„Þarna fæ ég tækifæri til að láta gott af mér leiða en það gefur mér svo mikið til baka og það er mikilvægast,“ segir Guðbjörg sem fer árlega til Síerra Leóne.
„Þarna fæ ég tækifæri til að láta gott af mér leiða en það gefur mér svo mikið til baka og það er mikilvægast,“ segir Guðbjörg sem fer árlega til Síerra Leóne. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Hlíðunum býr leirlistakonan vinsæla, Guðbjörg Káradóttir, sem á og rekur fyrirtæki sitt Ker. Eftir sautján ár sem myndlistarkennari hefur hún snúið sér alfarið að eigin rekstri, enda er mikil eftirspurn eftir fallegum vörum hennar

Í Hlíðunum býr leirlistakonan vinsæla, Guðbjörg Káradóttir, sem á og rekur fyrirtæki sitt Ker. Eftir sautján ár sem myndlistarkennari hefur hún snúið sér alfarið að eigin rekstri, enda er mikil eftirspurn eftir fallegum vörum hennar. Meðal góðra viðskiptavina er Íslandsvinurinn Jodie Foster sem hefur heimsótt hana á litla verkstæðið hennar sem er við hlið heimilis hennar. Ástríðuverkefni Guðbjargar er að aðstoða við keramíkframleiðslu í útjaðri Freetown í Síerra Leóne. Fátt finnst henni skemmtilegra en að stússast þar í öllu, um það bil einn mánuð á ári.

Örlagarík símtöl sama daginn

Upphafið að Afríkuævintýri Guðbjargar má rekja til símtals dag einn fyrir sex árum. Hún var þá stödd í Laugalækjarskóla þar sem hún kenndi, en þann dag hringdi síminn þrisvar og í öll skiptin var henni boðin vinna.

„Fyrst fékk ég símtal og var beðin um að kenna nokkra áfanga í MS, sem ég gerði. Annað símtalið var frá Gunnari Karli í Dill sem bað mig um að búa til um þúsund hluti fyrir Edition-hótelið og ég sló til. Þriðja símtalið var frá konu sem ég hafði eitt sinn keypt keramíkofn af en þekkti ekki mikið þá. Hún spyr mig beint út: „Værir þú til í að koma með mér til Afríku?“ Ég bara hváði, en það var verið að leita að handverksfólki til að endurvekja keramíkverkstæðið Lettie Stuart Pottery í Síerra Leóne sem Regína Bjarnadóttir hjá Aurora-velgjörðarsjóðinum rekur, auk fjölda annarra verkefna. Mig hafði alltaf langað til Afríku þannig að ég sagði já,“ segir Guðbjörg og skellti hún sér út í fyrstu ferðina árið 2018.

„Þarna hafði verið keramíkverkstæði sem Þjóðverjar höfðu sett á stofn en var nú í lamasessi. Aurora hjálpar fólki að koma vinnunni af stað og kaupir svo vöruna af þeim,“ segir Guðbjörg en hún var fengin til að koma út og kenna ungu fólki handbrögðin, skipuleggja starfið og kaupa inn tæki.

„Við fórum tvær út, ég og Halldóra Þorláksdóttir, og áttum að meta hvort þetta væri gerlegt. Þetta var hálfgerð geymsla þegar við komum út en við hófumst handa við að taka til og kynnast fólkinu og þau voru svo sannarlega til í að hjálpa til.“

Flottir hlutir í háum klassa

„Þetta var svo stórkostlegt og á tveimur vikum náðum við að gera svakalega mikið. Þetta var sturlað gaman og við fengum leyfi til að hanna þetta eftir okkar höfði. Við skipulögðum skólastarf sem hófst haustið eftir,“ segir Guðbjörg, en hún kom svo aftur ári síðar þegar skólinn var kominn í gang. Fyrstu nemendurnir átta, ungmenni um tvítugt, hófu þar nám, en kennt var í átján mánuði en að því loknu voru þau ráðin sem starfsfólk.

„Við setjum á stofn skóla þegar okkur vantar starfsfólk. Í dag vinna þarna átta, en kominn er nýr hópur af skólakrökkum að læra,“ segir Guðbjörg og nefnir að vörurnar eru svo seldar til Evrópu undir nafninu Sweet Salone.

„Fyrst var þarna ekkert rafmagn en nú er það komið. Þó er ofninn viðarbrennsluofn og rennibekkirnir fótstignir,“ segir Guðbjörg og nefnir að húsnæðið hafi stækkað og batnað mikið síðan hún mætti þar fyrir sex árum. Hönnunarteymið Hugdetta lagði sitt á vogarskálarnar með því að hanna vörur sem framleiddar eru hjá Lettie Stuart Pottery en auk þess hefur Guðbjörg sjálf hannað vörur.

„Þetta eru mjög flottir hlutir í háum klassa. Fólkið þarna fær allan ágóðann, en það fæst gott verð fyrir keramíkina. Þau eru ótrúlega flink og úthaldsgóð.“

Yndislegt fólk og fallegt landslag

„Ég er búin að fara á hverju ári frá 2018 og yfirleitt er ég í mánuð nema einu sinni var ég í þrjá. Þetta er uppáhaldið mitt, að fara þangað,“ segir hún og nefnir að starf Auroru í Síerra Leóne sé alveg magnað.

Spurð hvað heilli hana við landið, svarar hún:

„Þarna er fallegt landslag og menningin litskrúðug og skemmtileg. Fólkið þarna er svo yndislegt! Það er ótrúlegt að fólk sem hefur gengið í gegnum svo miklar hörmungar geti verið svona jákvætt og dásamlegt,“ segir Guðbjörg, en hún hefur eignast marga góða vini í Síerra Leóne. Ein vinkona hennar, Nancy, skírði dóttur sína í höfuðið á Guðbjörgu.

„Mamman er einn af nemendunum sem komu í fyrsta hollinu. Hún sagði mér þegar hún var ólétt að hún ætlaði að skíra hana eftir mér. Ég er búin að hitta litlu Guðbjörgu en hún er því miður svolítið hrædd við mig,“ segir Guðbjörg og hlær.

„Það er svo yndislegt að eiga litla nöfnu þarna!“ segir Guðbjörg og segist afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með fólkinu í Síerra Leóne.

„Þarna fæ ég tækifæri til að láta gott af mér leiða en það gefur mér svo mikið til baka og það er mikilvægast.“