Ný ríkisstjórn á Bessastöðum. Forystumenn flokkanna í fremstu röð, f.v.: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson; miðröð f.v. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Lilja Alfreðsdóttir; aftasta röð f.v. Ásmundur Einar Daðason, Svandís Svavarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Ný ríkisstjórn á Bessastöðum. Forystumenn flokkanna í fremstu röð, f.v.: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson; miðröð f.v. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Lilja Alfreðsdóttir; aftasta röð f.v. Ásmundur Einar Daðason, Svandís Svavarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Katrín Jakobsdóttir tilkynnti – ekki alls kostar óvænt – að hún hygði á forsetaframboð, að hún myndi segja skilið við flokkapólitík og beiðast lausnar sem forsætisráðherra

6.4.-12.4.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir tilkynnti – ekki alls kostar óvænt – að hún hygði á forsetaframboð, að hún myndi segja skilið við flokkapólitík og beiðast lausnar sem forsætisráðherra. Hún sagðist ekki myndu sakna stjórnmálanna.

Baldri Þórhallssyni forsetaframbjóðanda og stjórnmálafræðiprófessor á óvart skall hvorki á stjórnlagakreppa stjórnarkreppa við þessa tilkynningu Katrínar, sem hann hafði þó talið fræðilega auðsýnt.

Kosningastjóri Jóns Gnarrs fagnaði hins vegar framboði Katrínar og taldi að von væri á fjörugri kosningabaráttu milli hennar og síns manns.

Þegar var farið að huga að því hvaða ríkisstjórn tæki við og sýndist sitt hverjum. Sjálfstæðismenn sögðu augljóst að Bjarni Benediktsson ætti að leiða ríkisstjórnina sem formaður stærsta flokksins, en Sigurður Ingi Jóhannesson taldi affarasælla að hann tæki það að sér.

Þórdís Gylfadóttir fráfarandi fjármálaráðherra óskaði eftir því að óbyggðanefnd frestaði málsmeðferð sinni um að ríkið sölsaði undir sig allar eyjar og sker við landið og raunar öll örnefni með þessleg nöfn.

Því alls ótengt var greint frá því að sérfræðingahópur á vegum Sjálfstæðisflokksins ynni að tillögum um að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins með jarðgöngum. Helsti sérfræðingur landsins í loftbelgjum stýrði starfinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gekk á fund forseta Íslands og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Forseti fól henni að sitja áfram uns nýtt ráðuneyti hefði verið myndað.

Á meðan áttu stjórnarmyndunarviðræður sér stað milli stjórnarflokkanna, þótt hvíslað væri um að einnig hefði verið rætt við flokka í stjórnarandstöðunni um hvort þeir vildu hlaupa undir bagga ef allt færi á hliðina.

Í stjórnarmyndunarviðræðum var helst rætt um hver skyldu vera áherslumál stjórnarinnar á þessu þingi, en þar voru verðbólga, orkumál og hælisleitendamál efst á blaði. Og jú, hver fengi hvaða stól.

Íbúar í Úlfarsárdal fögnuðu því að bogarstjóri setti frekari íbúðabyggingar þar í sérstakan átakshóp; alveg þar til Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulagsráðs, upplýsti að það væri gert til þess að svæfa málið.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri kynnti á Kirkjubæjarklaustri að hún gæfi kost á sér í forsetakjöri.

Guðjón Eyjólfsson endurskoðandi dó 93 ára.

Ný ríkisstjórn var sögð í burðarliðnum, þar sem Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannnson fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra, Þórdís Gylfadóttir utanríkisráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kæmi ný inn í stjórnina sem matvælaráðherra.

Forsetakjörið vakti þó ekki minni áhuga eftir að Katrín Jakobsdóttir blandaði sér í baráttuna, en samkvæmt könnun Maskínu hafði hún mest fylgi allra frambjóðenda með stuðning 33% svarenda, en Baldur Þórhallsson var með 27% og Jón Gnarr 20%, aðrir mun minna.

Blaðamaðurinn Lasse Skytt var krafinn um þrjár milljónir í bætur af Jyllands-Posten fyrir ritstuld og heimildafölsun.

Þorpið vistfélag seldi byggingarfélaginu Skugga byggingarlóðir sínar á Ártúnshöfða fyrir 11 milljarða kr.

Alls bíða 1.327 börn eftir leikskólarými í Reykjavík.

Deildarmyrkvi varð á sólu.

Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var mynduð og samstarf ríkisstjórnarflokkanna endurnýjað.

Bjarni sagði að engrar stefnubreytingar væri að vænta af hálfu ráðuneytis síns, en hins vegar væru sum mál brýnni en önnur mál.

Forseti Íslands fór í opinbera heimsókn til Seltjarnarness í tilefni 50 ára kaupstaðarafmælis þess. Ferðaðist hann allan daginn í fylgd bæjarstjórans og skoðaði hið markverðasta í þessu víðfeðma sveitarfélagi.

Samskip stefndu Eimskip fyrir rangar sakargiftir í samráði þeirra við Samkeppniseftirlitið.

Ekkert hefur enn bólað á leyfi til hvalveiða í sumar. Það getur sett þær í uppnám, enda fer hver að verða síðastur að munstra mannskap fyrir vertíðina.

Þriðjungi fleiri stúdentar reyndust útskrifast á réttri áætlun eftir styttingu náms til stúdentsprófs en fyrir það.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi. Stjórnarandstaðan andæfði henni kurteislega, en stuðningsmaður Hamas rak upp gól á pöllunum og var fjarlægður.

Ráðherrar skiptust á lyklum að gömlum og góðum sið.

Í ljós kom að Svandís Svavarsdóttir hafði notað síðasta dag sinn sem matvælaráðherra til að senda skammarbréf til atvinnuveganefndar fyrir að gera breytingar á frumvarpi hennar til búvörulaga. Montesquieu var ekki hress.

Við könnun á rannsóknargögnum kom í ljós að stytting náms til stúdentsprófs hafði engin áhrif á einkunnir í háskóla, þvert á það sem aðstandendur rannsóknarinnar við HÍ höfðu haldið fram.

Um 26 þúsund fermetrar í ríkisbyggingum, um 5% eignasafns ríkisins, er ekki í notkun vegna myglu.

Reykjavíkurborg ákvað að stinga sex milljarða króna út úr Orkuveitunni, sem þá á lítið eftir nema tómar flöskur til viðhalds og fjárfestinga.

Fimm daga biskupskjör hófst. Þar takast á þau síra Elínborg Sturludóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðrún Karls Helgudóttir með böggum hildar.

Bankasýslan sendi frá sér skýrslu, þar sem skýringar og viðbárur bankaráðs Landsbankans vegna tilboðs í TM tryggingar voru skotnar í kaf, nokkuð fyrirhafnarlaust. Ekkert í því ferli hefði verið í samræmi við eigendasamning eða vilja eigenda.

Greint var frá því samhliða að öllu bankaráði Landsbankans verði rutt út á komandi aðalfundi bankans, sem verður að teljast vel sloppið.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kvaðst ekki kippa sér upp við undirskriftasöfnun gegn sér, hann og ríkisstjórnin væru með sterkt lýðræðislegt umboð.

Rekstur Ríkisútvarpsins reyndist verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Kann jafnvel að verða gripið til hagræðingar nema skattgreiðendur sýni enn og aftur örlæti sitt í garð stofnunarinnar.

Ferðamenn voru kærðir fyrir að flytja með sér hunda til landsins í bága við lög, en áður óþekkt sníkjudýr með mjög langt nafn á latínu fannst í einum þeirra.

Slæm vatnsstaða í lónum virkjana olli skerðingum á raforkuafhendingu.

Gunnlaugur Rögnvaldsson, blaðamaður og ljósmyndari, dó 62 ára.