Andstæður „Flytjendum tókst að fylla stórt rými Hallgrímskirkju og Ragnheiður Ingunn [Jóhannsdóttir] dró vel fram andstæður í bæði styrk og tempói og hafði góða stjórn á stígandi verksins, sem rís hæst um miðbikið.“
Andstæður „Flytjendum tókst að fylla stórt rými Hallgrímskirkju og Ragnheiður Ingunn [Jóhannsdóttir] dró vel fram andstæður í bæði styrk og tempói og hafði góða stjórn á stígandi verksins, sem rís hæst um miðbikið.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hallgrímskirkja Arvo Pärt – Stabat Mater ★★★★½ Tónlist: Arvo Pärt, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir, Tryggvi M. Baldvinsson, Atli Heimir Sveinsson og Guðrún Böðvarsdóttir. Texti: Halldór Laxness, Jacopo da Todi, Clemens Bretano, Hallgrímur Pétursson, Einar Sigurðsson úr Eydölum og Davíð Stefánsson. Jóna G. Kolbrúnardóttir (sópran), Guja Sandholt (mezzósópran), Þorsteinn Freyr Sigurðsson (tenór), Unnsteinn Árnason (bassi), Hlíf Sigurjónsdóttir (fiðla), Martin Frewer (víóla) og Þórdís Gerður Jónsdóttir (selló). Stjórnandi (í Stabat mater): Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir. Tónleikar í Hallgrímskirkju laugardaginn 30. mars 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það var haganlega saman sett efnisskráin á páskatónleikum í Hallgrímskirkju á dögunum en miðpunktur hennar var flutningur á verkinu Stabat mater eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt (f. 1935). Það var rammað inn með flutningi á sálmum og einleiksverkum, allt frá útsetningum Elínar Gunnlaugsdóttur (f. 1965) á söngvísu og sálmi úr Hrappseyjarkveri, Maríukvæði Atla Heimis Sveinssonar (1938-2019), tveimur verkum eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750) og svo sálmum eftir þau Hildigunni Rúnarsdóttur (f. 1964) og Tryggva M. Baldvinsson (f. 1965). Þá var enn fremur flutt kammerverkið Es sang vor langen Jahren fyrir rödd, fiðlu og víólu eftir Pärt.

Söngvísan í Hrappseyjarkverinu (Jesú, vor allra endurlausn) og Maríukvæði Atla Heimis voru sungin í kvartett af þeim Jónu G. Kolbrúnardóttur, Guju Sandholt, Þorsteini Frey Sigurðssyni og Unnsteini Árnasyni. Þau stóðu innarlega í kórnum og hljómurinn var ákaflega fallegur og þéttur. Raddirnar blönduðust vel og texti heyrðist skýrt, sem ekki er alltaf raunin í Hallgrímskirkju. Ríkulegur eftirhljómur kirkjunnar nýttist líka vel, enda bárust raddirnar um allt. Falleg útsetning Elínar Gunnlaugsdóttur á stuttum sálmi úr Hrappseyrarkverinu (Heilagur, heilagur) var líka prýðileg og vel flutt.

Sitt hvorum megin við Stabat mater Pärts lék Hlíf Sigurjónsdóttir Andante-kaflann úr a-moll-fiðlusónötu Bachs (BWV 1003) og Þórdís Gerður Jónsdóttir blandaði saman saraböndunni úr sellósvítu nr. 3 í C-dúr eftir Bach (BWV 1009) og palestínskri vögguvísu (Khet el Sobeh). Þórdísi tókst vel upp, Hlíf síður.

Arvo Pärt er hvað frægastur fyrir tintinnabuli-stílinn sem hann hóf að þróa um og eftir 1976. Stíllinn er kenndur við „litlar bjöllur“ og í sem stystu máli má segja að einfaldleiki eða jafnvel tærleiki einkenni hann. Þó svo að reglur stílsins séu býsna strangar er mínímalísk útkoman einkar falleg og þekkist um leið, hvar sem hún kann að hljóma. Bæði Stabat mater (1985) og Es sang vor langen Jahren (1984) eru samin í þessum stíl. Fyrra verkið var í öndverðu samið fyrir þrjá einsöngvara og strengjatríó (fiðlu, víólu og selló) en síðar útsetti tónskáldið það fyrir kór og hljómsveit. Það var upphaflega útgáfan sem hljómaði í Hallgrímskirkju undir styrkri stjórn Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur en það voru þau Jóna G. Kolbrúnardóttir, Guja Sandholt og Þorsteinn Freyr Sigurðsson sem sungu með strengjatríóinu. Viðkvæmt upphafið (og erfið innkoma sópransins) hljómaði vel en verkið er að mörgu leyti uppfullt af andstæðum þegar kemur að tempói, ásamt því að mynda þagnir (eða nánast kúnstpásur) á milli hendinga. Verkið er alls ekki einfalt í flutningi og það mæðir mikið á öllum flytjendum. Intónasjón var hins vegar góð og stíll Pärts nýtur sín einkar vel í Hallgrímskirkju; hann kallast þannig að mörgu leyti á við einfaldleika kirkjunnar. Flytjendum tókst að fylla stórt rými Hallgrímskirkju og Ragnheiður Ingunn dró vel fram andstæður í bæði styrk og tempói og hafði góða stjórn á stígandi verksins, sem rís hæst um miðbikið. Gullfallegt niðurlag þess, Amen-ið (sem gekk frá sópran yfir í tenór), var ákaflega vel útfært.

Guja Sandholt söng Es sang vor langen Jahren með þeim Hlíf (fiðla) og Martin (víóla) og gerði það mjög vel. Dimm og þykk röddin naut sín vel, textaframburður var skýr og jafnvægið milli raddar og strengja var gott (rétt eins og í Stabat mater). Hér var sama upp á teningnum og í Stabat mater, það er að segja stíll Pärts naut sín vel í kirkjunni og eins „einfaldur“ og hann kann að hljóma, þá eru verk hans í tintinnabuli-stílnum gríðarlega „efnismikil“.

Kvartettinn (Jóna, Guja, Þorsteinn Freyr og Unnsteinn) söng svo loks tvo sálma eftir Hildigunni Rúnarsdóttur (Hygg að og herm hið sanna og Miskunna þú mér, mildi guð) og perlu Tryggva M. Baldvinssonar, Kvöldvers. Um var að ræða vel útfærðan samsöng, hreinan og með góðri blöndun. Flutningurinn var samhentur og kvartettinn tók sér sinn tíma, það er að segja andaði vel á milli hendinga, en þó aldrei á kostnað eðlilegrar framvindu. Það var sérstaklega áhrifamikið að sjá kvöldsólina skína inn í kórinn í flutningnum á Kvöldversinu og einkar viðeigandi.

Tónleikunum lauk svo á flutningi á sálmi Guðrúnar Böðvarsdóttur (1902-1936), Á föstudaginn langa, við kvæði Davíðs Stefánssonar. Það fór einkar vel á því að nótur af sálminum væru prentaðar í efnisskrá tónleikanna og gestum þannig gefinn kostur á að taka undir í kvöldsólinni. Ég vil líka hrósa aðstandendum tónleikanna fyrir að óska eftir því að ekki yrði klappað fyrr en í lokin; þannig myndaði þessi klukkustund í Hallgrímskirkju nokkurs konar hugleiðslu og gerði alla umgjörð bæði hátíðlega og innilega.