Ingvi Þ. Þorsteinsson fæddist 28. febrúar 1930. Hann lést 28. mars 2024.

Útför hans fór fram 10. apríl 2024.

Enn einn kær vinur er látinn, Ingvi Þ. Þorsteinsson náttúrufræðingur, 94 ára að aldri. Þetta er gangur lífsins, því eldri sem maður sjálfur verður, því fleiri hverfa frá manni. En góð vinátta hverfur ekki, minningarnar lifa á meðan við andann drögum. Minningar um Ingva eru allar um frábæran mann, fræðimann, skemmtilegan mann, glaðværan söngvara, útivistarmann, náttúruunnanda, íþróttamann, fjölskyldumann og góðan og traustan vin.

Kynni okkar hófust á unga aldri, Ingvi og Sirrý kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík en Ásgeir og Ingvi á Hvanneyri þar sem Ingvi stundaði búfræðinám eftir stúdentspróf. Vinátta þeirra varð nánari þegar Ásgeir gekk í Oddfellowstúkuna Þorgeir, en þar var Ingvi fyrir. Fljótlega kynnti hann okkur fyrir seinni konu sinni, Ingu Láru, og frá þeim tíma hefur vinátta okkar verið okkur ákaflega dýrmæt. Í tengslum við stúkuna höfum við átt margar frábærar stundir, m.a. á ferðalögum og skemmtifundum.

Við höfum ferðast mikið saman, m.a. til Grænlands í 13 manna vinahópi undir frábærri leiðsögn Ingva, en þar hafði hann starfað í mörg ár og gjörþekkti landið. Sú ferð var frábær og upphafið að árlegri ferð hópsins um tiltekinn hluta Íslands á hverju sumri, vikuferð í hvert sinn. Auk ferðalaga spiluðum við fjögur golf bæði innan lands og utan, spiluðum bridds, hittumst í sumarbústöðum okkar, fórum í gönguferðir, trjáræktarferðir og gerðum margt fleira skemmtilegt.

Inga Lára sér nú á eftir ástkærum eiginmanni sem hún annaðist af mikilli alúð í erfiðum veikindum. Ingvi var mikill fjölskyldumaður, eignaðist fimm dætur og fjölda barnabarna. Við sendum þeim öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ásgeir og Sigríður (Sirrý).

Mig langar í nokkrum orðum að minnast góðs vinar og fyrrverandi yfirmanns míns í gróðurkortagerðinni á Rala til fjölda ára. Fljótlega eftir að henni var hrundið af stað árið 1955 tók Ingvi við stjórn hennar og stýrði í meira en þrjá áratugi. Ingvi réð mig til starfa vorið 1976 en tveimur árum fyrr var samþykkt á Þingvöllum sérstök fjárveiting sem nefnd var Þjóðargjöfin og gróðurkortagerðin naut góðs af því.

Í fyrsta skiptið sem ég hitti Ingva kom hann mér fyrir sjónir sem stórglæsilegur maður, algjör töffari með koparhrútshaus í beltinu. Hann réð mig þarna á staðnum og það varð upphafið að mínu lífsstarfi.

Mig langar að rifja upp örfáar minningar um Ingva og gróðurkortagerðina.

Áður en lagt var af stað norður í Þingeyjarsýslu þarna um vorið var í mörg horn að líta. Ingvi sat á kontórnum og skipaði fyrir, stundum nokkuð hvasst, sérstaklega þegar nær dró brottförinni úr bænum. Þetta olli mér smá kvíða, einkum þegar allir áttu að liggja saman á gólfum í misstórum kofum vikum saman. Seinna kom í ljós að áhyggjur mínar reyndust alls óþarfar.

Þegar bílalestin frá Keldnaholti var komin í Kollafjörðinn varð eins og strengurinn af Esjunni hefði hætt, en það var Ingvi sjálfur sem var hættur að blása. Hann var kominn í íslenska náttúru og þar naut hann sín afslappaður og þannig var það næstum allan tímann sem maður ferðaðist með honum um landið.

Þegar komið var heim á kvöldin í félagsheimili, kofa eða tjöld þá réðu kokkarnir matreiðslunni hver með sinn skítkokkinn. Alltaf var spilaður hornafjarðarmanni á kvöldin við mikinn fögnuð „gömlu karlanna“.

Einn morguninn á Borðeyri voru kokkurinn og skítkokkurinn komnir á stjá fyrir allar aldir eins og venja var. Skítkokkurinn fékk það verk að sjóða og bera eggin á borð. Sá okkar sem var fyrstur að fá sér egg kallaði í „kokksómyndina“ og spurði hvað hann hefði soðið eggin lengi. Skítkokkurinn svaraði kokhraustur: „Að minnsta kosti 10 mínútur.“ Þá sagði sá sem spurt hafði: „Eggið er hérna úti um allt á milli fótanna á mér og vatnið er einungis volgt.“

Þá svaraði skítkokkurinn (sem hafði nýlokið þriðja ári í vélaverkfræði): „Það getur samt verið að vatnið hafi ekki verið nógu heitt.“

Ingvi var mjög duglegur og drífandi yfirmaður. Hann var fylginn sér og lét engan ganga yfir sig. Hann var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum og til marks um það var hann landsliðsmaður í handbolta. Hann spilaði badminton með félögum sínum áratugum saman, var liðtækur í fótbolta og spilaði golf fram á elliár.

Ekki má gleyma því að Ingvi var góður söngvari, hann var þó ekki góður að muna texta, en ef hann kunni ekki textana þá tónaði hann lagið eins og engill. Það var alltaf gaman að vera með Ingva á þessum stundum, sérstaklega á Grænlandi eins og þegar allir sungu „Fagnandi kom ég fyrst á Grund“ sem er söngur kortagerðar. Þetta eru allt góðar endurminningar en eins og Ingvi skrifaði í jólakorti til mín 2012, „það var ekki alltaf sól og logn“.

Við hjónin vottum Ingu Láru og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Guðmundur Guðjónsson.

Ingvi Þorsteinsson var brautryðjandi og leiðtogi í gróðurvernd og landgræðslu. Hann byggði upp gróðurkortagerð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala, nú LbhÍ) sem lá til grundvallar mati á beitarþoli afrétta. Á þeim tíma var tekist mjög á um stefnu í gróðurnýtingu og stjórnun sauðfjárbeitar enda var beitarálag þá mun meira en nú er.

Ingvi hafði stundað nám í gróðurnýtingu í Bandaríkjunum en úthaganýting þar á margt sameiginlegt með fyrirkomulaginu hér á landi. Hann var maður sátta og hafði mikla trú á því að beiting bestu fáanlegu þekkingar gæti skapað grunn fyrir sátt um gróðurnýtingu hér á landi eins og annars staðar og lagði mikið á sig við mótun aðferðafræði og við kortlagningu helstu gróðursamfélaga á afréttum landsins sem kallaði á krefjandi vettvangsvinnu.

Ingvi hvatti okkur yngra samstarfsfólkið eindregið til að leita frekari menntunar og lagði sig fram um að skapa okkur starfsvettvang að loknu doktorsnámi í Bandaríkjunum á sviðum sem tengjast jarðvegi og gróðri. Það féll síðar í minn hlut að tryggja áframhald gróðurkortagerðarinnar með því að semja um að Náttúrufræðistofnun, sem heyrði undir nýstofnað umhverfisráðuneyti, tæki við verkefninu. Það gerði Rala mögulegt að beina kröftunum að úttekt á umfangi jarðvegseyðingar og eiginleigum íslensks úthagajarðvegs.

Áhugi Ingva á gróðurvernd var smitandi og hann hreif fólk með sér með fræðslu og þátttöku í starfi frjálsra félagasamtaka.

Ingvi hefur verið mér góð fyrirmynd og lærifaðir og er ég honum mjög þakklátur. Á kveðjustund votta ég eiginkonu hans og fjölskyldu einlæga samúð.

Halldór Þorgeirsson.

Einstakur vinur og samstarfsmaður minn er látinn, en bjartar minningar um yndislegan atorkumann lifa áfram í huga mínum. Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg nær sextíu og þriggja ára samskipta. Ég minnist samverustunda og samskipta með söknuði og virðingu. Það var mér mikill heiður að fá að starfa með Ingva og eiga við hann samskipti. Öll voru þau á einn veg, hann var traustur vinur, hreinn og beinn og frá honum stafaði mikil innri hlýja.

Ingvi var gæddur miklum mannkostum, fluggáfaður, velviljaður og vinafastur, sannur Íslendingur og afar heilsteypt manneskja. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust.

Á yngri árum stundaði hann íþróttir af krafti og var í fyrsta handboltalandsliði Íslendinga og meðan heilsan leyfði spilaði hann badminton af miklu kappi og þoldi illa að tapa.

Starfsævi Ingva var helguð gróðurrannsóknum og gróðurkortlagningu í þágu gróðurverndar og landbúnaðar. Leiðir okkar Ingva lágu fyrst saman í Gunnarsholti sumarið 1961 þar sem hann vann að gróðurrannsóknum á sandgræðslusvæðum í nágrenni Gunnarsholts. Ingvi var skipaður fulltrúi landgræðslustjóra frá 1965 til 1970. Frá árinu 1955, þá sem starfsmaður atvinnudeildar Háskóla Íslands og á næstu árum varð hann frumkvöðull í gróðurkortagerð hér á landi. Á hverju sumri fór hann með aðstoðarfólki sínu um landið og gróðurkortlagði allt hálendi landsins og hluta af láglendinu. Frá 1992 gerði hann slíkt hið sama á Suður-Grænlandi og mat beitarhæfni lands og ræktunarmöguleika fyrir vaxandi sauðfjárbúskap.

Gróðurrannsóknir hans lögðu á margan hátt grunninn að landgræðslustarfinu. Ingvi var einn af stofnendum Landverndar og stofnaði félagið Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs. Ingvi dreif af stað fyrstu sjálfboðaferðirnar til að græða upp landsvæði með grasfræi og áburði um 1970. Ingvi hlaut landgræðsluverðlaunin árið 1997 fyrir ofangreind störf. Ingvi var ritfær og ritaði fjölda greina, yfirlitsgreina, bókagreina og bækur um landgræðslu, gróðurvernd og gróðurkortagerð.

Um langt árabil á síðari árum höfum við hist reglulega vinirnir, Ingvi og Björn heitinn Sigurbjörnsson. Við nefndum okkur Öldungaráðið og þar leystum við hin ólíklegustu mál líðandi stundar. Við dásömuðum hvað allt var gott í gamla daga en allt ómögulegt og vitlaust þegar við hittumst, öll stjórnsýsla, stjórnmál og landbúnaðarstofnanir á villigötum! Ég minnist þessara samverustunda með mikilli gleði og virðingu fyrir gengnum félögum mínum.

Hann tók veikindum sínum á síðustu árum með einstöku æðruleysi og sagði alltaf að það væri ekkert að sér, og ef það væri ekki þessi árans brotni lærleggur, væri hann farinn á fjöll. Inga Lára hvikaði aldrei frá sjúkrabeði hans og þau voru alltaf jafn ástfangin, þar til yfir lauk.

Inga Lára, dætur, fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð.

Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.