Fjármálakerfi Kari Olrud Moen, framkvæmdastjóri Finans Norge, hélt erindi á ráðstefnu SFF á dögunum.
Fjármálakerfi Kari Olrud Moen, framkvæmdastjóri Finans Norge, hélt erindi á ráðstefnu SFF á dögunum.
Fjármálakerfi Íslands og Noregs eiga margt sameiginlegt en bæði löndin búa að sterku fjármálakerfi sem er vel í stakk búið til að takast á við áhættu. Þetta segir Kari Olrud Moen, framkvæmdastjóri hagsmunasamtakanna Finans Norge sem eru systursamtök Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Fjármálakerfi Íslands og Noregs eiga margt sameiginlegt en bæði löndin búa að sterku fjármálakerfi sem er vel í stakk búið til að takast á við áhættu. Þetta segir Kari Olrud Moen, framkvæmdastjóri hagsmunasamtakanna Finans Norge sem eru systursamtök Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Kari hélt erindi á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu á dögunum en ráðstefnan bar yfirskriftina Að vaxa með þjóðinni – fjármálaþjónusta á Íslandi í 150 ár. Í erindi sínu fjallaði Kari um efnahagsstefnu Noregs og sjónarmið í kringum hana, græna umbreytingu og hlutverk fjármálageirans og EES-samninginn.

Kari tók við sem framkvæmdastjóri Finans Norge í mars á síðasta ári. Hún hefur margra ára reynslu bæði í opinbera og einkageiranum. Hún hefur setið í hinum ýmsu stjórnum og framkvæmdastjórnum í gegnum tíðina en hún sat meðal annars í framkvæmdastjórn DNB-bankans en hann er stærsti banki Noregs.

Kari segir í samtali við Morgunblaðið að fjármálakerfi Noregs og Íslands eigi margt sameiginlegt en bæði kerfin eru lítil, opin og staðsett á norðurhluta heimsins.

„Landfræðileg staðsetning landanna gerir það að verkum að margir sýna okkar löndum og kerfum áhuga. Til allrar hamingju erum við aðilar að Atlantshafsbandalaginu sem gerir stöðu okkar sterkari. En það er engum blöðum um það að fletta að staðan sem uppi er í alþjóðastjórnmálunum mun koma til með að skapa áskoranir þegar fram líða stundir,“ segir Kari.

Aukin stærðarhagkvæmni

Hún bætir við að löndin eigi einnig sameiginlega sögu og séu bæði hluti af evrópska efnahagssvæðinu í gegnum EES-samninginn.

„Við óttumst að Evrópusambandið kunni að draga úr hlutverki samningsins ef EES- og EFTA-ríkin sinni því ekki nógu vel að uppfæra reglugerðirnar í samræmi við samninginn. Því er mikilvægt að við stöndum saman og eigum gott samtal við Evrópusambandið um stefnumörkun.“

Kari bætir við að önnur áskorun sem norska fjármálakerfið standi frammi fyrir og samtökin hafi áhyggjur af sé sérstaki skatturinn sem settur er á fjármálafyrirtæki í Noregi.

„Við greiðum bæði hærri fyrirtækjaskatt og hærri skattur er settur á laun starfsmanna. Sérstaklega skatturinn sem settur er á laun skerðir samkeppnishæfni okkar og getur orðið til þess að verðmætasköpun fer úr Noregi.“

Kari bendir á að á undanförnum árum hafi stærðarhagkvæmni fjármálafyrirtækja aukist og í Noregi hafi samþjöppun orðið, þá einkum í bankageiranum. Því hafi fylgt aukin umræða um samkeppnisumhverfið í geiranum.

„Fjármálakerfið hefur verið sakað um skort á samkeppni en sem betur fer tekur maður eftir því að umræðan er orðin yfirvegaðri og staðreyndadrifnari,“ segir Kari að lokum.

Finans Norge

Hagsmunasamtök fyrir fjármálageirann í Noregi.

Samanstanda af 260 fjármálafyrirtækjum með yfir 50.000 starfsmenn.

Samtökin voru stofnuð árið 2010.

Um 70 manns starfa hjá Finans Norge.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir