Fullt verð fyrir þjóðarrétt Íslendinga, pylsu og kók á Bæjarins beztu, er nú 1.130 krónur. Stök pylsa kostar 740 krónur og gosið kostar 390 krónur. Verðið hefur hækkað mikið á síðustu árum eins og sjá má á meðfylgjandi grafi

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fullt verð fyrir þjóðarrétt Íslendinga, pylsu og kók á Bæjarins beztu, er nú 1.130 krónur. Stök pylsa kostar 740 krónur og gosið kostar 390 krónur. Verðið hefur hækkað mikið á síðustu árum eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Hækkunin á pylsum nemur 48% frá því síðla árs 2020. Á móti kemur að hægt er að spara talsvert með því að kaupa tilboð á stöðunum. Verð á pylsum er svipað á öðrum vinsælum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda 730 krónur í pylsuvagninum við Laugardalslaug og 760 krónur í pylsuvagninum við Ingólfstorg.

Baldur Ingi Halldórsson, einn eigenda Bæjarins beztu, segir að því sé auðsvarað af hverju verð á pylsum hefur hækkað mikið síðustu ár. „Það er hækkandi kostnaður á öllu, laun og fleira. Pylsan sjálf hefur hækkað minnst,“ segir hann en síðasta verðhækkun var fyrir jólin í fyrra. Ef aðeins er horft til síðustu tveggja ára nemur hækkunin 23%, frá 600 krónum og upp í 740 krónur. Gosið hefur hækkað um 30% frá því um mitt sumar 2021. Baldur segir að fyrirtækið geti ekki keppt við sölustaði á borð við Ikea sem selji pylsur sem hliðarbúgrein en Bæjarins beztu bjóði hins vegar upp á góð tilboð. Þau hafi verið kynnt til sögunnar á tímum kórónuveirunnar og notið mikilla vinsælda æ síðan. Þannig sé hægt að fá pylsu og kók saman á 990 krónur og tvær pylsur og kók á 1.490. „Svo er fjölskyldutilboðið okkar sennilega besta matartilboðið á landinu. Sex pylsur og fjögur gosglös kosta 3.000 krónur. Þetta tilboð hefur ekki verið hækkað í þrjú ár.“ Bæjarins beztu var sett á stofn árið 1937.

Nú selur fyrirtækið pylsur á 12 stöðum. Átta þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu, einn í Reykjanesbæ og þrír á Keflavíkurflugvelli.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon