftir að stríðið hófst í október sl. heimsótti ég palestínsk stjórnvöld í Ramallah og átti áhugaverðan fund með félagsmálaráðherra. Hann sagði meðal annars: Það er ekki hægt að fara í samningaviðræður við hernaðararm Hamas. Það kemur ekki til greina af okkar hálfu. Ef Hamas verður áfram við völd er mjög ólíklegt að Vesturlönd muni vinna með þeim. Ef fjárstreymi til þeirra verði stöðvað, þá muni þeir semja. Alþjóðasamfélagið muni einangra þá. Katar hefur verið að fjármagna Hamas. Þeir fóru mánaðarlega niður á Gasa með 30 milljónir dollara í peningum. Hann segir þetta gert með vitund og vilja Bandaríkjanna og Ísraels. Ísrael þurfi að svara því hvort þeir vilji frið eða land. Við viljum palestínskt ríki og frið. Þetta sé síðasta tækifærið til að ná friðsamlegri lausn. Ef við missum af tækifærinu þá verður enginn stöðugleiki, sagði hann, ekkert öryggi og við missum trúna á framtíðina. „Við vonum að þetta sé síðasta stríðið. Við erum reiðubúnir að taka við stjórninni á Gasa um leið og átökum linnir.“

Stríðið á Gasa felur í sér mestu hörmungar sem hafa dunið yfir Palestínumenn í 75 ár. Hryðjuverkaárásin á Ísrael er það versta sem hefur dunið yfir gyðinga síðan í helförinni. Í 90 ár hafa ekki svo margir gyðingar verið drepnir á sama staðnum.

Hvað þarf meira til svo sest verði að samningaborðinu? Friður fyrir Ísraelsmenn er friður fyrir Palestínumenn.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.