Ólafur Elíasson
Ólafur Elíasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tillaga minnihlutans var óskýr og ótæk bæði að efni og formi,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja. „Lagt var til að efnt yrði til íbúakosningar um „málið“ eins og það hét í tillögunni en þó aldrei nefnt um hvað nákvæmlega ætti að spyrja

Sigurður Bogi Sævarson

sbs@mbl.is

„Tillaga minnihlutans var óskýr og ótæk bæði að efni og formi,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja. „Lagt var til að efnt yrði til íbúakosningar um „málið“ eins og það hét í tillögunni en þó aldrei nefnt um hvað nákvæmlega ætti að spyrja. Átti að afturkalla allar fyrri ákvarðanir í málinu eða átti að bera listaverkið sjálft eða hluta þess undir atkvæði? Hér var líka í raun lagt til að taka upp mál sem búið var fyrir löngu að ræða til niðurstöðu í tvö og hálft ár í samstöðu allra bæjarfulltrúa.“

Allt samþykkt samhljóða

Á fundi bæjarstjórnar í Eyjum á fimmtudag var fjallað um tillögu Sjálfstæðisflokksins um að bæjarbúum gæfist kostur á að greiða atkvæði um listaverk eftir Ólaf Elíasson sem til stendur að setja upp í nýja hrauninu og hlíðum Eldfells. Verkið á að skírskota til eldgossins árið 1973 og tekur fyrirhuguð staðsetning þess mið af því. Tillagan var felld með fimm atkvæðum meirihlutans sem að standa Fyrir Heimaey og Eyjalistinn.

Í september 2021 var undirrituð viljayfirlýsing Vestmannaeyjabæjar og ríkisins um kaup á listaverki í tilefni þess að árið 2023 væru 50 ár liðin frá goslokum. Katrín Jakobsdóttir þá forsætisráðherra lagði síðan fram á Alþingi og fékk samþykkta þingsályktunartillögu um málið – auk þess sem fyrir liggur samþykkt um framlag ríkisins við kaupin. Þá hafa, segir Páll, verið teknar á annan tug ákvarðana í bæjarstjórn, bæjarráði og í umhverfis- og skipulagsráði varðandi verkefnið. Allt hafi verið samþykkt samhljóða þar.

Fyrir liggur tilbúinn og samþykktur en óundirritaður samningur við Ólaf Elíasson um kaup á verki hans. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 200 milljónir króna. 50 millj. kr. koma frá Vestmannaeyjabæ, 70 millj. kr. úr ríkissjóði í samræmi við fyrrgreinda samþykkt Alþingis og fyrir liggur að menningar- og viðskiptaráðuneyti leggi fram 50 millj. kr. Það sem upp á vantar vegna stígagerðar í Eldfelli segir Páll Magnússon að uppfylli öll skilyrði til úthlutunar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

„Hinn fjárhagslegi rammi verkefnisins er tilbúinn. Að ná því tók sinn tíma og það er helsta skýringin á töfum við verkefnið,“ segir Páll.

Engu raskað óendurkræft

Í Morgunblaðinu í vikunni var haft eftir Eyþóri Harðarsyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Vestmannaeyja, að listaverkið væri hugsanlegt inngrip í náttúru Eldfellsins. Páll Magnússon segir svo ekki vera. Ekkert bendi til þess að ásýnd Eldfells eða náttúrunnar í kring verði raskað óendurkræft. Endanleg hönnun og útlit göngustígs og listaverksins alls eigi eftir að fara í gegnum skipulagsferli áður en framkvæmdaleyfi verða gefin út. Þvert á móti sé í drögum að samningi sem liggja fyrir áhersla lögð á stíg á nýja hrauninu sem fellur vel inn í landslag.

„Þetta listaverk eftir einn frægasta og eftirsóttasta myndlistarmann samtímans á eftir að verða stolt okkar Eyjamanna til langrar framtíðar,“ sagði Páll Magnússon.