Svikamylla Einn blóðdropi átti að duga.
Svikamylla Einn blóðdropi átti að duga.
Sjónvarpsserían The Dropout á Hulu skartar Amöndu Seyfried, „litlu“ stelpunni úr Mamma Mia! The Dropout er byggð á sannri sögu Elizabeth Holmes, ungrar konu sem stofnaði fyrirtæki sem átti að kollvarpa heilbrigðiskerfinu

Ásdís Ásgeirsdóttir

Sjónvarpsserían The Dropout á Hulu skartar Amöndu Seyfried, „litlu“ stelpunni úr Mamma Mia! The Dropout er byggð á sannri sögu Elizabeth Holmes, ungrar konu sem stofnaði fyrirtæki sem átti að kollvarpa heilbrigðiskerfinu. Hugmynd Holmes var að smíða vél sem sem gæti greint sjúkdóma með því að fá aðeins einn lítinn dropa af blóði úr fólki. Holmes fékk fjölmarga ríka menn til að fjárfesta í fyrirtæki sínu Tharonos. Árið 2015 birtist hún á forsíðu Forbes-tímaritsins þar sem hún er kölluð ríkasti ungi kvenkyns frumkvöðull Bandaríkjanna. Ungi milljarðamæringurinn var með fjölda fólks í vinnu, en fyrirtækið var byggt á sandi.

Í seríunni er fylgst með Holmes, sem Seyfried túlkar listilega, og hvernig hún í eins konar siðferðislegri blindni heldur ótrauð áfram að blekkja fólk og svíkja. Hún gekk svo langt að setja upp vélar sínar, sem virkuðu ekki, í Walgreens og setti þar með líf og heilsu fólks í hættu.

Það fór ekki vel fyrir Holmes, en á endanum var hún afhjúpuð og send í fangelsi. Það er merkilegt að þessi svikamylla hafi gengið svona langt og sýnir hvað sannfærandi manneskja með persónutöfra og eldmóð getur í raun náð langt þó ekkert búi að baki. Serían er spennandi og vel leikin og vel hægt að mæla með fyrir ykkur sem eruð með streymisveituna Hulu.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir