Mér finnst of mikið um öfgaboðskap og skyndilausnir, segir Geir Gunnar.
Mér finnst of mikið um öfgaboðskap og skyndilausnir, segir Geir Gunnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þær segja: Nú er ég 65 ára og búin að vera í megrun í fimmtíu ár. Það hefur ekki skilað mér neinu nema 20-30 aukakílóum. Ég er alltaf í einhverju aðhaldi.

Góð heilsa alla ævi án öfga er bók eftir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðing og heilsuráðgjafa á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Hann er með meistaragráðu í næringarfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og BS-gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Hann er einnig með einkaþjálfarapróf frá Keili á Ásbrú.

„Ég útskrifaðist sem næringarfræðingur fyrir átján árum og hef séð á þeim tíma að heilsan er ekki bara næringin okkar, hún er miklu flóknari,“ segir Geir Gunnar. „Í þessari bók hef ég tekið saman fjóra mikilvæga þætti sem tengjast heilsu: Næringu, hreyfingu, svefn og sálarlíf og kem með leiðbeiningar tengdar þeim. Allir þessir þættir spila saman. Ef svefninn er lélegur get ég lofað þér því að það verður erfitt fyrir þig að koma þér í ræktina af því að þú hefur ekki orkuna í það. Þú leitar þá í kaffi og sætindi gegn betri vitund. Sálarlífið er svo sá þáttur sem stærsti hluti okkar nútímamanna á erfiðast með að bæta. Ef það er erfitt þá verður svefninn um leið erfiður. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og það á vel við um þessa fjóra þætti heilsunnar sem tengjast allir saman.

Í bókinni fjalla ég um skynsamlegar leiðir og markmið til að styrkja þessar fjórar grunnstoðir heilsunnar án öfga. Mér finnst of mikið um öfgaboðskap og skyndilausnir í samtímanum.

Ég reyni að nálgast efnið á skilmerkilegan, skemmtilegan og aðgengilegan hátt, en veit um leið að ég get aldrei skrifað bók sem hentar öllum því við erum mismunandi.“

Um öfgar í tengslum við heilsu segir Geir Gunnar: „Ég fæ fólk í næringarráðgjöf sem er mjög spennt fyrir bætiefnum og verður undrandi þegar ég ráðlegg því að borða almennilegan mat og borða reglulega. Maður nær betri árangri án öfgakúra.

Í starfi mínu sé ég hversu mikið er um lífsstílssjúkdóma: stoðkerfisverki, offitu, sykursýki, alls konar óþol og ofnæmi. Eldri borgarar eru sumir með vöðvarýrnun. Ég fræði fólk um mataræði og sykursýki, mataræði og ofþyngd, tala almennt um mataræði og um þarmaflóruna sem gleymist í nútímalíferni en er stór hluti af ónæmiskerfinu og heilbrigði okkar.“

Bless við megrunarkúra

Í bókinni ræður Geir Gunnar lesendum frá því að fara í megrunarkúr. „Það eru sérstaklega margar konur sem hafa lýst sama ferlinu fyrir mér. Þær segjast hafa byrjað í megrun 14-16 ára gamlar. Þær segja: Nú er ég 65 ára og búin að vera í megrun í fimmtíu ár. Það hefur ekki skilað mér neinu nema 20-30 aukakílóum. Ég er alltaf í einhverju aðhaldi. Þessar konur segja líka: Ég sá mynd af mér þegar ég var fimmtán ára. Ég var í fínu formi, það var ekkert að mér. Hvernig datt mér þetta í hug?

Það er einhver skert sjálfsmynd sem atti þeim út í þetta. Ég segi: Segjum bless við megrunarkúra og tökum upp heilsusamlegan lífsstíl.“

Hann segir offitu vera að aukast í samfélaginu. „Við lifum í miklu neyslusamfélagi þar sem er mikið aðgengi að afþreyingu og skyndibitum. Það er svo miklu auðveldara að sitja heima og horfa á Netflix og borða snakk í staðinn fyrir að fara út í göngutúr. En við erum að kála okkur í velmegun og þægindalífsstíl.“

Í bókinni er að finna uppskriftir frá eldhúsi Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. „Þessar uppskriftir koma frá Halldóri Steinssyni matreiðslumeistara stofnunarinnar. Ég er mjög stoltur af því að hafa þær í bókinni og gefa fólki hugmyndir að hollum og girnilegum máltíðum,“ segir Geir Gunnar.

Í bókinni þakkar hann móður sinni, Ernu Brynjólfsdóttur, fyrir að hafa vakið áhuga hans á heilsusamlegum lífsstíl. „Það var ekki fyrr en fyrir um fimmtán árum að ég áttaði mig á því hversu mikill áhrifavaldur mamma hefur verið varðandi áhuga minn á heilsu frá unga aldri. Á sínum tíma var hún fyrst til að mæta í ræktina í Þrekmiðstöð í Hafnarfirði, löngu áður en World Class varð til. Hún hefur alla tíð verið mjög meðvituð um heilsuna og ýtti mér út í næringarfræði. Hún hefur verið mín fyrirmynd og hefði hún haft tækifæri til þá væri hún virtur prófessor í næringarfræðum.“

Bók fyrir almenning

Einn kafli bókarinnar hefur heitið Það sem skjólstæðingar mínir hafa kennt mér. „Þeir hafa kennt mér heilmikið. Hver einasti dagur er lærdómur,“ segir Geir Gunnar. „Þeir hafa kennt mér að heilsan er flókið fyrirbæri. Hún hefst í höfðinu. Margir sem koma í næringarráðgjöf hafa átt í erfiðleikum vegna samskipta í fjölskyldunni eða í vinnunni. Þessir erfiðleikar leiða til þess að fólk borðar óhollara eða gleymir að borða.

Ég var með einn níræðan sem var svo flottur að mig langaði til að setja hann í formalín. Hann sagði: Ég byrjaði að stunda jóga um áttrætt og það hefur skilað mér svona teinréttum og flottum. Orð hans urðu til þess að ég er byrjaður að stunda jóga, ég er ekki góður í því en mér finnst það gaman.“

Góð heilsa alla ævi án öfga er fyrsta bók Geirs Gunnars en sennilega ekki sú síðasta. „Ég er með margar bækur í kollinum. Ég er ekki að skrifa þessa bók fyrir afreksfólk í íþróttum heldur er ég að reyna að ná til almennings og sýna að hinn hófsami vegur þarf ekki að vera leiðinlegur.“