Fagstjóri Þurfum að vita hver fræðsluþörf skólstæðinga okkar er, segir Sólrún Ólína Sigurðardóttir í viðtalinu.
Fagstjóri Þurfum að vita hver fræðsluþörf skólstæðinga okkar er, segir Sólrún Ólína Sigurðardóttir í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur á síðustu misserum staðið fyrir ýmsum heilsutengdum námskeiðum sem hafa mælst vel fyrir. Með þessu er ætlunin að koma til móts við skjólstæðinga með nýjum og öðrum leiðum en helst hafa tíðkast til þessa

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur á síðustu misserum staðið fyrir ýmsum heilsutengdum námskeiðum sem hafa mælst vel fyrir. Með þessu er ætlunin að koma til móts við skjólstæðinga með nýjum og öðrum leiðum en helst hafa tíðkast til þessa. „Heilsubrú er ný miðlæg þjónustueining og hugmyndafræðin er sú að námskeiðin séu opin og aðgengileg. Helst að fólk geti skráð sig sjálft í fræðslu. Það er líka góð nýting á tíma starfsfólks að veita hópfræðslu frekar en að taka einstaklingsviðtöl,“ segir Sólrún Ólína Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri hjá Heilsubrú.

Kvenheilsu gefinn gaumur

Upphafið að Heilsubrú má rekja til þess að 2021 óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir því að heilsu kvenna yrði gefinn meiri gaumur. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðsins var fengin til að fóstra verkefnið. Sólrún Ólína tók við umsjón þess ásamt Erlu Gerði Sveinsdóttur lækni og Steinunni Zophoníasdóttur ljósmóður.

„Lykilatriði í bættri heilsu er að fólk hafi góðan skilning á sínum vanda. Ásamt því að fólk hafi nægar upplýsingar um sína heilsu til að geta tekið upplýstar ákvarðanir fyrir sig í samráði við fagfólk. Því var fyrsta verkefnið að bæta fræðslu til kvenna í gegnum Heilsuveru. Skrifaðar voru greinar sem fjalla um efni eins og breytingaskeið kvenna og getnaðarvarnir. Einnig voru undirbúin og smíðuð ýmiskonar námskeið fyrir konur,“ segir Sólrún Ólína.

Starfsemin víkkuð út

Fyrsta námskeið hófst haustið 2022 og fjallaði um breytingaskeiðið. Námskeiðinu var tekið mjög vel og meira en 500 konur mættu þá strax um haustið. Þetta námskeið er enn í boði hjá Heilsubrú og er mikið sótt. Síðan hefur námskeiðum fyrir konur fjölgað og núna eru fimm námskeið í boði sem fjalla um heilsu kvenna og fjalla meðal annars um lífsstíl, næringu, fitubjúg, getnaðarvarnir og meðgöngusykursýki.

„Námskeiðin fengu góðar viðtökur og fljótlega var ákveðið að víkka út starfsemina og bjóða upp á fjölbreyttari námskeið og fræðslu,“ segir Sólrún Ólína. „Þá var farið að huga að því að Heilsubrú yrði miðlæg eining innan Heilsusugæslu höfuðborgarsvæðisins sem gæti sinnt margvíslegum verkefnum sem einstaka stöðvar hefðu jafnvel ekki tök á. Fyrstu námskeiðin sem bættust við voru hugræn atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi og fræðsla um sykursýki. Síðar bættust við námskeið um offitu, svefnleysi, streitu og bætt sjálfsmat.“

Hlutverk Heilsubrúar var svo víkkað enn frekar út þegar næringar- og hjúkrunarfræðingar í framhaldsskólum færðust undir starfseiningu Heilsubrúar. „Hugsunin með námskeiðunum er að fólk geti, til dæmis eftir orð frá hjúkrunarfræðingi eða lækni, skráð sig sjálft inn í gegnum netið og mætt á staðinn. Einfaldleikinn í þessu er mikilvægur,“ segir Sólrún Ólína.

Að námskeiðunum hafa margir komið, s.s. hjúkrunarfræðingar, læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar og ljósmæður og staðurinn er Mjóddin í Reykjavík. Sum námskeiðin eru fræðsla í eitt skipti í um 90 mínútur en í öðrum tilvikum mætir fólk vikulega í 4-6 vikur. Nokkur námskeiðanna hafa verið í streymi á netinu en stefnt er að því að gera meira af slíku, meðal annars til þess að mæta óskum og þörfum fólks úti á landi.

Ástæða til að fjalla um kulnun

„Námskeið eins og þessi eru í stöðugri þróun og öll reynsla nýtist. Á þessu misseri erum við að heimsækja heilsugæslustöðvar til að vita hver fræðsluþörf skjólstæðinga er,“ segir Sólrún Ólína. Hún tiltekur í því sambandi að ástæða geti verið til að bjóða fræðslu eða námskeið um hvað kulnun er.

„Fræðsla um kulnun, einkenni og bjargráð er mikilvæg. Að fara í þrot er alvarlegt en því má hugsanlega afstýra áður en allt fer á versta veg,“ segir Sólrún. Einnig telur hún að koma megi betur til móts við fjölmennan og stækkandi hóp nýrra Íslendinga; fólk erlendis frá sem sest hefur að hér á landi en þarf hugsanlega fræðslu um hvernig heilbrigðiskerfið á Íslandi virkar og hvaða þjónusta bjóðist. Þetta fólk sé í hópi sem hugsanlega upplifi sig afskiptan og því þurfi að bregðast við. Ætla megi líka að í heilbrigðisþjónustu framtíðar verði fræðsla og fyrirbyggjandi starf mun stærri þáttur en nú. Af þeim sökum verði að undirbúa framhaldið vel.

Allar upplýsingar um Heilsubrú og námskeiðin sem eru í boði má finna á heilsugaeslan.is og þar getur fólk skráð sig sjálft til þátttöku.