[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef nýlokið við að lesa bókina Vatn á blómin eftir frönsku skáldkonuna Valérie Perrin, í þýðingu Kristínar Jónsdóttur. Þar segir frá kirkjugarðsverðinum Violette Toussaint sem sinnir starfi sínu af kostgæfni, vökvar blómin á leiðunum, spjallar við ástvini, huggar og styður

Ég hef nýlokið við að lesa bókina Vatn á blómin eftir frönsku skáldkonuna Valérie Perrin, í þýðingu Kristínar Jónsdóttur. Þar segir frá kirkjugarðsverðinum Violette Toussaint sem sinnir starfi sínu af kostgæfni, vökvar blómin á leiðunum, spjallar við ástvini, huggar og styður. Smátt og smátt kynnist lesandinn Violette og fortíð hennar og kemst að því hvernig lífið hefur mótað þá Violette sem unir sér svo vel í kirkjugarðinum. Þó svo að undirtónn sögunnar sé á margan hátt dapurlegur þá er bókin einnig falleg og ljóðræn. Sannkallaður yndislestur sem skilur eftir hlýju í hjarta.

Þessa stundina er ég að lesa baráttusögu Guðrúnar Jónsdóttur, eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur. Ég ber ómælda virðingu fyrir konum sem ruddu brautina í átt að auknu kvenfrelsi, jafnrétti og mannréttindum og Guðrún er svo sannarlega í hópi þeirra kvenna. Hún var fyrsti íslenski félagsráðgjafinn og var brautryðjandi á ýmsum sviðum er tengjast réttindum kvenna, leiddi Kvennaframboð í Reykjavík og tók m.a. annars þátt í stofnun Kvennalistans, Kvennaathvarfs og Kvennaráðgjafar. Guðrún er afar eftirminnileg sem Ungfrú meðfærileg á fundi borgarstjórnar árið 1985 þar sem fast var skotið á þáverandi borgarstjóra vegna ummæla hans um borgarfulltrúa Kvennaframboðsins og samanburð við fegurðardrottningar.

Það kennir ýmissa grasa á náttborðinu mínu og meðan veturinn neitar að hörfa læt ég mig dreyma um útivist sumarsins og glugga í ferðahandbækur og leiðarlýsingar. Björn Ingólfsson á Grenivík, sem er manna fróðastur um eyðibyggðirnar í Fjörðum á Gjögraskaga, hefur tekið saman bókina Hringferð um Gjögraskaga. Þar er að finna greinargóða lýsingu á gönguleiðinni um Fjörður og Látraströnd, ásamt margvíslegum fróðleik um byggðina sem var; fólkið, staðhætti og örnefni.

Árbók Ferðafélags Íslands 2016, Skagafjörður austan vatna, eftir Pál Sigurðsson, er einnig að finna í náttborðsbunkanum. Þar er m.a. að finna áhugaverðan fróðleik um eina nyrstu sveit austan Skagafjarðar, Fljótin. Eins og sú ágæta skáldkona Látra-Björg er ég áhugasöm um okkar norðlægu slóðir. Og fyrst minnst er á Látra-Björgu er ekki úr vegi að vekja athygli á hinni bráðskemmtilegu bók Bjargræði eftir Hermann Stefánsson þar sem skáldkonan Látra-Björg, sem uppi var á 18. öld, stekkur af sínum alkunna krafti inn í Reykjavík nútímans og vandar ráðamönnum ekki kveðjurnar frekar en fyrri daginn, enda sennilega ekki vanþörf á!