Sakborningur Truong My Lan í réttarsalnum í Ho Chi Minh-borg í vikunni.
Sakborningur Truong My Lan í réttarsalnum í Ho Chi Minh-borg í vikunni. — AFP
Eitt stærsta fjársvikamál sögunnar var leitt til lykta fyrir dómstóli í Ho Chi Minh-borg í Víetnam í gær en þá var umsvifamikil kaupsýslukona dæmd til dauða fyrir að hafa svikið jafnvirði þúsunda milljarða króna út úr bankakerfi landsins

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Eitt stærsta fjársvikamál sögunnar var leitt til lykta fyrir dómstóli í Ho Chi Minh-borg í Víetnam í gær en þá var umsvifamikil kaupsýslukona dæmd til dauða fyrir að hafa svikið jafnvirði þúsunda milljarða króna út úr bankakerfi landsins. Fjárhagslegt tjón af völdum fjársvikanna er talið nema jafnvirði nærri 4 þúsund milljarða króna sem svarar til um 6% af vergri landsframleiðslu Víetnams á síðasta ári.

Konan, Truong My Lan, var fundin sek um að hafa svikið fé út úr Saigon Commercial Bank (SCB) á tíu ára tímabili. 85 aðrir sakborningar, þar á meðal eiginmaður Lan, hlutu þunga fangelsisdóma.

Lan fæddist árið 1956 í Ho Chi Minh-borg. Hún stofnaði fasteignafélagið Van Thinh Phat árið 1992 og félagið keypti lúxushótel, veitingahús og dýrar íbúðir og fjárfesti einnig í fjármálafyrirtækjum. Fram kom að yfir þúsund fyrirtæki tengdust móðurfélaginu, þar á meðal fjöldi svonefndra „draugafyrirtækja“ og fyrirtæki sem skráð voru í öðrum löndum.

Lan var fundin sek um mútugreiðslur, brot á bankalögum og fjársvik. Á árunum 2012 og 2022 stal hún 12,5 milljörðum dala, jafnvirði um 1.730 milljarða króna, frá SCB með því að falsa lánsumsóknir til að ná peningum út úr bankanum sem hún átti sjálf 90% hlut í. Hún skipaði starfsmönnum bankans að millifæra peningana inn á reikninga skúffufyrirtækja og síðan flutti hún peningana á milli fyrirtækja eða tók þá út í reiðufé, að sögn víetnamskra fölmiðla, sem AFP-fréttastofan vitnar til.

Á tímabilinu frá febrúar 2019 til september 2022 flutti einkabílstjóri hennar jafnvirði yfir 600 milljarða króna í reiðufé frá höfuðstöðvum SCB í Ho Chi Minh-borg til heimilis hennar og höfuðstöðva Van Thinh Phat. Hún hagnýtti sér einnig áform stjórnvalda um að endurskipuleggja SCB með því að sameina bankann og tvo aðra banka, til að svíkja fé út úr bankanum.

Lögregla segir, að yfir 40 þúsund einstaklingar, sem áttu skuldabréf SCB, hafi beðið tjón vegna brota Lan.

Fyrrverandi starfsmenn seðlabanka Víetnams fengu milljónir dala í mútugreiðslur til að fela brotastarfsemina. Fyrrverandi yfirmaður fjármálaeftirlits landsins var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að taka við jafnvirði 730 milljóna króna í reiðufé sem hann fékk afhent í þremur plastkössum.

Lan og aðrir sem tengdust málinu voru handtekin í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir Kommúnistaflokksins í Víetnam gegn spillingu í fjármálakerfinu. Yfir 4.400 manns hafa verið ákærð í yfir 1.700 fjársvikamálum í landinu frá árinu 2021. En mál Lan er fordæmalaust. Málsskjölin vógu alls sex tonn og 200 lögmenn gættu réttinda sakborninganna.

Herferðin gegn spillingu hefur haft veruleg áhrif á hagkerfi Víetnams og sérfræðingar segja að sumir erlendir fjárfestar hafi hætt við fjárfestingar þar þótt almennt hafi stjórnvöldum verið hrósað fyrir aðgerðirnar.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson