Íbúaráð Miðborgar og Hlíða ræddi á síðasta fundi sínum um rakavandamál í Hlíðaskóla. Vill ráðið að tekinn verði saman listi um stöðu þessara mála í skólum Reykjavíkur. Fulltrúi foreldrafélaga í Hlíðum lagði fram bókun á fundinum þar sem lýst er yfir …

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða ræddi á síðasta fundi sínum um rakavandamál í Hlíðaskóla. Vill ráðið að tekinn verði saman listi um stöðu þessara mála í skólum Reykjavíkur.

Fulltrúi foreldrafélaga í Hlíðum lagði fram bókun á fundinum þar sem lýst er yfir áhyggjum foreldra og forráðamanna barna í Hlíðaskóla vegna ástands skólans og kallað er eftir því að farið verði sem fyrst í alvöru endurbætur.

Skýrslur vegna ástands húsnæðis leikskóla, grunnskóla og frístundar hafi verið kynntar í borgarráði árið 2020 með tillögum til næstu 5-7 ára. Í skýrslu Hlíðaskóla kom fram að raki mældist á mörgum stöðum, loftræsting sumstaðar óvirk og loftgæði lítil.

Rakaskemmdir voru lagfærðar en raki finnst á fleiri stöðum og nú hefur fjórum rýmum verið lokað. Rakaskemmdir eru í útveggjum, gólfdúk ásamt myglugróum. Loftræsting er enn í ólagi og loftgæði ekkert aukist síðan 2020. Fjöldi nemenda hefur aukist talsvert og þeir finni fyrir óþægindum. Þá er hljóðvist víða ábótavant sem eykur á óþægindi nemenda.

„Árið 2022 var skipaður stýrihópur um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla og frístundastarf og þörf á endurbótum metin. Þær niðurstöður voru kynntar í borgarráði í apríl 2022. Í skýrslunni var 22 skólum raðað upp í lista þar sem viðhaldsþörf var metin. Margir þættir lágu þar að baki og allir metnir út frá frummati til að gæta samræmis. Síðan listinn var birtur hefur margt breyst, sum verkefni að klárast og önnur hugsanlega bæst við. Það væri því tilvalið að birta listann eins og hann stendur í dag,“ segir í bókuninni.

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða tók heilshugar undir bókun fulltrúa foreldrafélaga í Hlíðum.
sisi@mbl.is