Skáld „Ég er vön að segja að ég skrifi um venjulegt fólk sem kemur illa fram við fólkið sem það elskar,“ segir rithöfundurinn Marie Aubert.
Skáld „Ég er vön að segja að ég skrifi um venjulegt fólk sem kemur illa fram við fólkið sem það elskar,“ segir rithöfundurinn Marie Aubert. — Ljósmynd/David B. Torch
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mig langaði upphaflega að skrifa um það að vera einhleyp, lýsa því hvernig það er að vera einhleyp og barnlaus kona um fertugt og hvað það er sem hún þráir,“ segir norski rithöfundurinn Marie Aubert um tilurð bókarinnar Voksne mennesker …

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Mig langaði upphaflega að skrifa um það að vera einhleyp, lýsa því hvernig það er að vera einhleyp og barnlaus kona um fertugt og hvað það er sem hún þráir,“ segir norski rithöfundurinn Marie Aubert um tilurð bókarinnar Voksne mennesker eða Fullorðið fólk, sem kom út í Noregi árið 2019 en í íslenskri þýðingu Kari Óskar Grétudóttur í fyrra.

Aubert verður gestur á höfundakvöldi í Norræna húsinu þriðjudaginn 16. apríl kl. 19, þar sem þær Silje Beite Løken ræða höfundarverk Aubert. Samtalið fer fram á norsku.

„Ég vildi skrifa um eitthvað hrátt. Maður setur alltaf upp ákveðna grímu og sýnir ekki öðrum hvað það er sem maður þráir í raun og veru. Það er ekki alltaf satt þegar við segjumst vera ánægð með lífið sem við lifum. Það getur verið erfitt að tala um vonbrigði lífsins og það á auðvitað ekki bara við um einhleypar konur, þetta á við um okkur öll á einhvern hátt,“ segir Aubert.

„Mig langaði að skrifa um það hvernig manni getur fundist maður fjarlægur öðru fólki á sama aldri. Hvernig fólk fjarlægist hvað annað þegar sumir eignast maka og börn og aðrir ekki. Báðir aðilar geta fundið fyrir gjánni sem skapast. Svo varð þetta saga um barnleysi og samband þessara tveggja systra og öfundina á milli þeirra.“

Öfund og samkeppni um ást

Í Fullorðnu fólki segir af systrunum Idu og Mariu sem hittast í sumarbústað fjölskyldunnar. Ida, sem er nýorðin fertug, er einhleyp og barnlaus, en Maria sem er nokkrum árum yngri á maka og stjúpdóttur. Fljótlega kemur í ljós að Maria á að auki von á barni og eykur það mjög á spennuna milli systranna.

„Ég á systur sem er sautján árum yngri en ég ólst í raun upp sem einkabarn,“ segir Aubert. „Ég hef alltaf verið forvitin um sambönd systkina og ég hef almennt mikinn áhuga á sálfræðinni á bak við náin sambönd og valdadýnamíkina sem getur skapast. Hvernig fólk getur verið náið hvert öðru en líka í samkeppni og getur fundið fyrir ákveðnu valdaójafnvægi. Það er oft einhver öfund og samkeppni um ást foreldranna sem einkennir systkinasambönd. Fjölskyldubönd eru afar flókin og það er alltaf áhugavert að skoða hvernig fólk sem er náið getur sært hvað annað djúpt. Og maður verður að sætta sig við að þannig sé það, að þessi sambönd beri með sér bæði góðar og slæmar tilfinningar. Það er kannski það sem gerir fólk fullorðið, að átta sig á að maður getur ekki ætlast til að náin sambönd séu alltaf fullkomin.“

Afhjúpandi hugsanir

Ida segir söguna í fyrstu persónu og lesandinn hefur ótakmarkaðan aðgang að hugsunum hennar sem eru afar afhjúpandi.

„Það eru mjög skiptar skoðanir á Idu. Sumir lesendur og gagnrýnendur hafa orðið mjög reiðir við hana og finnst hún fyrirlitleg persóna sem eyðileggur sambandið við systur sína. En margir hafa mikinn áhuga á Idu og sjá sjálfa sig í henni,“ segir Aubert.

„Vinur minn sagði eitt sinn við mig að Ida væri ekki meðvituð um að það væri einhver að lesa hugsanir hennar og það er alveg rétt. Ef þú settir hlerunarbúnað í höfuðið á þér og gæfir einhverjum aðgang að hugsunum þínum alveg filterslaust á erfiðum dögum þá væri það ekki fallegt. Við fáum aðgang að hugsunum hennar á hátt sem við erum ekki vön.

Ida framkvæmir ekki allt það slæma sem hún hugsar en hún gerir þó ýmislegt. Ég hef gaman af að fara með persónurnar mínar á staði þar sem þær gera eitthvað af sér, þar sem þær missa á einhvern hátt sjálfsvirðinguna og gera eitthvað óásættanlegt. Það er mikilvægt að viðurkenna að við erum ekki að öllu leyti góð, það er líka hluti af eðlisávísuninni að vernda okkur sjálf. Þetta er að miklu leyti saga um höfnun og hvernig Ida bregst við því að finnast sér vera hafnað. Hvernig hún bregst við undirliggjandi spurningum um hvort hún sé elskuð af fólkinu í kringum sig. Hún gerir það sem hún þarf til þess að brynja sig gagnvart þeirri höfnun.“

Aubert segist almennt upptekin af breyskleika fólks. „Ég er vön að segja að ég skrifi um venjulegt fólk sem kemur illa fram við fólkið sem það elskar. Ég hef einfaldlega mjög mikinn áhuga á hegðun fólks og hvers vegna það gerir það sem það gerir. Hvernig höfnun og skömm og tilfinningin að maður sé ekki nógu góður eða nógu elskaður getur náð taki á manni.“

Vekur stórar spurningar

Barneignir og barnleysi koma mikið við sögu í verkinu. „Hugmyndin um að eignast börn skiptir flesta miklu máli, á einn eða annan hátt. Ef mann langar að eignast börn hvernig fer maður þá að því, sérstaklega ef það er ekki einfalt mál? Að sumu leyti er það einfaldara en það hefur nokkru sinni verið að vera einhleyp og barnlaus kona um fertugt. Saga Idu hefði verið allt önnur ef hún hefði verið uppi fimmtíu árum fyrr og ég tala nú ekki um hundrað. Valkostirnir eru miklu fleiri. En hugmyndin um kjarnafjölskylduna er enn rosalega sterk í samfélaginu á Norðurlöndunum og það getur verið mjög erfitt ef maður er ekki hluti af þess konar strúktúr. Svo er þetta tilfinningalegt og tilvistarlegt vandamál. Það vekur margar af stóru spurningum lífsins,“ segir Aubert.

„Ég hef komist að því að margt fólk endar á að eignast ekki börn þótt það hafi kannski viljað það og línan milli viljandi og óviljandi barnleysis er ekki alltaf jafn skýr og við höldum. Flestir sem eiga börn halda að annaðhvort hafirðu ekki viljað börn eða þú hafir ekki getað eignast börn. En fyrir marga um og yfir fertugt snýst þetta um að hafa kannski ekki fundið maka í tæka tíð og ekki viljað gera það einn eða ekki hugsað það til enda. Eða þú hélst að þú hefðir meiri tíma en svo reyndist það ekki raunin. Eða þú varst með maka en því sambandi lauk áður en þú komst á þann stað að eignast barn.“

Hún bendir á að ákvarðanir tengdar barneignum séu ef til vill að verða sífelt flóknari eftir því sem framfarir í frjósemistækni auka valmöguleikana.

„Auðvitað hefur tæknin mikla kosti. Fólk sem hefði ekki getað eignast börn af ýmsum ástæðum hefur meiri möguleika núna. En á sama tíma geta fleiri valmöguleikar ruglað okkur í ríminu og sett meiri ábyrgð á herðar okkar. Það er erfiðara að ákveða hvenær maður á að gefast upp og horfast í augu við það að þetta verði ekki að veruleika.“

Viðbrögðin komu á óvart

Fullorðið fólk hefur verið þýdd á 17 tungumál. „Auðvitað blasa þessi vandamál með fjölskyldu og frjósemi ólíkt við ólíkum þjóðum. Norrænir lesendur lesa bókina öðruvísi en austurevrópskir lesendur og það hefur komið mér svolítið á óvart þótt það ætti í rauninni ekki að koma á óvart. En almennt held ég að lesendur sjái sig í Idu og þessum tilfinningum að finnast maður eiga heima í fjölskyldunni sinni en samt ekki.“

Aubert var tilnefnd til norsku bóksalaverðlaunanna fyrir Fullorðið fólk og hlaut gagnrýnendaverðlaun unga fólksins árið 2020. Árið 2023 fékk Aubert Bjørg Vik-verðlaunin sem veitt eru norskum höfundum sem þykja sýna frumleika, hugmyndaauðgi og gæði í styttri textum, nóvellum eða ljóðum. Þess má geta að íslenska þýðingin á Fullorðið fólk hlaut fjórar og hálfa stjörnu hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Aðspurð segir Aubert að móttökurnar við bókinni hafi komið sér mjög á óvart. „Þetta er fyrsta skáldsagan mín. Ég hafði bara skrifað eitt smásagnasafn fyrir það. Svo þetta hefur verið algjörlega magnað og komið virkilega á óvart. Ég hef talað við lesendur í ólíkum löndum um bókina og það er frábært að heyra þeirra viðbrögð og að þeir sjái sig á einhvern hátt í bókinni. Ég er mjög þakklát fyrir það.“

Erfitt að finna jafnvægið

Síðustu ár hefur Aubert unnið sjálfstætt sem rithöfundur en fyrir það starfaði hún í útgáfubransanum. „Ég er aftur farin að vinna fyrir bókaútgáfu í hlutastarfi meðfram skrifunum og ferðalögunum og öllu því sem tilheyrir því að vera rithöfundur. En það er erfitt að finna jafnvægið í þessu, að finna tíma til að skrifa en hafa samt nægar tekjur. Allir rithöfundar sem ég þekki eiga það sameiginlegt,“ segir hún.

„Ég gaf út nýja skáldsögu fyrir rúmu ári sem nefnist Jeg er egentlig ikke sånn. Síðan er ég að vinna að nýrri bók. Ég er snemma í ferlinu svo ég veit ekki hvar hún mun enda. Ég er ekki góð í að skipuleggja framvinduna fyrir fram. Rithöfundar eru mjög ólíkir að þessu leyti en ég hef ekki hugmynd um hvar ég enda þegar ég byrja að skrifa. Það er kannski ekki áhrifaríkasta leiðin. Ég skrifa mjög mikið af efni sem ég nota síðan aldrei. En þetta er eina aðferðin sem ég kann.“

Að lokum segist Aubert hlakka mikið til að sækja Ísland heim. „Ég hef aldrei komið þangað áður svo ég varð mjög spennt þegar mér var boðið að koma. Ég stoppa ekki mjög lengi en íslenski útgefandinn minn hefur lofað að keyra mig út fyrir bæinn í pínulitla bílnum sínum svo ég hlakka mikið til að ferðast um í honum.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir