Endurnýjun Tvö fyrstu skiltin hafa verið sett upp. Fleiri LED-skilti munu rísa við þjóðvegi landsins á næstunni.
Endurnýjun Tvö fyrstu skiltin hafa verið sett upp. Fleiri LED-skilti munu rísa við þjóðvegi landsins á næstunni. — Ljósmynd/Vegagerðin
Vegagerðin hefur sett upp tvö ný veður- og upplýsingaskilti, annars vegar við hringtorgið við Selfoss og hins vegar við Biskupstungnabraut. Mikil tækniframþróun hefur orðið á þessu sviði og því er mögulegt að setja upp fullkomnari skilti en áður hafa verið í notkun við vegi landsins

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur sett upp tvö ný veður- og upplýsingaskilti, annars vegar við hringtorgið við Selfoss og hins vegar við Biskupstungnabraut. Mikil tækniframþróun hefur orðið á þessu sviði og því er mögulegt að setja upp fullkomnari skilti en áður hafa verið í notkun við vegi landsins.

Á skiltunum eru allajafna birtar upplýsingar um veður, þ.e. vindátt, vindhraða og hitastig. Einnig kemur fram frá hvaða veðurstöð upplýsingarnar eru fengnar. Fari vindhviður yfir 15 m/sek. birtast einnig upplýsingar um það.

Hægt er að koma öðrum skilaboðum til vegfarenda ef þörf reynist á, svo sem aðvörunum eða upplýsingum um lokanir. Skiltin eru tengd miðlægu stjórnkerfi í vaktstöð Vegagerðarinnar sem vaktar þau og stjórnar.

Til stendur að setja upp fleiri skilti af þessu tagi á næstunni, eða á hringvegi (1) við Kotströnd milli Hveragerðis og Selfoss, í Refasveit við Blönduós og við Reykjanesbraut, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

„Umferðarmerki eru mikilvægur hluti af umhverfi stíga, gatna og vega þar sem þau upplýsa vegfarendur um hvað framundan er, hvort sem það eru boð eða bönn, viðvaranir, vegvísanir, þjónustumerki eða annað viðeigandi,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Breytileg upplýsingaskilti

Í upphafi voru umferðarmerki „föst“ að því leyti að ekki var hægt að breyta því sem þau sýna vegfarandanum. Breytileg umferðarmerki geta, eins og nafnið gefur til kynna, sýnt breytilegar upplýsingar.

Slík breytileg upplýsingaskilti eru þó ekki ný af nálinni á Íslandi, samanber veðurskilti sem gefa til kynna vindhraða, vindhviður o.þ.h. breytilegar upplýsingar.

Fyrir nokkrum árum setti Vegagerðin af stað verkefni og var tilgangur þess að kanna grundvöll fyrir því að opna á frekari notkun breytilegra umferðarskilta á Íslandi. Með rýni á gögnum og þekkingu erlendis frá mætti leggja grunn að því hvað hægt er að tileinka sér hér á landi.

„Á síðustu árum hefur tækni fleygt fram varðandi breytileg umferðarmerki með ljósdíóður (LED) í fararbroddi. Möguleikum á breytilegum upplýsingum á umferðarskiltum hefur farið hratt fjölgandi. Hugsanleg hagnýting á Íslandi gæti verið breytilegur umferðarhraði á þekktum og afmörkuðum óveðrastöðum, breytilegur umferðarhraði á stofnbrautum, viðvaranir vegna veðurs (gular/appelsínugular/rauðar viðvaranir) eða óvenjulegra aðstæðna. Möguleikarnir eru margir í þessum efnum,“ sagði m.a. í kynningu.