Kátir Ægir Jarl Jónasson og Axel Óskar Andrésson fagna vel fyrsta markinu en þeir skoruðu báðir fyrir KR og Ægir átti stoðsendingu á Axel.
Kátir Ægir Jarl Jónasson og Axel Óskar Andrésson fagna vel fyrsta markinu en þeir skoruðu báðir fyrir KR og Ægir átti stoðsendingu á Axel. — Morgunblaðið/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KR-ingar hafa byrjað Íslandsmótið í fótbolta á besta mögulega hátt en þeir eru komnir með sex stig að loknum tveimur leikjum á útivöllum eftir að þeir unnu verðskuldaðan sigur á Stjörnunni í Garðabæ í gærkvöld, 3:1

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

KR-ingar hafa byrjað Íslandsmótið í fótbolta á besta mögulega hátt en þeir eru komnir með sex stig að loknum tveimur leikjum á útivöllum eftir að þeir unnu verðskuldaðan sigur á Stjörnunni í Garðabæ í gærkvöld, 3:1.

Vesturbæingar hafa verið kraftmiklir og skorað sjö mörk í þessum fyrstu leikjum undir stjórn Greggs Ryders sem vart hefði getað byrjað þjálfaraferilinn betur í efstu deild.

KR-ingar leika ekki strax á grasinu á Meistaravöllum því í gær var tilkynnt að heimaleikur þeirra gegn Fram í 3. umferðinni um næstu helgi færi fram á velli Þróttar í Laugardal.

Þá fengu þeir slæmar fréttir í gær því Aron Sigurðarson missir af næstu sex til átta leikjum KR vegna meiðsla í læri og Hrafn Tómasson er með slitið krossband og spilar ekki meira í ár.

Spurning er hvernig KR-ingar ráða við það en þeir eru eftir sem áður komnir með sex dýrmæt stig. Ægir Jarl Jónasson var með mark og stoðsendingu, Axel Óskar Andrésson skoraði með hörkuskalla, sitt fyrsta mark í deildinni, og Benoný Breki Andrésson innsiglaði sigurinn eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Örvar Eggertsson var frískastur Stjörnumanna og skoraði mark þeirra, það eina sem þeir hafa gert í fyrstu tveimur umferðunum, en Garðbæingar byrja illa og sitja eftir stigalausir á botninum.