Guðbrandur Jóhann Ólafsson fæddist á Siglufirði 13. ágúst 1956. Hann varð bráðkvaddur á Siglufirði 30. mars 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Guðbrandsson, f. 13. mars 1924, d. 27. janúar 2004, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 20. júní 1923, d. 16. ágúst 2015.

Systur Guðbrands eru Guðrún Jakobína, f. 30. maí 1952, gift Hrafnkeli Hall, og Regína, f. 28. ágúst 1952, gift Sigurði Sigurðssyni.

Guðbrandur var kvæntur Sigríði Elvu Ólafsdóttur frá Siglufirði, f. 9. nóvember 1958. Foreldrar hennar voru Ólafur G. Jóhannsson, f. 17. október 1927, d. 28. júní 2013, og Anna Björnsdóttir, f. 17. febrúar 1921, d. 8. ágúst 2014. Börn Guðbrands og Sigríðar eru: 1) Guðrún Sif, f. 7. janúar 1982, gift Skarphéðni Fannari Jónssyni. Þau eiga fjögur börn, Guðbrand Elí, f. 2000, Sigríði Birtu, f. 2006, Guðmund Júní, f. 2011, og Elísabetu Ídu, f. 2012. 2) Jóhann Örn, f. 10. apríl 1984, giftur Jóhönnu Bryndísi Þórisdóttir. Þau eiga þrjá syni, Benedikt Þóri, f. 2007, Elmar Orra, f. 2010, og Aron Örn, f. 2016. 3) Ólafur Guðmundur, f. 30. júlí 1990. Hann á þrjú börn með Ástu Rós Reynisdóttur, Selmu Mjöll, f. 2012, Heiðar Örn, f. 2016, og Rakel Söru, f. 2018.

Guðbrandur ólst upp á Siglufirði. Hann fór tvo vetur í Iðnskóla Siglufjarðar. Þá fór hann einnig nokkrar vertíðir til Vestmannaeyja. Guðbrandur vann almenn verkamannastörf og var einnig til sjós áður en hann byrjaði í lögreglunni á Siglufirði sumarið 1985. Varð það að hans ævistarfi eða þar til í ágúst 2021, þegar hann fór á eftirlaun. Síðustu tólf ár var hann frístundabóndi ásamt Ólafi syni sínum og voru þeir með um 25 ær.

Guðbrandur átti nokkrar trillur í gegnum árin og átti það hug hans allan að stunda sjóinn. Var hann á strandveiðum síðastliðin fimm ár og var það hans síðasti starfsvettvangur.

Útför Guðbrands fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 13. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi, held að ég hafi aldrei gert neitt erfiðara en að setjast niður og skrifa þessi nokkur orð. Ég get fullyrt að ég hafi unnið í foreldralottóinu, það sem við systkinin vorum heppin með foreldra. Símtalið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, þetta var það sem ég óttaðist mest. Þið mamma voruð með fullt af plönum sem ekkert verður af; kaupa húsbíl, njóta lífsins í sólinni erlendis og þú ljómaðir þegar þú hugsaðir til sumarsins að geta farið á strandveiðar. Við ætluðum að gera svo margt saman fjölskyldan, við ætluðum öll saman til útlanda þegar þú yrðir sjötugur. Þú varst einfaldlega bestur, þú varst minn helsti bakhjarl og leitaði ég til þín með allt. Hvort sem það var að sækja okkur vestur til Súðavíkur þegar bíllinn bilaði eða skutla krökkunum mínum á skíðaæfingar eða bara að spjalla saman um trilluna, rollur, fótbolta, gengi Úlfanna eða Liverpool í ensku deildinni. Þú varst duglegur að passa barnabörnin og hafðir mjög gaman af því að horfa á þau spila fótbolta. Þú varst stoltur af hópnum þínum og hlakkaðir til að sjá þau vaxa úr grasi. Við erum ekki tilbúin til að kveðja þig en það er ekki spurt að því. Ég er þakklát fyrir öll knúsin núna.

Takk fyrir þolinmæðina, takk fyrir hreinskilnina, takk fyrir allar ráðleggingarnar, takk fyrir allar minningarnar, takk fyrir allt elsku pabbi, ég elska þig.

Þín dóttir og pabbastelpa,

Guðrún Sif.

Elsku pabbi.

Pabbi minn var kletturinn í fjölskyldunni, hann var einstakur persónuleiki þar sem hann hafði þann kost að koma fram við alla með virðingu, hann setti sjálfan sig aldrei á háan hest. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið að hafa starfað sem lögreglumaður í eins langan tíma og pabbi gerði í bæ eins og Siglufirði og vera eins vel virtur og hann var. Uppeldið á Siglufirði og það að eiga pabba sem löggu gat verið snúið, mér fannst það stundum ósanngjarnt, reglur voru virtar og pabbi náði svo vel að finna þennan meðalveg. Ég var krefjandi en pabbi tók alltaf á öllum mínum strákapörum með stakri ró, líka þegar hann náði í skottið á mér eftir að ég hafði hlaupið undan löggunni og falið mig. Ég leit svo mikið upp til þín pabbi minn. Ég ákvað skyndilega um tvítugt að sækja um í löggunni eftir að við vorum saman að skoða Morgunblaðið. Ég man eftir símtalinu frá ykkur mömmu um að ég hefði komist inn í lögregluskólann en ég var erlendis. Ég gleymi þessu símtali aldrei, þá vissi ég að líf mitt myndi breytast og ég myndi feta í þín fótspor. Mér fannst ég þurfa að fara á togara áður en ég hóf nám í lögregluskólanum, ég hafði heyrt sögur frá þér þegar þú varst á togara og fórst í siglingar bæði til Hull og Grimsby. Við hlógum oft að togaraferli mínum á Múlaberginu. Þú miðlaðir þinni reynslu til mín og talaðir um almenna skynsemi sem þú notaðir svo vel. Þú varst nefnilega með mjög góðan innri kompás. Þið afi störfuðuð lengi saman í löggunni, þar hafðir þú góðan læriföður en þið tveir voruð með einstaka hæfileika í að fá fólk með ykkur í lið. Ég mun reyna mitt allra besta að fylgja ykkar fordæmi bæði í starfi og í einkalífinu.

Pabbi var mikil fjölskyldumaður, gerði allt fyrir fólkið sitt, alltaf klár í að aðstoða. Þú bauðst Jóhönnu mína velkomna inn í fjölskylduna frá fyrsta degi. Ég er svo þakklátur fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur fjölskylduna; utanlandsferðirnar, heimsóknirnar og allt það sem við brösuðum saman. Ég er svo þakklátur að hafa komið norður síðasta sumar og farið með þér á strandveiði, þú varst svo áhugasamur í veiðinni sem smitaðist auðveldlega svo að ég ákvað að taka smábátaréttindin til að feta enn og aftur í þín fótspor. Þú tókst Benedikt, fjórtán ára, með þér á sjóinn og skólaðir hann til. Ég veit að þú varst svo stoltur af Elmari og Aroni en þeir missa af sjómannaskólanum frá þér. Þú sagðist vera moldríkur því þú ættir tíu barnabörn.

Elsku pabbi minn, ég trúi því ekki að þú sért farinn frá okkur. Þú sagðir alltaf að þú vildir fara snöggt en þetta var allt of snemmt. Þú hlakkaðir svo til að fylgjast með barnabörnunum þínum vaxa úr grasi. Þú varst svo stoltur af fjölskyldunni þinni og við erum líka svo stolt af þér. Elsku pabbi minn, við kveðjum þig með sorg í hjarta. Ég held að sársaukinn við að hafa þig ekki fari aldrei en ég mun reyna að venjast því. Ég mun heiðra minningu þína, tala um þig við strákana mína eins lengi og ég lifi. Við lofum að passa upp á mömmu fyrir þig.

Þangað til næst, elsku pabbi minn, við elskum þig.

Jóhann, Jóhanna,
Benedikt, Elmar og Aron.

Elsku hjartans pabbi minn, ef ég gæti nú bara lýst því hversu stoltur ég er af því að hafa fengið þau forréttindi í hendurnar að eiga þig að.

Við höfum alltaf verið einstaklega nánir og samrýndir feðgar og hefur þú verið minn allra besti vinur hin síðari ár, enda eyddum við ófáum tímunum saman í alls konar brasi. Þann 30. mars varð sá tími mér enn þá dýrmætari, Þegar þú kvaddir okkur allt of snemma.

Ég veit að þú yrðir samt ekkert allt of sáttur við þessa lofræðu enda barðirðu þér aldrei á brjóst yfir neinu því sem þú hefur áorkað í gegnum lífið, að undanskildum afkomendunum þínum, og heyrðist mjög oft sagt með stoltri rödd að þú ættir orðið 10 barnabörn.

Fyrir mér varstu heljarmenni þótt árin hefðu vissulega dregið úr þér líkamlega. En andlega var ekkert sem kom þér úr jafnvægi. Þótt ég hafi að vísu reynt fullmikið á það síðasta árið.

Hins vegar bý ég að þínum styrk sem hjálpar mér í gegnum það áfall að hafa þig ekki hjá okkur lengur og mun ég ávallt hafa röddina þína bak við eyrað að leiðbeina mér.

Ég vona innilega að ég geti verið mínu fólki jafn mikil fyrirmynd og þú varst þínu.

Ég mun gera mitt allra besta til að halda minningunni þinni á lofti. Við systkinin munum gera okkar besta að passa mömmu fyrir þig í sameiningu.

Nú kveð ég minn besta vin og föður.

Ólafur G. Guðbrandsson.

Elsku afi.

Það er erfitt og sárt að sætta sig við þennan nýja veruleika án þín og að fá ekki að hitta þig aftur, en eftir sitja allar þær dýrmætu og góðu minningar af þér sem munu aldrei gleymast.

Hann afi okkar var alveg einstakur maður og ekkert illt bein leyndist í honum, hann óskaði öllum þess besta í lífinu og var rosa duglegur að passa upp á fólkið sitt. Við barnabörnin áttum það til að kalla hann „afa löggu“ en hann afi okkar átti 36 ára feril sem lögregluþjónn að baki þegar hann varð 65 ára gamall. Með því fylgdi mikið öryggi í faðmi hans afa og var það nú ekki leiðinlegt að minnast á það að afi okkar væri lögga, en það var alls ekki það eina sem skilgreindi hann. Hann var mikill áhugamaður um fótbolta og íþróttir og hvatti okkur barnabörnin í öllu sem við gerðum. Afi var líka ansi klár við textagerð eins og að semja vísur og ljóð, hann átti alls ekki erfitt með að hjálpa okkur við að semja ljóð þegar þess þurfti. Í þau óteljandi skipti sem við gistum hjá ömmu Siggu og afa Guðbrandi svæfði hann okkur alltaf með því að syngja fyrir okkur fallegar vögguvísur og segja okkur frá alls konar skemmtilegum sögum sem hann hafði lent í þegar hann var yngri. Það sem einkenndi tíma okkar með afa voru sögur, skemmtun, hlátur og söngur. Við erum svo innilega þakklát fyrir allar stundirnar sem við fengum með afa, hann var og verður alltaf okkar fyrirmynd í einu og öllu. En núna sitja aðeins minningar af honum eftir og munu þær lifa með okkur um ókomna tíð.

Nú farinn ertu mér frá

Hvað geri ég þá?

Þig hafa ég vil

og segja mér til.

Nú verð ég að kveðja.

Fæ ekkert um það að velja.

Þú kvaddir mig með hlátri.

Það er ekki skrítið að ég gráti.

(Ágústa Kristín Jónsdóttir)

Elsku besti afi okkar, við elskum þig svo mikið, við munum reyna okkar besta til að gera þig stoltan og við vitum að þú munt fylgjast vel með okkur að ofan. Við munum passa vel upp á ömmu og hvort annað. Sofðu rótt elsku afi, þín verður sárt saknað.

Þín afabörn,

Guðbrandur Elí og
Sigríður (Sirrý) Birta.

Elsku Guðbrandur.

Ég vann svo sannarlega í lottóinu þegar ég kynntist þér, þú varst mér alltaf svo góður og ég mun ávallt minnast þín með dýpstu virðingu, þakklæti og hjartans hlýju fyrir allt.

Takk fyrir öll ferðalögin, samveruna og minningarnar, ég geymi þær í hjarta mínu og lofa að passa upp á barnabörnin þín sem sakna afa sárt og halda minningu Afa löggu á lofti um alla tíð.

Guð gefi öllum ástvinum styrk í þessari miklu sorg.

Blessuð sé minning þín elsku Guðbrandur.

Saknaðarkveðjur,

Ásta Rós.

Lífið er hverfult. Það er sárt að setjast niður og skrifa minningargrein um mág okkar og svila, eitthvað svo óraunverulegt. Enginn fyrirvari, engin kveðjustund og ævisólin sest svo skyndilega. Þetta er sárt fyrir fjölskylduna, eiginkonu, börn og barnabörn, nú þegar numinn er brott traustur maki, faðir og afi. Afi Brandur var sannkallaður klettur í fjölskyldunni og fyrirmynd á mörgum sviðum.

Hann hafði ýmis plön til að njóta eftirlaunaáranna, gera út á strandveiðar og dútla eitthvað við sauðfjárbúskap. Það má með sanni segja að hann var útvegsbóndi af gamla skólanum. Sjómennskan átti vel við hann enda duglegur sjósóknari og hafði gaman af því að segja frá útgerð sinni, aflabrögðum, veðurfari og endurbótum á bátnum. Frásagnargleðin leyndi sér ekki og oft tvinnaðist saman á skemmtilegan hátt sjómennska og fjárbúskapur.

Við tengdumst Guðbrandi sterkum fjölskylduböndum í rúm 40 ár sem okkar mágur og svili. Það bar aldrei skugga á þá vináttu og traust, margt gerðum við saman, meðal annars byggja sumarhús, veiðiferðir, ferðalög innanlands og erlendis. Fjölskyldur okkar hafa náð vel saman, bæði börn og barnabörn, enda mikill samgangur fá fyrstu tíð. Það er okkur kært og vonandi eflast þau tengsl enn frekar um ókomna tíð.

Brandur vann ýmis störf til sjós og lands á sínum yngri árum, að ógleymdum vertíðum, en seinna varð lögreglustarfið hans ævistarf. Hann var farsæll í því starfi. Leysti málin af yfirvegun og gat talað menn til í erfiðum aðstæðum án þess að beita valdi eða hörku. Menn báru virðingu fyrir honum og traust, bæði „góðkunningjar“ lögreglunnar og aðrir. Hann vann náið með tengdaföður sínum, Ólafi Jóhannssyni, sem reyndist honum eflaust góður lærifaðir í starfi enda starfshættir þeirra mjög líkir.

Brandur var hlédrægur að eðlisfari og var ekki að trana sér fram. Var hress og kátur í góðra vina hópi og leyndi virkilega á sér með beinskeyttan og djúpan húmor þegar hann komst í gang. Hafði gaman af kveðskap og var vel liðtækur á þeim vettvangi. Gamanvísur voru í mestu uppáhaldi um menn og málefni líðandi stundar, þó gátu komið frá honum stöku ferskeytlur með alvarlegum undirtón.

Guðbrandur og Sigga voru mjög samrýnd hjón og samheldin. Þeirra stóra heimili var ávallt opið ættingjum og vinum og því oft gestkvæmt þar enda voru þau mjög gestrisin. Það þótti sjálfsagt að halda alls konar veislur þar með þau hjón í fararbroddi. Slíkar veislur og mannfagnaðir verða fátæklegri við brotthvarf Guðbrandar.

Nú er því miður runnin upp kveðjustund á köldum vetrardegi en minningar munu ylja um góðan dreng, hans verður sárt saknað. Mikill er missir fyrir Siggu, börnin og barnabörnin sem eftir sitja og þurfa að vinna úr áfallinu og þessum sára missi. Megi góður guð styrkja þau í sorginni.

Við hliðina á sorginni sitja þakklæti og gleði yfir því að Guðbrandur var hluti af lífi okkar. Farðu í friði elsku vinur og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Björn og Sóley.

Það er sárt að skrifa minningargrein um þig Guðbrandur minn og fregnir af andláti þínu voru eins og tíminn hefði stoppað og fengið okkur til þess að endurhugsa tilveruna í öðru ljósi. Enda varstu fullfrískur og nýkominn á verðskuldaðan eftirlaunaaldur. Einstakur maður; eiginmaður, faðir, afi og umfram allt yndislegur maður með einstaka nærveru sem gaf sér alltaf tíma til þess spjalla og ávallt boðinn og búinn að hjálpa öðrum.

Guðbrandur var gæddur öllum þeim mannkostum sem fólk vill hafa í sínu fari, hjálpsamur og greiðvikinn með eindæmum og hafði fágæta náðargáfu, að koma fram við alla sem jafningja. Þegar ég hugsa um þig var Sigga systir aldrei langt undan, þar sem þið hjónin eruð ávallt nefnd í sömu andrá. Ef mig vantaði gistingu eða kíkja í kaffi þá var ávallt sagt ég verð heima hjá Siggu og Guðbrandi. Þið voruð mjög samrýnd og áttuð í löngu, ástsælu og gæfuríku sambandi, því er missir þinn mikill Sigga mín. Þrátt fyrir að komið sé að leiðarlokum þá sitja eftir mikil auðæfi í börnum ykkar og barnabörnum.

Þrátt fyrir að Guðbrandur hafði starfað lengst af hjá lögreglunni, þá hafði hann gefið það margoft út að hann væri trillukarl, þar sem hann byrjaði sem ungur maður til sjós. Hann hlakkaði mikið til að fara á trillunni sinni á strandveiðar í maí, eins og hann hafði gert undanfarin ár. Guðbrandur var einnig rollubóndi í hjáverkum sem Sigga kallaði í gríni og alvöru spariféð. Þegar hann var inntur eftir því hvort rollubúskapurinn væri þess virði svaraði Guðbrandur því neitandi enda væri hann ekki að standa í þessu til að græða einhvern pening heldur væru rollurnar hugsaðar sem verkefni með Óla syni sínum og barnabörnum sem fannst fátt skemmtilegra en að fara með afa sínum í fjárhúsið.

Ég og drengirnir mínir viljum þakka þér ævinlega fyrir alla hugulsemina og vinskapinn. Það mun taka tíma að venjast þeirri tilhugsun að þú takir ekki á móti manni með hlýja brosinu þínu í næstu heimsókn.

Við sendum ykkur, elsku Sigga, Guðrún, Jóhann, Óli og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún G. Ólafsdótttir, Arinbjörn, Brynjar og
Jón Pálmi Rögnvaldssynir.

Góðkunningi minn Guðbrandur hennar Siggu eða Guðbrandur lögga er allur. Andlát hans bar brátt að.

Guðbrandur var gæðadrengur og mikill fjölskyldumaður. Hann kom sér alls staðar vel. Í störfum sínum sem lögreglumaður var hann vel kynntur; mannasættir og það oft við erfiðar aðstæður, en ákveðinn og vildi leysa málin án óþarfa vandræða.

Frá unga aldri og þar til hann hóf störf í lögreglunni lagði hann gjörva hönd að mörgu bæði til lands og sjávar. Nú hin síðari ár stundaði hann strandveiðar á eigin bát og var sjósóknari góður. Um árabil átti hann kindur, ásamt Ólafi syni sínum. Afurðirnar voru með því betra er gerist og umgengni öll og fóðrun var snyrtileg.

Ég vil þakka Guðbrandi og Sigríði konu hans fyrir þann velvilja og aðstoð er hann og þau bæði sýndu foreldrum mínum, og systur, í veikindum og við fráfall Jónmundar bróður míns.

Guðbrandi þakka ég nágrannasamstarfið í aldarfjórðung.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Sigga mín! Við Gunna og börn okkar vottum þér börnum þínum og fjölskyldunni alla samúð okkar.

Guð veiti þér og þínum styrk.

Guðmundur Óli.

Guðbrandi Ólafssyni kynntist ég fyrir tæpum tíu árum í kjölfar þess að hugir okkar Sunnu, systurdóttur Sigríðar, féllu saman. Brandur er þó einn þeirra sem mér finnst ég hafa þekkt mun lengur.

Ein fyrstu kynni okkar Guðbrands voru þegar við hjónaleysin tilkynntum komu eldri dóttur okkar. Brandur var þá manna kátastur og skálaði í sínu fínasta víni, enda einn æðsti tilgangur lífsins að tryggja næstu kynslóðir. Hann tók dætrum okkar tveimur alltaf líkt og sínum eigin barnabörnum.

Við fjölskyldan höfum sótt í félagsskap Brands og Siggu þrátt fyrir kynslóðabilið. Minnisstæð var heimsókn þeirra hjóna til Kaupmannahafnar 2018. Það var í eina skiptið sem Brandur heimsótti Íslands gömlu höfuðborg. Ferðin var eins konar sýning á góðum samskiptum hjóna. Fannst mér Brandur vera óvenju hraðgengur maður, enda var hann frambærilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum, með góðan vinstri fót. Þá hæfileika ásamt fleiri góðum mannkostum hafa afkomendurnir erft.

Brandur var sögumaður góður og hagmæltur. Hann sagði margar sögur af sjómennsku og lögreglustörfum. Kom þar sú stóíska ró sem hann bjó yfir sér gjarnan vel. Sögurnar voru eins konar gamansamar dæmisögur þar sem heiðarleiki, ósérhlífni og fjölskyldurækt voru í hávegum. Hann lifði eftir þeim gildum.

Að lokum vil ég þakka fyrir gestrisnina og samveruna auk mjög ljúffengra og digurra lambaframparta. Þykir mér miður að hafa ekki þegið boð um dag á trillunni þegar tími gafst til.

Guðbrands Ólafssonar er og verður sárt saknað en minning um góðan dreng og fyrirmynd lifir um ókomna tíð.

Björn Jakob Magnússon.

Mig langaði að skrifa nokkur orð um vin minn og vinnufélaga, Guðbrand Jóhann Ólafsson. Leiðir okkar Guðbrands lágu saman með opnun Héðinsfjarðarganga, 2010. Með tilkomu þeirra urðum við vinnufélagar og í framhaldinu góðir vinir. Auðvelt var að umgangast Guðbrand, hann var geðgóður, hnyttinn, hagmæltur og skemmtilegur. Þrátt fyrir það var hann fastur fyrir og lét ekki auðveldlega valta yfir sig. Guðbrandur lét af störfum sem lögreglumaður árið 2021, þá 65 ára. Hann hafði frá mörgu athyglisverðu að segja, það tengdist oft vinnu hans sem lögreglumaður hér á árum áður. Fjölmargir lögreglumenn voru þá starfandi á Siglufirði, bærinn var einangraður, og þurftu að kljást við ölvaða sjómenn í landlegum og aðra þá sem voru með vesen. Þeir tókust á við umrædda misindismenn og var þá gamla góða hálstakið í öndvegi. Það tak var það eina sem dugði til að yfirbuga liðið að sögn Guðbrands.

Á Siglufirði var Guðbrandur þekktur sem Brandur lögga, mátti sjá að bæjarbúar þekktu vel til hans og báru virðingu fyrir honum. Þetta gilti bæði um borgarana sem og þá sem komust í kast við lögin. Guðbrandur var ævintýramaður, sá ýmis tækifæri í hinu og þessu en Sigga, hans stoð og stytta, var oftast fljót að koma Brandi niður á jörðina þegar honum datt eitthvert snjallræðið í hug.

Það var ósjaldan sem við Brandur kíktum heim til hans á vaktinni og þá yfirleitt dekkað borð af kræsingum, Sigga var þá búin að útbúa eitthvert góðgæti fyrir sinn mann og ég fékk að koma með. Einnig var Guðbrandur tíður gestur á mínu heimili, kíktum við á vaktinni og fengum okkur snarl, kaffibolla og stöku sinnum var hent á grillið.

Það var draumur Guðbrands að fá sér nokkrar kindur og verða frístundabóndi. Hann keypti fjárhús í Ólafsfirði og ók yfirleitt daglega á milli að vetrarlagi. Þetta átti hug hans allan. Óli sonur hans var með honum í búskapnum og líkaði þeim vel. Síðar færðu þeir sig með búskapinn yfir á Sauðanesið til Jóns Trausta, fyrrverandi vaktfélaga Guðbrands. Guðbrandur gerðist einnig útgerðarmaður, keypti sér trillu og stundaði strandveiðar að sumarlagi. Hann uppfærði trilluna, keypti sér nýja betri og var nýbúinn að láta taka hana í gegn. Ég hitti Guðbrand skömmu áður en andlát hans bar að garði og sagði hann mér að hann væri mjög spenntur að sjá hvernig nýi báturinn myndi koma út.

Guðbrandur var mikill fjölskyldumaður, elskaði að vera með sínum nánustu og eyða með þeim tíma. Barnabörnin komu oft í heimsókn og fengu að eyða tíma með afa og ömmu.

Elsku Sigga, Guðrún, Jói og Óli, ég og Rósa vottum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Góðar minningar lifa um Brandinn okkar.

Þinn vinur,

Sigurbjörn (Bjössi).

Elsku yndislegi Brandur okkar.

Það er skrýtið að setjast niður og skrifa minningargrein um þig, sérstaklega í ljósi þess hve snögglega þú varst rifinn frá okkur. Við erum ekki ennþá búin að ná áttum í þessum nýja raunveruleika og síðustu dagar hafa verið fullir af sorg.

Þú sem varst nýbúinn að segja okkur spenntur frá öllum plönunum fyrir bátinn og Laugaveginn og öllu því sem framundan var, rétt handan við hornið. En það sem við eigum er minningin um þig elsku Brandur og þær eru margar góðar minningarnar sem við munum varðveita. Þið Sigga hafið alltaf átt stóran sess í lífi okkar systkina og þegar við mættum á Sigló þá vissum við að húsið ykkar Siggu stæði alltaf opið og eyddum við miklum tíma þar bæði á uppvaxtarárum og áfram í seinni tíð. Það var alltaf sjálfsagt mál að fá að gista og eru næturnar ófáar sem við gerðum það og var það eins og okkar annað heimili. Tvö okkar systkina hafa meira að segja fengið að búa hjá þér og Siggu, sem sýnir hversu faðmur þinn var stór. Þegar við vorum að alast upp eyddum við oft sumarfríum með ykkur fjölskyldunni. Má þar nefna allar þær dásamlegu samverustundir í Héðinsfirði á hverju sumri, sem voru oftar en ekki hápunktur sumarsins.

Ekki er hægt að sleppa að minnast á allar eldhúsumræðurnar góðu á Eyrargötunni með þér og Siggu. Við systkinin höfum öll setið löngum stundum við eldhúsborðið þar sem öll helstu mál voru krufin og alltaf var stutt í gamanið og leitast við að sjá skemmtilegu hliðarnar á lífinu. Þú kunnir svo vel að tala beint út frá hjartanu elsku Brandur.

Takk fyrir allt, alla hjálpsemina og allar samverustundirnar. Við munum halda minningu þinni á lofti og hugsa vel um fólkið þitt.

Við sendum Siggu yndislegu frænku okkar og allri fjölskyldunni styrk á þessum erfiðu tímum og munum gera okkar besta til þess að vera til staðar fyrir þau.

Ásgrímur, Anna Lind
og Sunna.

Við Guðbrandur höfum eflaust hist fyrst á gamla malarvellinum við Túngötuna á Sigló: hann bjó við annan enda vallarins en ég við hinn. Völlurinn var okkar athafnasvæði á skólaárunum, jafnt sumar sem vetur; yfir sumartímann var það boltinn, ef ekki til að sparka sjálfir þá til að læra af eldri snillingum sem æfðu skotfimina; á veturna gátum við spennt gönguskíðin á okkur heima við hús og tekið nokkra hringi á vellinum fyrir háttinn, stundum undir leiðsögn helstu skíðahetja bæjarins á sjöunda áratugnum, sem var ekki ónýtt.

Við vorum hluti af stórum árgangi, sem birtist á götunum á miðju barnasprengjutímabili eftirstríðstímans, þegar Siglufjörður var enn gróandi samfélag. Síldin var ekki alveg farin. Bærinn hafði heldur ekki sagt skilið við landbúnaðartímann; það voru rollur í litlum kofum í mörgum bakgörðum – þær voru baktrygging margra bæjarbúa og skiptu sköpum þegar síldin brást. Þannig var það lengi vel í garðinum heima hjá Guðbrandi við Þormóðsgötuna. Hann hélt síðar sjálfur í hefðina og annaðist kindur í frístundum, eins og Óli Brandar og Stóri-Brandur höfðu gert á undan honum. Hann sótti líka sjóinn og beið síðustu árin óþreyjufullur eftir því á vorin að strandveiðar hæfust; hann gladdist innilega yfir því þegar næstu kynslóðir, börnin hans og barnabörn, sýndu áhuga á að halda þessari iðju áfram, læra undir handleiðslu hinna eldri handtökin á sjó og landi – mér fannst hann stundum líta á afdrepið við Miklavatn eins og æfingabúðir fyrir yngra fólkið í hefðbundnu verklagi og umgengni við náttúruna.

Hann var ekki óvanur því að hugsa um hag og öryggi annarra. Það var eiginlega skrifað inn í starfslýsingu hans sem aðalvarðstjóra lögreglunnar. Yfirvegun og traust hafa eflaust vísað veginn í það hlutverk; fáum var líklega betur treystandi til að tryggja friðinn, lempa í átökum og leysa ágreiningsmál. Þótt Siglufjörður væri orðinn friðsamari í seinni tíð heldur en á helsta blómatíma sínum – þegar sagan segir að róstur væru algengar í landlegum og táragasi stundum beitt – þá var full ástæða til að rækta öryggistilfinningu fólks á svæðinu með glaðværri staðfestu. Átti það ekki síst við eftir að fjöldi ferðamanna margfaldaðist – og Siglufjörður var orðinn frægur vettvangur glæpa í bókmenntum og kvikmyndalist.

Við bekkjarsystkinin minnumst Guðbrands ekki síst fyrir allar sögurnar sem hann bjó yfir og miðlaði okkur á listilegan hátt. Af einu árgangsmótinu man ég fátt annað en skemmtilegar stundir undir frásögnum hans. Ekki hvarflaði að okkur að sögurnar yrðu ekki fleiri – líf mannlegt endar skjótt, en minningin lifir.

Við Anh-Dao vottum Siggu, börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

Jónas Guðmundsson.