MR vann A-sveit Menntaskólans í Reykjavík vann öruggan sigur á Íslandsmóti framhaldsskóla sem fram fór í húsi Máls og menningar sl. laugardag. Sigursveitin var skipuð (f.v.) Iðunni Helgadóttur, Ingvari Wu Skarphéðinssyni, Gunnari Erik Guðmundssyni og Þorsteini Jakobi Þorsteinssyni.
MR vann A-sveit Menntaskólans í Reykjavík vann öruggan sigur á Íslandsmóti framhaldsskóla sem fram fór í húsi Máls og menningar sl. laugardag. Sigursveitin var skipuð (f.v.) Iðunni Helgadóttur, Ingvari Wu Skarphéðinssyni, Gunnari Erik Guðmundssyni og Þorsteini Jakobi Þorsteinssyni. — Ljósmynd/Ingvar Þ. Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rússinn Jan Nepomniachtchi, sem þó fær ekki að tefla undir fána þjóðlands síns, hafði náð forystunni í áskorendamótinu í Toronto í Kanada þegar fyrri helmingi mótsins lauk seint á fimmtudagskvöldið. Nepo gerði jafntefli við Bandaríkjamanninn Hikaru…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Rússinn Jan Nepomniachtchi, sem þó fær ekki að tefla undir fána þjóðlands síns, hafði náð forystunni í áskorendamótinu í Toronto í Kanada þegar fyrri helmingi mótsins lauk seint á fimmtudagskvöldið. Nepo gerði jafntefli við Bandaríkjamanninn Hikaru Nakamura og á sama tíma tapaði Indverjinn Gukesh fyrir Firouzja. Takist Nepo að vinna mótið yrði það í fyrsta sinn í skáksögunni sem sami skákmaður ynni áskorendakeppnina þrisvar í röð.

Staðan í hálfleik bendir til þess að úrslitin muni ráðast í síðustu umferð, en hún er þessi fyrir áttundu umferð sem hefst í dag kl. 18:30 að íslenskum tíma: 1. Jan Nepomniachtchi 4½ v. (af 7) 2.-4. Fabiano Caruana, Ramesh Praggnanandhaa, og Dommaraju Gukesh 4 v. 5.-6. Hikaru Nakamura og Santosh Vidit 3½ v. 7. Alireza Firouszja 2½ v. 8. Nijat Abasov 2 v.

Sex efstu virðast eiga möguleika en trúlega er Íraninn Firouzja, sem nú teflir fyrir Frakka, búinn að stimpla sig út úr baráttunni þótt hann hafi unnið Gukesh í sjöundu umferð.

Indversku keppendurnir þrír hafa sett skemmtilegan svip á mótið með frábærum tilþrifum. Þetta á ekki síst við Praggnanandhaa sem er að draga upp úr pússi sínu gamlar byrjanir og jafnvel gambíta sem legið hafa nær ósnertir í glatkistu skáksögunnar. Þó er það Santosh Vidit sem unnið hefur glæsilegustu skák mótsins er hann lagði Nakamura að velli í 2. umferð og hefði Mikael Tal verið fullsæmdur af þeim tilþrifum sem þar sáust:

Áskorendamótið í Toronto 2024; 2. umferð:

Hikaru Nakamura – Santosh Vidit

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3 Bc5 5. c3 O-O 6. O-O d6 7. h3 Re7 8. d4 c6 9. Bd3 Bb6 10. dxe5 dxe5 11. Rxe5

Byrjunin hefur þróast ekki ósvipað því sem gerist í ítalska leiknum. Eins og oft gerist hefur svartur látið peð af hendi og áhorfendur veltu því fyrir sér hvort einhver von væri til þessi að Vidit myndi endurheimta þann feng eða fá einhverjar bætur fyrir. En næsti leikur kom eins og þruma úr heiðskíru lofti …

-Sjá stöðumynd-

11. … Bxh3!

Hvað er nú þetta? Hugmyndin var að svara 12. gxh3 með 12. … Db8!. Hörfi riddarinn kemur 12. … Dg3+! o.s.frv. 13. Bf4 yrði svarað með 13. … Bc7! og svartur vinnur manninn til baka. „Stockfish“ telur þó að besta leið hvíts sé akkúrat þessi og best sé nú 14. Bg3 Bxe5 15. f4 með flókinni stöðu. Nakamura mat stöðuna þannig að best væri að láta biskupinn eiga sig.

12. Rc4?! Bg4! 13. Dc2 Bc7 14. e5 Rd7 15. Bxh7+

Gallinn við þennan „peðsvinning“ er sá að talsverður tími tapast. En aðstaða hvíts var þegar orðin erfið.

15. … Kh8 16. Bd3 b5! 17. Re3 Rxe5 18. Be2 f5!

Annar frábær leikur. Eftir 19. Rxg4 fxg4 vakna ýmsar hótanir gagnvart kóngsstöðu hvíts. Og nú grípur Naka í neyðarhemilinn.

19. f4 Bb6!

Aldrei að víkja! Það er a.m.k. gagnlegt að temja sér þá hugsun. Það er engin leið að losa þessa leppun.

20. Kf2 Rd5! 21. Hh1+ Kg8 22. fxe5 Dg5!

Hvítur er varnarlaus.

23. Ke1 Bxe3 24. Bxg4 Dxg4 25. Bxe3 Rxe3 26. De2 Dg3 27. Kd2 Had8 28. Kc1 Dg5 29. b3

Svartur á ótal fráskákir með riddaranum. Vidit var fljótur að finna þá bestu.

29. … Rf1+!

– með hugmyndinni að leika næst 30. … Rg3. Nakamura gafst upp.

Hægt er fylgjast með baráttunni á Lichess, Chess.com og fleiri vefsvæðum.