Stefán Björnsson fæddist í Kálfafellskoti í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu 13. maí 1934. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 6. apríl 2024 eftir stutta dvöl.

Stefán var sonur hjónanna Björns Stefánssonar, bónda og landpósts, f. 30.9. 1896 d. 7.7. 1988, og Valgerðar Pálsdóttur húsfreyju, f. 6.10. 1909, d. 20.2. 2005, og var næstelstur í sjö systkina hópi.

Systkini Stefáns eru: 1) Páll, f. 18.11. 1932, d. 26.5. 2020. Börn Páls og eiginkonu hans Guðrúnar Albertsdóttur, f. 1936, eru Birkir, f. 1959, Albert, f. 1962, d. 2012, og Hildur, f. 1967. 2) Sveinn, f. 24.5. 1936, d. 8.1. 2004. Sveinn var ókvæntur og barnlaus. 3) Guðný, f. 30.11. 1938, d. 20.1. 2022. Börn Guðnýjar og eiginmanns hennar Sveins Sigurbjörns Garðarssonar, f. 1934, d. 2019, eru Sigríður Björk, f. 1965, Birna, f. 1967, og Stefán, f. 1972. 4) Guðjón, f. 13.4. 1942. Börn Guðjóns og eiginkonu hans Valdísar Sæunnar Kristinsdóttur, f. 1942, d. 2013, eru Valgerður, f. 1963, Vilhjálmur Kristinn, f. 1965, d. 1979, og Rósa, f. 1969. Guðjón er í sambandi með Susanne Hallberg, f. 1958. 5) Snorri, f. 7.9. 1944. Synir hans og eiginkonu hans Ragnheiðar Bjargar Runólfsdóttur, f. 1944, eru Björn Helgi, f. 1972, og Rúnar Þór, f. 1974. Fyrir átti Ragnheiður Önnu Þóru Guðbergsdóttur, f. 1967. 6) Málfríður, f. 16.8. 1948. Börn hennar og eiginmanns hennar Sigurðar Óskarssonar, f. 1949, eru Ármann Atli, f. 1971, Bjartmar Ingi, f. 1975, og Svava Björk, f. 1978.

Stefán fæddist í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og bjó þar til ársins 1941 er fjölskyldan flutti búferlum yfir Laxána að Kálfafelli, þar sem hann bjó til æviloka.

Stefán ólst upp við almenn bústörf og lærði ungur að vinna. Sem ungur maður sótti hann vertíðar til Vestmannaeyja um nokkurra ára skeið. Stefán og Snorri bróðir hans tóku alfarið við búi foreldra sinna er þau tóku að reskjast, en höfðu búið í félagi við þau fram að því. Sonur Snorra, Rúnar Þór, og Hafdís Huld Björgvinsdóttir tóku við búi Stefáns árið 1997. Hann hélt alla tíð heimili hjá þeim Rúnari og Hafdísi og var mikið viðloðandi búskapinn áfram, ekki þó síst eftir að Rúnar lenti í alvarlegu slysi árið 2006. Árið 2018 keyptu Björn Helgi og Ragnheiður Hlín fjárhús og sauðfé á Kálfafelli, en þau tóku við kúabúi Snorra í ársbyrjun 2007.

Stefán stundaði gulrófurækt um áratugaskeið og var alla tíð mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina, og þau störf sem henni fylgja undi hann sæll við. Á haustin vann hann í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri um margra ára skeið. Þá var hann mikill náttúruunnandi og lagði leið sína oft til fjalla. Í Kálfafellsheiði þekkti hann hverja þúfu og var mikill viskubrunnur um örnefni í Fljótshverfinu öllu. Stefán var alla tíð ókvæntur og barnlaus, en systkinabörnum sínum var hann góður og kær frændi.

Útför Stefáns fer fram frá Kálfafellskirkju í Fljótshverfi í dag, 13. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það eru liðin mörg ár síðan, sennilega yfir 75 ár. Við vorum mikið í ullarsokkum þá á Kálfafelli og meðan ég var ennþá svo lítill að ég gat ekki klætt mig í sokka sjálfur, þá var það oft Stefán bróðir sem klæddi mig í þá. Hvað ég var gamall get ég ekkert fullyrt, en fjögurra ára get ég giskað á. Hafi ég verið fjögurra ára þá var Stefán bróðir tólf ára. Hann hafði það fyrir vana þegar hver sokkur var kominn á fótinn að strjúka með lófanum undir ilina frá tám og aftur á hæl. Það er væntanlega þetta með að strjúka undir ilina sem veldur því að ég tel mig muna svo vel eftir þessu. Það var hlýlega notalegt og það var fólgin í því nálægð við aðra manneskju. Fyrir vikið leit ég mjög snemma á Stefán sem góðan mann. Þá var hann barn eins og ég, en ég leit á hann sem góðan mann.

Stefán fór heim laugardaginn 6. apríl, heim þangað sem við förum öll. Gegnum öll ár síðan hann hjálpaði mér í sokkana hefur þessari minningu skotið ótrúlega oft upp í huga mér og mér finnst sem minningunni hafi það alltaf fylgt að ég leit á hann sem góðan mann. Hún Guðrún frænka mín frá Fagurhólsmýri sagði mér mörgum árum seinna að Stefán hefði verið svo barngóður að það hefði alltaf verið hægt að treysta honum fyrir yngri systkinum sínum. Fyrir mér eru orð Guðrúnar staðfesting á minningu minni.

Það var eftir að ég var fluttur frá Kálfafelli sem ungur maður með samviskubit yfir að hafa yfirgefið sveitina mína að við Stefán ókum austur fyrir bæinn. Allt í einu stoppaði hann bílinn, tók upp kíkinn og skoðaði fé sem var uppi á fjallsbrún. Síðan sagði hann mér frá þessu fé, hvar hann hafði séð það áður, hversu mörg lömb ærnar hefðu fengið ásamt ýmsu öðru. Ég varð hissa og skildi þá hversu sannur fjárbóndi hann var. Það var líka þá sem ég skildi að ég hefði aldrei getað orðið bóndi.

Þegar ljóst var að stundin færi að nálgast valdi ég að heimsækja Stefán meðan við ennþá gætum talast við. Það gekk vel hjá okkur, við töluðum um broslegar minningar og þá hló hann sem hann gerði svo oft. Hann gat fyrrum hlegið svo mikið að hann átti oft erfitt með að segja frá. Hann tók á móti þeirri góðu hjálp á Klausturhólum og var þægilegur og þakklátur gagnvart þeim sem aðstoðuðu hann.

Þegar ég kom í heimsókn á Kálfafell fórum við alltaf upp í heiði. Þegar við komum upp á fyrstu fjallsbrúnina ofan við bæinn breyttist Stefán. Það færðist yfir hann ró og þessi ró ásamt friðsælu, fróðlegu spjalli jókst því meira sem við nálguðumst að vera komnir inn milli fjallanna. Það var gott að kynnast þessari hlið á Stefáni þar sem ég sjálfur er mjög veikur fyrir „fjallanna ró“. Við ræddum það ekki beinlínis en þar vorum við í mestri nálægð við skapara okkar og þess vegna komumst við næst hvor öðrum. Í heiðinni, milli fjallanna, í kyrrð óbyggðanna, þar vorum við báðir opnastir fyrir almættinu. Þannig óska ég að það haldi áfram að vera. Inn milli fjalla nálguðumst við hvorn annan best og þar mun ég í framtíðinni minnast hans best. Stefán bróðir minn, þakka þér fyrir samferðina.

Guðjón frá Kálfafelli.

„O, menn verða að taka því sem að höndum ber,“ varð Stefáni að orði í eldhúsinu á Kálfafelli seint í maí 2011. Þarna var nýafstaðið eldgos í Grímsvötnum með verulegu öskufalli og tilheyrandi vandræðum. Einhver við borðið kvartaði yfir þessu ástandi og þá varð honum þetta að orði um leið og hann kom með nýuppáhellt kaffi á borðið. Svolítið haltur, svolítið þreyttur en engan veginn bugaður 77 ára gamall. Þessi stund kemur gjarnan upp í huga minn þegar hlutirnir fara kannski ekki alveg eins og maður ætlaði. Að kvarta hvort sem það var yfir náttúruhamförum, verkjum, veðri eða hvað sem var var einfaldlega ekki í hans orðabók. Af því reyni ég að draga lærdóm.

Það er margs að minnast á þeim langa tíma sem við frændur höfum fylgst að. Árin mín eru að verða 52 og lengst af þeim tíma höfum við búið hvor í sínu húsinu hér á Kálfafelli, ef frá eru talin nokkur ár þar sem ég villtist að heiman. Þá urðu kaffibollarnir færri hjá okkur en eftir að við Heiða tókum við búi foreldra minna í ársbyrjun 2007 fjölgaði þeim á ný og alveg klárt að við fundum lausn á mörgum vandamálum heimsins. Við komum því bara aldrei frá okkur og héðan af verða einhverjir aðrir að redda því. Stefáni fannst mikils virði að geta orðið að gagni og var hann duglegur að fara með girðingum á vorin og reddaði málunum a.m.k. til bráðabirgða með baggabandsrúllunni, en það var ekki þarfaþing í hans huga heldur hrein og klár nauðsynjavara. Síðustu ár átti hann orðið vont með að beygja sig til að gera við en keyrði þá alltént meðfram girðingunum á gamla græna pallbílnum þar sem það var hægt og upplýsti mig svo um hvar þyrfti að athuga málin. Þessi bíll gekk undir nafninu Græna þruman hjá okkur í vesturbænum, án hans vitundar þó eftir því sem ég best veit. Þeir sem hafa komið að smalamennskum hér á bæ síðustu ár vita við hvað er átt en aðrir verða að geta í eyðurnar. Hann tók alltaf þátt í heyskap þó ekki ætti hann gott með að komast upp í vélarnar síðustu árin. Við leystum það nú samt í sameiningu með smá smíðavinnu. Baggaband notaði hann svo til að krækja í stöngina fyrir vinnudrifið og svo lét hann gamminn geisa og var þaulsætinn á fjölfætlunni. Ef honum fór að leiðast í þessu verkefni rifjaði hann upp þegar hann sneri heyinu með hrífu og leiðinn hvarf. Stefán og hans samferðafólk sá svo sannarlega tímana tvenna. Hvergi undi þessi föðurbróðir minn sér þó betur en í kringum sauðfé. Að smala fé, leita að fé eða hvers kyns snúningar því tengt átti óskaplega vel við hann.

Kæri frændi, nú skilur leiðir, kaffibollarnir verða víst ekki fleiri að sinni og við þá tilhugsun er ekki laust við að maður fái kusk í augun. Vertu kært kvaddur, óskir mínar og bænir fylgja þér þangað sem gigt og verkir eru ekki til.

Þinn frændi,

Björn Helgi Snorrason.

Elsku Stebbi frændi.

Minningarnar með þér eru margar, langflestar tengdar sauðfé á einn eða annan hátt. Þú varst stór partur af hversdagsleikanum á Kálfafellinu okkar beggja, rúntandi löturhægt á „grænu þrumunni“ eins og við systkinin kölluðum bílinn þinn, iðulega að kíkja eftir fé.

Ég er þakklát fyrir allar heiðarferðirnar þar sem ég fékk að vera farþegi í grænu þrumunni og fá leiðsögn um heiðina okkar. Þú kunnir öll örnefni og mér leiddist ekki í farþegasætinu hjá þér þó þú færir ekki hratt yfir. Ég mun hugsa sérstaklega fallega til þín á haustin þegar við smölum Blómsturvallafjallið og Kálfafellsheiðina og rifja upp örnefnin sem þú kenndir mér.

Ég treysti því að þú sért kominn á betri stað þar sem þú getur rúntað út í eilífðina með Lappa gamla og Plútó í farþegasætinu, nóg af sauðfé að skima eftir og allt það hangikjöt sem þú getur í þig látið. Góða ferð Stebbi og takk fyrir allt.

Þín frænka,

Hafdís Gígja Björnsdóttir.

Hvað er nú betra en búa í sveit,

með bústofn og frjósama jörð

og gera að lífsstarfi að rækta sinn reit

þó raunar sé baráttan hörð.

Íslenski bóndinn er lífgjafi lands

sem leikur á fjölþættan streng,

hann stuðlar að samvinnu moldar og manns

og miðlar oss gjarnan af feng.

Að vinna með höndunum heiðarlegt starf

og með háttvísi að ganga um land,

er hugsjón frá Guði sem gengur í arf

og gæfunnar tengingarband.

Megi hann lifa um ókomin ár

og eflast af sérhverri raun,

þar til að endingu konungur klár

kemur og reiðir fram laun.

(Kristján Runólfsson)

Þetta fallega ljóð um íslenska bóndann kemur upp í huga okkar þegar við hugsum til Stefáns frænda okkar. Hann var bóndi alla sína tíð, ræktaði sitt land og hugsaði vel um bústofninn. Hann var okkur góður frændi og við munum sakna hans. Guð geymi þig elsku Stebbi frændi. Takk fyrir allt.

Fyrir hönd krakkarnna í vesturbænum á Kálfafelli,

Íris Hanna Björnsdóttir.

Að vori til fyrir 22 árum fór ég að venja komur mínar að Kálfafelli í fylgd með Birni Helga, bróðursyni Stefáns, sem ég hafði þá verið í sambandi með um nokkurra mánaða skeið. Síðar fluttist ég að Kálfafelli með Bjössa mínum og börnunum og átti því Stefán að nágranna frá því í nóvember 2006. Hann tók mér vel frá fyrstu heimsókn og allar götur síðan áttum við í góðum samskiptum.

Stefán var ósérhlífinn og harður af sér. Hugurinn var fær í flestan sjó þótt líkaminn væri orðinn þreyttur og slit og verkir í flestum liðum. Ég heyrði hann aldrei kvarta yfir heilsunni í öll þessi ár sem við vorum samtíða hér á Kálfafelli, en einstaka sinnum sá maður sársaukagrettu – gjarnan fylgdi henni svipur sem sagði manni að spyrja einskis. Börnunum okkar var hann góður, spurði mig iðulega frétta af þeim ef langt leið á milli heimsókna.

Hann þekkti heiðina eins og lófann á sér og kunni ógrynnin öll af örnefnum og staðháttum hér á Kálfafelli og í nágrenninu. Ég var ekki búin að læra nærri því allt af honum sem mig langaði til og með honum hverfur hafsjór af fróðleik og þekkingu. Bílferðirnar með Stefáni inn í heiði á „grænu þrumunni“ verða ekki fleiri og hann keyrir ekki oftar upp að mér eða krökkunum þar sem við erum í heilsubótargöngu og býður okkur far heim. Stefán kom sér vel við flesta og átti gott samband við systkinabörn sín flest ef ekki öll, a.m.k. á einhverju skeiði ævi þeirra. Flest þeirra sem ekki voru alin upp í næsta húsi voru langtímum saman í sveit hjá Stefáni og foreldrum hans.

Aðdáunarvert finnst mér að Bjössi minn og ungu mennirnir í fjölskyldunni tóku Stefán ár eftir ár með sér á þjóðhátíð í Eyjum. Þar skimaði Stefán jafnan eftir álitlegum kvonföngum fyrir frændur sína og þær sem hann benti þeim á voru að sögn strákanna gjarnan sterklega byggðar og miklar vexti. Hann taldi að þær myndu eiga auðveldara með að halda í kind. Lífið var búskapur og búskapurinn var lífið.

Á sama tíma og ég er þakklát því að Stefán hafi ekki þurft að liggja lengur rúmfastur og lasinn þá sé ég eftir honum og sakna hans, enda hefur Stefán verið fastur punktur í tilveru okkar síðan við settumst að á Kálfafelli og Bjössa auðvitað alla hans ævi. Minningarnar eru hér allt um kring. Ég mun minnast Stefáns í hvert sinn sem ég steiki rúsínulummur í kringum afmælisdaginn hans og að afloknum heyskap að sumri. Ég mun minnast hans í hvert sinn sem ég læt eftir mér að laga girðingu með baggabandi og hvern dag við heyskap, smalamennskur og kindastúss. Og alltaf með hlýju.

Elsku Stebbi minn. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ragnheiður Hlín Símonardóttir.

Stefán Björnsson bóndi fæddist í Kálfafellskoti 13. maí 1934. Hann lést á Dvalarheimilinu á Kirkjubæjarklaustri 6. apríl síðastliðinn. Stefán var sonur Björns Stefánssonar bónda og landpósts og Valgerðar Pálsdóttur húsfreyju. Hann bjó ásamt þremur elstu systkinum sínum fyrstu sjö árin í Kálfafellskoti en fjölskyldan fluttist að Kálfafelli árið 1941. Stefán ólst síðan upp á Kálfafelli í hópi sjö systkina. Stefán tók við búi foreldra sinna ásamt Snorra bróður sínum árið 1972 og bjó hann þar og starfaði allt til æviloka.

Stefán, eða Stebbi eins og við kölluðum hann, starfaði sem sauðfjárbóndi mestallt sitt líf og var hann mjög góður sauðfjárbóndi. Ég var strákur í sveit hjá Stebba frænda og ömmu og á ég margar góðar minningar þaðan. Stebbi var mér afar góður og reyndist mér vel. Hann þekkti sitt nærumhverfi betur en nokkur annar og vissi örnefni á hverri þúfu á Kálfafelli og í nærliggjandi umhverfi og þó svo að þessar heimildir séu að mestu skráðar, þá er mikill fróðleikur sem fer með Stebba frænda. Minnisstæðar eru ferðirnar sem við fórum á fjöru og inn í Núpsstaðaskóg og oftar en ekki var Stefán ekki inni í bílstjórasætinu heldur á föðurlandinu hálfur í ánni að stika með staf á undan bílnum, til að gæta að því að við værum að fara yfir fært vað. Stefán var alltaf mjög hress í þessum ferðum og ekki óalgengt að sæist bregða fyrir pela og sungnar væru vísur.

Stebbi var ekki maður margra orða og ekki gefinn fyrir að vera í margmenni en í fárra manna hópi leiddist honum ekki að segja skemmtisögur af fólki og atburðum, en aldrei heyrðist hann tala neikvætt um aðra. Stebbi frændi var dugnaðarmaður, en ásamt sauðfjárbúskap lagði hann fyrir sig gulrófurækt um árabil. Hann var oft á tíðum daglangt úti í kartöflugeymslu og skar til og snyrti rófur í poka. Stefán unni landi sínu, og var ötull við að stöðva landfok, sem var að taka sig upp í ógrónum moldarbörðum í heiðinni, með því að sáldra í það heyi og áburði. Vænst þykir mér um af öllu að frændi hafi ekki þurft að liggja lengi í veikindum sínum og sé nú laus við þjáningar.

Ég þakka Stefáni samfylgdina gegnum árin og óska honum góðrar ferðar inn í sumarlandið.

Meira á: www.mbl.is/andlat

Bjartmar Ingi Sigurðsson.