Efstur Bryson DeChambeau er á sex höggum undir pari vallarins.
Efstur Bryson DeChambeau er á sex höggum undir pari vallarins. — AFP/Maddie Mayer
Bandaríkjamennirnir Max Homa, Scottie Scheffler og Bryson DeChambeau voru efstir og jafnir í forystunni á Masters-mótinu í golfi, fyrsta risamóti ársins, þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi. Homa og DeChambeau voru báðir á sex höggum undir pari…

Bandaríkjamennirnir Max Homa, Scottie Scheffler og Bryson DeChambeau voru efstir og jafnir í forystunni á Masters-mótinu í golfi, fyrsta risamóti ársins, þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Homa og DeChambeau voru báðir á sex höggum undir pari eftir tvo hringi á meðan Scheffler, efsti maður heimslistans, var á sex höggum undir pari þegar hann átti enn eftir að leika fimm holur á öðrum hring.

Homa hefur aldrei áður unnið risamót, en hann á best tíunda sæti á slíku á Opna breska meistaramótinu á síðasta ári. DeChambeau á einn sigur á risamóti, Opna bandaríska árið 2020. Scheffler er sömuleiðis með einn sigur á risamóti en hann vann einmitt Masters-mótið árið 2022.

Aðstæður á Augusta-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum voru nokkuð erfiðar og aðeins sex af sextán efstu kylfingum léku á undir pari vallarins í gær. Var skor kylfinga því nokkuð slakt í samanburði við fyrsta hring.

Svíinn Ludvig Åberg lék best allra í gær eða á 69 höggum, þremur undir pari. Hann er jafn í sjöunda sæti á tveimur undir.

Tiger Woods, sem hefur unnið 15 risamót á ferlinum, komst í gegnum niðurskurðinn með því að leika á 72 höggum í gær. Er hann á samtals einu höggi yfir pari og jafn í 22. sæti. Er um mikið afrek að ræða fyrir Tiger að komast í gegnum niðurskurðinn en hann hefur verið að glíma við þrálát meiðsli og keppir lítið um þessar mundir.