Í Skagafirði Óskar, Magnús, Hrafnhildur Inga, Óskar og Hrafnhildur Inga.
Í Skagafirði Óskar, Magnús, Hrafnhildur Inga, Óskar og Hrafnhildur Inga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Magnússon fæddist á Sauðárkróki 13.4. 1954 en ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík. „Það er varla hægt að hugsa sér betri uppeldisaðstæður. Þarna var ógrynni af börnum, flest hús hálfbyggð, timburstaflar og byggingadrasl á hverju strái

Óskar Magnússon fæddist á Sauðárkróki 13.4. 1954 en ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík.

„Það er varla hægt að hugsa sér betri uppeldisaðstæður. Þarna var ógrynni af börnum, flest hús hálfbyggð, timburstaflar og byggingadrasl á hverju strái. Þetta kom sér allt einkar vel því ekki mátti skorta barefli í hatrömmum hverfabardögum. Naglaspýtur og steypujárn voru árangursríkustu vopnin. Friðsamir menn ræktuðu dúfur sem hinir stálu og drápu en flestir tóku ástfóstri við Sólheimabóksafnið sem varð okkar annað heimili. Þar gátu svarnir fjandmenn setið löngum stundum og lesið Enid Blyton sér til ánægju undir mildum aga Ingibjargar og Hönnu á bókasafninu.“

Óskar segir að þegar þessi hópur stálpaðist hafi verið fjallað um hann sem villingana í Vogunum. „Þetta voru öndvegismenn, margir úr Sólheimablokkunum, Álfheimunum og Gnoðarvoginum: Bræðurnir Bubbi og Tolli, Rikki, Einar Hálfdánar, og Auðun Svavar, Þorbjörn bróðir, Gunni á elleftu, Siggi Valg, Scobie-bræður, Gunnar í Fóðurblöndunni, Stebbi Hafstein, Siggi dúfa, Friðrik Þór, prúðmennin Tórssynirnir, Örnólfur (litli Tór) og Andri (minnsti Tór). Endalaus ótamin mergð af börnum og unglingum sem rann um hverfið þegar rökkva tók eins og fé af fjalli. Margir úr krakkastóðinu í Vogunum komust til metorða, sumir urðu skáld og listamenn, aðrir forstjórar, læknar, lögmenn og borgarstjórar og stöku villingar urðu bankaræningjar og kvikmyndagerðarmenn.“

Óskar lauk landsprófi frá Vogaskóla og stúdentsprófi frá MT 1974. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1983, stundaði framhaldsnám og lauk mastersprófi í alþjóðlegum viðskiptalögum frá George Washington University í Bandaríkjunum 1986 og öðlaðist hrl.-réttindi 1993.

Hann var sjómaður, matsveinn, slökkviliðsmaður, múrari, heildsali, blaðamaður á Vísi, dagskrárgerðarmaður á Útvarpinu, fréttastjóri DV og lögmaður. Árið 1993 varð hann forstjóri Hagkaups og næstu áratugina eftir það forstjóri ýmissa fyrirtækja; Íslandssíma, Vodafone, Tryggingamiðstöðvarinnar og útgefandi Árvakurs. Stjórnarformaður í Olís, Stjórnarmaður í Samherja sl. 25 ár, Pennans, Húsasmiðjunnar, Þyrpingar, Íslensks markaðar, Happdrættis Háskólans, Orkunnar, Kringlunnar, GKS, útgerðarfélagsins Eskju og Vísis í Grindavík. Hann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa á sviði félagsmála og setið í sveitarstjórn. Hann er sóknarnefndarformaður í Breiðabólstaðarsókn í Fljótshlíð til 20 ára og kirkjuþingsmaður. Óskar er formaður Landssamtaka landeigenda og stjórnarformaður Eimskips.

„Ég er alinn upp á mölinni. Byrjaði að ydda blýanta á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins þegar ég var sex ára og hef verið trúr stefnunni síðan og ekki verið í öðrum félagssamtökum nema náttúrlega Þrótti. Á barnsaldri seldi ég og bar út Vísi og seinna Moggann en þegar ég varð ellefu ára varð ég sendisveinn á hjóli hjá Sæmundi föðurbróður mínum og hjá IBM og fleiri fyrirtækjum. Ég kunni á alla rangala í bönkum, tollinum, verðlagsstjóra og gat smeygt mér inn um bakdyr eftir lokun til að bjarga launainnlegginu. Ég kunni að hringja ókeypis til útlanda úr símanum í afgreiðslunni í Búnaðarbankanum.“

Óskar segir að hann hafi aldrei verið í sveit: „Það má segja að þann kafla hafi ég byrjað að taka út þegar við fluttum á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð og ég tók til við að yrkja jörðina þar. Um svipað leyti settist ég við skriftir samhliða annarri vinnu og hef nú gefið út átta bækur, smásögur, skáldsögur og eina matreiðslubók. Búskapurinn og skriftirnar eiga að heita aðalstarf mitt nú og áhugamál en ég hef líka mikla ánægju af formennsku í Eimskipi og stjórnarstörfum í Samherja. Það hefur verið eitt samfellt ævintýri að vinna með því einstaka fólki í blíðu og stríðu.

Mér hefur oft ekki veitt af vígfiminni úr Vogunum í störfum mínum og hugarfarinu að berjast ódeigur og tapa aldrei gleðinni.

Þú spyrð um viðurkenningar? Það er nú ekki gott að maður gumi mikið af slíku sjálfur en eðlilega hafa mér hlotnast margar viðurkenningar á svo viðburðaríkri ævi. Fyrsta viðurkenningin sem ég fékk var bronsmerki í Dansskóla Hermanns Ragnars þegar ég var 10 ára. Svo man ég ekki eftir neinu sérstöku nema hvað ég hitti eitt sinn þingmann á Mímisbar sem gaf mér ermahnappana sína sem voru með merki Framsóknarflokksins. Ég er enn hrærður yfir því. Nú svo veit ég ekki hvort það flokkast beint undir viðurkenningu en ég keypti fyrir nokkrum árum ljósan rykfrakka Herra Péturs Sigurgeirssonar biskups af Jörmundi Inga allsherjargoða. Ég ber hann á báðum öxlum. Það er góður frakki þótt hann sé heldur síður á mig.“

Fjölskylda

Eiginkona Óskars er Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, f. 19.3. 1946, listmálari. Hún er dóttir Sigurðar Árnasonar, f. 14.7. 1900, d. 10.9. 2000, bónda á Sámsstöðum í Fljótshlíð, og k.h., Hildar Odu Árnason, f. 25.5. 1913, d. 23.1. 2003, húsfreyju.

Sonur Óskars og Hrafnhildar er Magnús, f. 14.4. 1983, hæstaréttarlögmaður og meðeigandi að Lögmáli ehf. Kona Magnúsar er Edda Björk Ragnarsdóttir aðallögfræðingur Carbfix og eiga þau börnin Hrafnhildi Ingu og Óskar Magnússon. Börn Hrafnhildar og stjúpbörn Óskars eru Sara Jónsdóttir, fædd 10.10. 1963, hennar maður er Stefán Karlsson. Börn hennar eru Arnheiður og Arnar. Magnús Jónsson, fæddur 24. október 1965, kona hans er Hrund Atladóttir og dóttir Magnúsar er Hekla. Andrea Magdalena Jónsdóttir, uppeldisdóttir, f. 21.7. 1969, BA í mannfræði, og listkennari. Hennar synir eru Kári, Hrafnkell og Gunnar.

Systkini Óskars eru Jón Þorbjörn, f. 14.7. 1952, stýrimaður; Hildur, f. 19.12. 1957, hjúkrunarfræðingur og sálrænn meðferðafræðingur, og Haukur, f. 12.1. 1964, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Ávaxtabílsins.

Foreldrar Óskars voru Magnús Óskarsson, f. 10.6. 1930, d. 23.1. 1999, borgarlögmaður, og Ólína Ragnheiður Jónsdóttir, f. 7.10. 1929, d. 16.1. 2022, húsmóðir.