Bósa saga: „Greinir þá ekki hversu oft þau léku sér á þeirri nótt.“ Mynd eftir Tryggva Ólafsson.
Bósa saga: „Greinir þá ekki hversu oft þau léku sér á þeirri nótt.“ Mynd eftir Tryggva Ólafsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margur er bardaginn í Íslendingasögum en ekki eru þær að sama skapi fullar af opinskáum lýsingum á ástaratlotum. Innan þeirrar bókmenntagreinar er oftast látið duga að segja elskendur hafa „hjalað margt“ eða þá að konan „snúi sér í rekkju“ að ástmanni sínum

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Margur er bardaginn í Íslendingasögum en ekki eru þær að sama skapi fullar af opinskáum lýsingum á ástaratlotum. Innan þeirrar bókmenntagreinar er oftast látið duga að segja elskendur hafa „hjalað margt“ eða þá að konan „snúi sér í rekkju“ að ástmanni sínum. Lesandi verður sjálfur að geta í eyðurnar. Þessi staða gerbreyttist þegar franskar riddarabókmenntir bárust hingað norður á hjara veraldar á 13. öld. Þýðingar á frönsku sögunum fluttu með sér boðskap um hæversku og kurteisi í mannlegum samskiptum sem fram að því hafði verið forfeðrum okkar næsta framandi og þær höfðu þar með umtalsverð félagsleg áhrif. Ekki kemur á óvart að ástamál og hörundarhungur urðu öðruvísi í meðförum lífsglaðra Fransmanna en norrænna dauðyfla. Með Frökkum er ásta- og kynlíf leikur, skemmtun allra tíma.

Ein af gersemum íslenskra miðaldabókmennta er Bósa saga, sem er talin vera undir áhrifum frá frönskum riddarasögum. Sagan var líklega samin á 14. öld og er fræg fyrir bersöglar og glettnar lýsingar á ástarfundum Bögu-Bósa við hispurslausar bóndadætur sem hann gerir jafnan „góðan danganda í skemmtunarlaun“. Árni Björnsson gaf söguna út árið 1971 með skýringum og ansi djörfum teikningum norsks listamanns. Sverrir Tómasson gaf söguna út aftur árið 1996 með ítarlegum skýringum og myndum sem Tryggvi Ólafsson gerði af næmu listfengi.

Smávegis sýnishorn af safaríkum lýsingum er frásögn af því þegar Bósi gengur til sængur einnar bóndadótturinnar, lyftir klæðum af henni og segist vilja fara undir þau. „Hvað viltu hér gjöra?“ spyr hún. „En ég vil herða jarl minn hjá þér,“ segir Bósi. „Hvað jarli er það?“ sagði hún. „Hann er ungur og hefur aldri í aflinn komið fyrri, en ungan skal jarlinn herða.“ Hann lætur hana að taka milli fóta sér – „en hún kippti hendinni og bað ófagnað eiga jarl hans og spurði því hann bæri með sér óvæni þetta svo hart sem tré. Hann kvað hann mýkjast í myrkholunni … Greinir þá ekki hversu oft þau léku sér á þeirri nótt.“

Eftirmáli Sverris Tómassonar við þessa sívinsælu fornaldarsögu slær á allar efasemdir um að skýringar við forna texta geti verið spennandi. Samfara gríðarlegum lærdómi er þar fjallað á býsna líflegan hátt um bakgrunn sögunnar, byggingu hennar, ástarfarslýsingar og orðfæri. Litskrúðugt myndmálið er leyst upp í frumparta sína af vísindalegri nákvæmni: „Getnaðarlimurinn heitir í Bósa sögu jarl, foli, og á einum stað vill Bósi hólka stúfa sinn,“ ritar Sverrir og lætur þess jafnframt getið að sams konar orðfæri sé í frönskum gamansögum eða fábyljum (fabliaux), sem Bósa saga dregur dám af. Þar er þetta líffæri nefnt „aðalsmaður“, „foli“, „skott“ eða „skaufi“. Sköp kvenna eru í Bósa sögu nefnd „traus“ – „og er það líklega tökuorð úr frönsku trousse, kynfæri konu, orð sem auk þess merkir litla öskju, buddu.“ Þetta er textafræði sem segir sex.