Garðar Karlsson fæddist 15. janúar 1935. Hann lést 29. febrúar 2024.

Útför hans fór fram 4. apríl 2024.

Garðar frændi var í hugum okkar systra alltaf umvafinn einhverjum ævintýraljóma. Tilvera hans var okkur sérstaklega framandi í æsku þar sem hann var lengst af eina systkini mömmu sem bjó á höfuðborgarsvæðinu. Hann var til dæmis „tölvufræðingur“ löngu áður en við vissum nokkuð um tölvur. Hann átti fallegt heimili og þrjá skemmtilega og flotta krakka sem höfðu meira að segja sum lært í útlöndum.

Samband Garðars við foreldra okkar var náið og margt skemmtilegt brallað í gegnum tíðina. Hann og pabbi gerðu einn veturinn kringum 1992 upp gamla Land Roverinn hans afa í bílskúrnum í Fannafold og jókst samgangurinn upp frá því. Garðar og Guðrún, kona hans, fóru með foreldrum okkar í margar skemmtilegar utanlandsferðir og þá oftast til Króatíu og Spánar. Fyrir nokkrum árum fóru þau svo saman til Suður-Kóreu í frábæra ævintýraferð sem var þeim mikil upplifun og uppspretta skemmtilegra minninga.

Garðar frændi var heimshornaflakkari. Hann hafði einlægan áhuga á ólíkum menningarheimum sem hann heimsótti með opnum huga, til dæmis Perú, Kína og Víetnam, en líka staði sem fæstir ferðast til, eins og Úkraínu og Norður-Kóreu. Honum fannst það ekkert tiltökumál, á þessum stöðum væri þetta bara eins og það væri og það þyrfti að virða.

Við kveðjum kæran frænda, sem var hraustur og hress fram á síðasta dag, með þakklæti í hjarta og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Brynhildur, Inga Hanna og Gunnlaug.

Garðar móðurbróðir minn er farinn og þrátt fyrir að eiga eingöngu eitt ár í nírætt þá kom það á óvart. Ég sem hélt að hann gæti skákað elli kerlingu! Við heyrðumst mánuði fyrr, hann á Tenerife ásamt Guðrúnu sinni og ég á landi ísa að hugsa mér til hreyfings. Þá var ekki að sjá að neitt amaði að, hann brúnn og sællegur í vetrardvöl og búinn að vera að lagfæra ýmislegt í íbúðinni sem þau leigðu, eigandanum til mikillar ánægju.

Við Garðar áttum sameiginlegt áhugamál sem var að ferðast og þau Guðrún hafa heimsótt fleiri staði en flest önnur pör sem ég þekki. Saman fórum við til Suður-Kóreu, Suður-Afríku og Perú en fyrir réttu ári vorum við í Machu Picchu sem Garðar hafði dreymt um að koma til í áratugi.

Garðar var að velta fyrir sér að koma með til Argentínu og Brasilíu í haust en í staðinn er hann farinn í annað ferðalag. Um leið og við Árni Björn þökkum Garðari frænda mínum samfylgdina vottum við Guðrúnu, Kalla, Siggu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Eyrún Ingadóttir.

Stundaglasið hans Garðars frænda míns er tæmt og komið að ferðalokum. Garðar fæddist og ólst upp á Staðarbakka, sonur Sigríðar föðursystur minnar og eiginmanns hennar Karls Guðmundssonar. Garðar átti eldri bróður Guðmund, fæddur 27. október 1931. Þegar Garðar var á öðru ári veiktist móðir þeirra, veikindin ágerðust og fátt var til ráða. Stuttu fyrir jólin 1936 var hún flutt til Hvammstanga og þaðan með skipi til Reykjavíkur á sjúkrahús þar sem hún lést í maí 1937. Upp frá þessum atburðum brá Karl búi og flutti til Reykjavíkur. Litlu bræðurnir urðu eftir í skjóli Margrétar ömmu okkar, Önnu móðursystur þeirra og fjölskyldunnar á Staðarbakka. Þar ólust þeir upp fram um fermingaraldur. Þá fóru þeir til föður síns og stjúpmóður Gunnlaugar Hannesdóttur sem höfðu flutt norður í Miðfjörð, reist sér hús og stofnað heimili á Laugarbakka.

Mínar bernskuminningar á Staðarbakka eru nátengdar þeim bræðrum þótt ég muni ekki eftir þeim sjálfum þar vegna aldursmunar okkar. Í hópi tömdu hestanna heima voru Dofri sem Garðar átti og Gumma-Rauður, en sá hestur var í miklu uppáhaldi hjá mér. Í fjárhúsunum hjá Gísla frænda voru tvær mjög áberandi kindur sem þeir bræður áttu. Sú sem Gummi átti var mógolsótt, hún var grannvaxin, stórbeinótt, með þunna ull. Garðars kind var svartgolsótt, þéttvaxin, ullarreyfið þykkt, kindin sú lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Báðar þessar kindur voru eftirminnilegar og sérstakar. Inni hjá Margréti ömmu og Gísla (það var „hinumegin“) var geymdur lítill dótakassi sem bræðurnir höfðu átt. Það var gaman að sitja þar í friði og ró og fá að skoða og leika með innihald hans.

Árin liðu, börn og unglingar uxu úr grasi, urðu fullorðið fólk og lífið var alls konar eins og gengur. Tengsl bræðranna við móðurfólkið sitt voru alla tíð mjög sterk og sá þráður slitnaði aldrei.

Garðar var alla tíð heilsuhraustur og einstaklega unglegur. Hann bar aldurinn vel, teinréttur með liðað hár svo erfitt var að trúa að þar færi maður að nálgast nírætt.

Eitt af því sem við Garðar frændi minn áttum sameiginlegt var ferðabakterían og löngunin til að heimsækja lönd, einkum á fjarlægum slóðum. Garðar og Guðrún kona hans voru samstiga í að láta drauma sína um ferðalög um heiminn rætast. Það er sennilega ógjörningur að kasta tölu á öll þau lönd sem Garðar og Guðrún hafa sótt heim og ekki öll í alfaraleið. Við hjónin geymum góðar minningar um ferð með þeim til Marokkó og nú á síðari árum höfum við oft dvalið samtímis þeim á dásamlegu, sólríku Tenerife. Nú hefur Garðar lagt upp í sína hinstu för. Honum fylgja blessunaróskir og innilegar þakkir fyrir samfylgdina.

Margrét Benediktsdóttir.