— Morgunblaðið/Eggert
Þegar flett er upp á stikkorðum um það helsta sem gerðist eitt hundrað árum fyrr, 1874, þá er þessa getið: Kristján IX. kóngur færði Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá. Þeir standa þarna vestan við forsætisráðuneytið, Hannes Hafstein sunnan við og Kristján IX. norðan og réttir fram stjórnarskrána til þegna sinna í norðri. Forsætisráðherra stóð við skrifborð sitt og afgreiddi símtöl.

Það hefur á ýmsu gengið á þeim 1.150 árum frá því að Ísland tók að byggjast. Glæstar aldir eru til, einkum framan af, en sum skeið voru köld og erfið á alla lund, alvörueldgos og annað fár og fólkinu fækkaði og langflestir þeirra, sem þraukuðu þó, gerðu það með harmkvælum.

Og það fór vel á því, fyrir 150 árum, að halda myndarlega upp á 1.000 ára afmæli Íslandsbyggðar, þótt fjárstyrkur þjóðarinar hafi verið annar og getan minni en síðar varð. Á því skeiði varð verulegur flótti burt af landinu, meðal annars þangað sem síðar var kallað byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada, og eitthvað varð einnig eftir norðarlega í landinu sem Leifur heppni fann, en sýndi þann myndarskap og manndóm að týna því rækilega aftur, að sögn Oscars Wildes, en með öðru orðalagi þó.

Góðir hlutir gerast hægt

Það varð ekki fyrr en nokkrum árum og reyndar áratugum eftir þúsund ára knallið sem risið varð og verulega tók að braggast, og áður en varði þá var því haldið fram að Íslendingar væru á meðal tíu ríkustu þjóða í heimi, þótt enn sé hangið á því, eins og hundur á roði, á Alþingi, af þingmönnum, sem fáir vita hvað heita, að varla nokkur þjóð sé eins illa fátæk og sú íslenska.

Þetta mun aldrei breytast, því að búið er að finna og festa í sessi þá reglu, sem segir, að hversu vel sem þjóðin í heild sé haldin og þótt jöfnuður sé þar meiri en gengur og gerist í öðrum ríkjum, þá séu 15% þjóðarinnar alltaf og eilíflega hrikalega illa fjáð, einkum sé miðað við þá, sem best séu haldnir í landinu. Þótt sá munur sé minni en algengast er í þeim þrjátíu þjóðum sem best standa almennt í heiminum. Óbifanlega reglan er sú, að 15% verði að teljast fátæk miðað við eitt prósentið þar fyrir ofan og allt upp í 100%. En þar sem þjóðinni allri, hvað sem 15% reglunni líður, hafði stórlega farið fram fjárhagslega þá taldi hún sig geta verulega spýtt í lófa við hátíðarhöldin 1974, á 11 alda afmælinu.

Hvað varð um stjórnarskrána?

Þegar flett er upp á stikkorðum um það helsta sem gerðist eitt hundrað árum fyrr, 1874, þá er þessa getið: Kristján IX. kóngur færði Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá. Þeir standa þarna vestan við forsætisráðuneytið, Hannes Hafstein sunnan við og Kristján IX. norðan og réttir fram stjórnarskrána til þegna sinna í norðri.

Forsætisráðherra stóð við skrifborð sitt og afgreiddi símtöl áður en skokkað var á þingið og horfði á myndina af konungi „vorum“. Þegar hann hafði horft um hríð hugsaði hann upphátt: „Hvar ætli þessi dýrgripur sé geymdur?“ Eftir nokkrar vangaveltur bað ráðherrann um að Guðmundur ráðuneytisstjóri liti til sín. „Mér hefur orðið starsýnt á þessa styttu af kónginum með stjórnarskrána okkar í hendinni, færandi íslensku þjóðinni 1874.“

„Já,“ sagði ráðuneytisstjórinn, „þetta er mikil prýði.“

„Og hvar er hún?“

„Styttan er þarna úti,“ sagði ráðuneytisstjórinn undrandi.

„Já, það fór ekki fram hjá mér, en hvar er stjórnarskráin?“

„Hann er með hana í hendinni,“ svaraði ráðuneytisstjórinn undrandi.

En forsætisráðherrann vildi vita hvar stjórnarskráin sjálf væri geymd.

Ráðuneytisstjóranum var létt og sagðist geta fullyrt að hún væri vel varðveitt, með handritunum eða öðru dýrmæti í þjóðarbókhlöðunni.

„Ég vil sjá hana,“ sagði ráðherrann.

Ráðuneytisstjórinn taldi það sjálfsagt og hann myndi hringja í þá háttsettu embættismenn sem bæru alla ábyrgð. Það dróst að ráðherrann fengi svör og ekkert bólaði á stjórnarskránni. Loks kom ráðuneytisstjórinn og sagði að mikil leit hefði farið fram vegna fyrirspurnar ráðherrans og enn án árangurs. Nú væri helst talið að Kristján IX. hefði tekið stjórnarskrána, sem hann gaf, með sér þegar hann fór.

Þeir 24 forsætisráðherrar, sem höfðu setið í landinu frá 1904 og kannski landshöfðinginn á undan þeim, urðu að láta sér lynda að sjá stjórnarskrána í eir!

Forsætisráðherra vildi að haft yrði samband við danska forsætisráðuneytið og fengin skýring. Því lauk með því, að íslenski forsætisráðherrann tók á móti frumriti Stjórnarskrár Íslands frá 1874, úr höndum Anders Fogh-Rasmussens forsætisráðherra Danmerkur, í Þjóðmenningarhúsinu 11. apríl 2003! Þá voru 129 ár liðin frá því að Kristján IX. hafði afhent Íslendingum stjórnarskrána og svo haft hana aftur með sér til Danmerkur.

Hvað þykir tölvunni merkilegast

Þegar tölvan er spurð um atriði tengd þúsund ára afmælinu 1874, þá segir hún m.a.: Hinn 5. janúar færði Kristján IX. Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá. Annan ágúst hafi Þjóðhátíð verið haldin um allt land vegna 1.000 ára afmælis Íslandsbyggðar, þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar á meðal. Lofsöngur var frumfluttur í Dómkirkjunni og fleiri atriði og smærri eru talin. Þá er þess getið hvaða stórmenni hefðu fæðst þetta mikla ár. Hinn 30. janúar Björg Caritas Þorláksson, doktor í sálfræði. Einar Jónsson myndhöggvari 11. maí, Jónmundur Halldórsson prestur 4. júlí, Ágúst Jósefsson verkalýðsleiðtogi 14. ágúst, Jón S. Bergmann skáld 30. ágúst, Sigfús Blöndal bókavörður við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn, þekktastur fyrir íslensk-danska orðabók, 2. nóvember og loks Rögnvaldur Ólafsson húsameistari, sem fyrstur Íslendinga nam byggingarlist.

En „listinn“ um látna á þessu mikla ári nefnir aðeins einn! „Hinn 7. september lést Sigurður Guðmundsson málari, fæddur 1833.“

Nú er vilji til að minnast 1.150 áranna frá upphafinu. Það væri við hæfi að minnast við það tækifæri rækilega þessa manns sem tölvan nefnir einan um þá sem létust þetta hátíðarár. Tómas Guðmundsson skrifaði um Sigurð málara í tímarit, sem birtist svo í 10. bók í ritsafni sem AB gaf út. Greinin er hrífandi. Vonandi gefst færi á ræða það nánar. Tómas segir að minningarljóðið sem Steingrímur Thorsteinsson yrkir um Sigurð málara „megi ugglaust telja meðal ágætustu minningarljóða á okkar tungu“. Hann líkir Sigurði við reynirunn á bjargi og segir í broti af ljóðinu:

… Svo tak þinn reyni fast í faðm,

mín fósturjörð og gráttu.

Því þína fremd hann framast mat

frá fyrstu lífsins árum,

og hvert þitt sár, er græðzt ei gat,

hann grét með innri tárum.

Þau huldust undir hrímgri ró,

þar hjartans lindir vaka,

svo leynt og djúpt, en logheitt þó,

sem laug und þínum klaka.

Frá kulda lífs nú byrg þitt barn

í beði tryggrar dvalar,

breið á hann rótt þitt hvíta hjarn

und heiði blálofts-salar.

Og haltu minning, móðurláð,

þess manns í hreinu gildi,

sem hefði blóði feginn fáð,

hvern flekk af þínum skildi.