Andrés Bretaprins skundar á undan öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar til minningarathafnar um Konstantín Grikkjakonung.
Andrés Bretaprins skundar á undan öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar til minningarathafnar um Konstantín Grikkjakonung. — AFP/Andrew Matthews
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert lát er á þeirri opinberu niðurlægingu sem Andrés Bretaprins þarf að þola vegna vinskapar síns við bandaríska kynferðisafbrotaglæpamanninn Jeffrey Epstein, sem lést í fangelsi árið 2019. Eins og alkunna er sagðist eitt af fórnarlömbum…

Ekkert lát er á þeirri opinberu niðurlægingu sem Andrés Bretaprins þarf að þola vegna vinskapar síns við bandaríska kynferðisafbrotaglæpamanninn Jeffrey Epstein, sem lést í fangelsi árið 2019. Eins og alkunna er sagðist eitt af fórnarlömbum Epsteins, Virginia Guiffre, hafa verið neydd til að hafa kynmök við Andrés prins sautján ára gömul. Þessu hafnaði prinsinn algjörlega í frægu sjónvarpsviðtali við BBC.

Netflix frumsýndi nýlega kvikmyndina Scoop þar sem sjónum er beint að tildrögum þess að BBC nældi árið 2019 í sjónvarpsviðtalið við prinsinn. Þar tókst fjölmiðlakonunni Emily Maitlis að fá prinsinn til að afhjúpa sjálfhverfu sína, yfirlæti og dómgreindarskort. Í viðtalinu ræddi prinsinn um vinskap sinn við Epstein og hafnaði ásökunum um að hafa átt kynmök við Virginiu Guiffre. Vandræðalegustu augnablik þessa viðtals eru sviðsett nokkuð nákvæmlega í Scoop. Guiffre hafði sagt í viðtali að prinsinn hefði svitnað áberandi mikið þegar þau dönsuðu saman. Andrés hafnaði þessu í BBC-viðtalinu og sagðist vera með sérstakt einkenni sem gerði að verkum að hann gæti ekki svitnað. Hann neitaði að þekkja Guiffre en hafði þó borgað henni fúlgur fjár til að losna við óþægileg málaferli. Undir lok viðtalsins var prinsinn spurður hvort hann sæi eftir vinskap sínum við Epstein. Það sagðist hann ekki gera því í gegnum hann hefði hann öðlast margvísleg mikilvæg tengsl.

Viðtali prinsins við BBC hefur verið lýst sem stórslysi. Prinsinn opinberaði sig þar sem hrokafullan forréttindapésa með engan skilning á lífi venjulegs fólks. Það að hann skyldi ekki, undir lok viðtalsins, afneita Epstein, þegar honum gafst gott tækifæri til þess, kostaði hann það litla sem eftir var af æru hans.

Eftir viðtalið sagði prinsinn móður sinni, Elísabetu drottningu, að viðtalið hefði gengið mjög vel. Hann var einn um þá skoðun. Viðtalið varð til þess að hann hætti að sinna konunglegum skyldum og konungsfjölskyldan hefur reynt að halda honum frá sviðsljósinu eins og hægt er. Það tekst ekki alltaf, Nokkru áður en Scoop var frumsýnd baðaði prinsinn sig í sviðsljósinu við minningarathöfn um Konstantín Grikkjakonung. Vilhjálmur prins átti þar að vera staðgengill föður síns, Karls III, sem er í krabbameinsmeðferð. Vilhjálmur þurfti á síðustu stundu að afboða sig, að því er talið er vegna veikinda konu sinnar. Andrés greip sjaldséð tækifæri til að sýna sig og sanna og skálmaði á undan öðru konungbornu fólki til athafnarinnar. Hann bar sig eins og réttborinn ríkiserfingi. Breska pressan fór hamförum og spurði: Hver hleypti þessum manni út? Svona lagað má ekki endurtaka sig!

Afturendi hneykslar

Leikstjóri Scoop er Philip Martin, en myndin er gerð eftir bókinni Scoops: Behind the Scenes of the BBC's Most Shocking Interviews eftir Sam McAlister fyrrverandi ritstjóra Newsnight. Hin þekkta leikkona Gillian Anderson leikur Emily Maitlis, Keeley Hawes leikur aðstoðarkonu prinsins og Rufus Sewell er í hlutverki Andrésar prins. Myndin hefur almennt fengið góða dóma, enda er hún ágætlega gerð og leikararnir standa sig með prýði og þá sérstaklega Sewell. Einhverjir gagnrýnendur segja Anderson of kuldalega og sjarmalausa í hlutverki sínu og einn þeirra sagði hana túlka Maitlis á sama hátt og hún lék Margaret Thatcher í The Crown.

Eitt atriði myndarinnar fer fyrir brjóstið á viðkvæmum áhorfendum en þar sést afar voldugur og ber afturendi prinsins skamma stund – og stelur vitanlega senunni. „Var þetta virkilega nauðsynlegt?“ spurðu siðprúðir áhorfendur. Sewell hefur upplýst að þarna hafi verið um gervirass að ræða þar sem afturendi hans sjálfs sé engan veginn jafn umfangsmikill og í myndinni.

Myndin hefur vakið mikla athygli og skapað umræðu, sem eru ekki góðar fréttir fyrir bresku konungsfjölskylduna sem vill skiljanlega að sem mest þögn ríki um Andrés, svarta sauðinn í fjölskyldunni, sem var eftirlætisbarn Elísabetar drottningar. Andrés var frá byrjun dekraður og vel meðvitaður um ágæti sitt. Konunglegir álitsgjafar hafa verið ófeimnir við að lýsa honum sem heimskum og hrokafullum. Sagt er að erfitt sé að vinna fyrir hann því hann geri stöðugar kröfur og sýni starfsfólki yfirlæti. Fræg er sú saga að hann geymi tugi bangsa úr barnæsku sinni á sérstökum sófa, þar sé þeim raðað upp í nákvæmri röð og verði starfsfólki það á við tiltekt að rugla röðinni þá kalli það um leið yfir sig reiði prinsins. Atriði sem minnir á þetta er að finna í Scoop.

Önnur mynd á leiðinni

Upprifjunum um BBC-viðtalið margfræga er engan veginn lokið. Amazon er nú að gera þriggja þátta myndaflokk um sama efni. Þar eru sjóaðir leikarar í aðalhlutverkum; Michael Sheen mun leika Andrés prins og Ruth Wilson verður í hlutverki Emily Maitlis. Í þáttunum verður fjallað um feril Maitlis þar til hátindinum er náð með viðtali hennar við prinsinn. Líklegt má teljast að þessi mynd fái ekki síður mikla athygli en Scoop.

Eins og við má búast hefur enginn meðlimur konungsfjölskyldunnar tjáð sig um Scoop. Fullyrt er að dóttir Andrésar, Beatrice, sé afar ósátt því hún er persóna í myndinni og þar er gefið sterklega í skyn að hún hafi hvatt föður sinn til að fara í hið örlagaríka viðtal.

Andrés á sér þann draum að endurreisa mannorð sitt. Það virðist útilokað. Sumir segja að hann hafi fengið makleg málagjöld því hann hafi ætíð komið fram af hroka og yfirlæti og aldrei sýnt vott af iðrun.