Dómur MDE gegn Sviss er óþolandi árás á lýðræðið

Áhyggjur af stöðu lýðræðisins hafa farið vaxandi í hinum frjálsa heimi undanfarin ár. Einræðisríkjum vex ásmegin, en pópúlisminn ágerist. Í Evrópusambandinu verður lýðræðishallinn sífellt brattari, og hvarvetna í þróuðum lýðræðisríkjum – þar er Ísland ekki undanskilið – trompar regluverkið bæði lýðræðið og einstaklingsfrelsið í síauknum mæli.

Þar ræðir um valdahnupl ókjörinna og ábyrgðarlausra embættismanna, lagatækna og hagsmunaafla, sem frekar færist í aukana en hitt. Sem aftur mun reynast vatn á myllu pópúlískra afla, en milli þeirra og möppudýranna kremst vestrænt, frjálslynt lýðræði.

Nýjasta dæmið um það hvernig ólýðræðislegar stofnanir hrifsa til sín völd frá almenningi er frá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) í Strassborg, sem í fyrri viku kvað upp dóm, sem í senn færir út kvíar dómstólsins og setur lýðræðið í annað sæti.

Í stuttu máli dæmdi MDE að þau aðildarríki mannréttindasáttmála Evrópu, sem ekki minnka kolefnislosun nógu hratt, brjóti með því á rétti borgaranna til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sem áskilinn er í 8. gr. sáttmálans. Dómurinn gekk í máli gegn Sviss (sem ber ábyrgð á um 0,1% CO2 losunar heimsins), en hann setur öllum ríkjum sáttmálans fordæmi.

Dómurinn hefði verið sérkennilegur einn og út af fyrir sig, en hann er hálfu alvarlegri fyrir það að hann gengur þvert á og ógildir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss árið 2021 um losunarmálin. Meirihluti kjósenda í Sviss kann að ákveða eitthvað, en MDE veit betur. Ákvörðun hans trompar þá stjórnarskrá Evrópu, sem lengst gengur í virku og beinu lýðræði.

Þarna er hinn fjölþjóðlegi dómstóll ekki aðeins að segja löggjafanum fyrir verkum, heldur beinlínis að mæla fyrir um pólitíska stefnumörkun, sem lýðræðið og fullveldið verði að þoka fyrir.

Algerlega óháð afstöðu fólks til loftslagsmála, þá er það einfaldlega ekki í verkahring dómstólsins.

Ef Mannréttindadómstól Evrópu líðst að taka sér þessi völd, að dæma að sérhverja hækkun á hitastigi loftslagsins nú eða í framtíð megi rekja til aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda, svo friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sé í hættu, verður að telja ósennilegt að hann láti þar staðar numið. Og hvaða aðgerð eða aðgerðaleysi stjórnvalda getur þá ekki mögulega haft einhverjar slíkar afleiðingar á friðhelgi einkalífs og fjölskyldu í för með sér?

Þá má eins fela dómurum MDE öll völd til sjós og lands strax. Þeir einir vita og þeir þurfa ekki að standa neinum reikningsskil.

Það eru engar ýkjur. Með því að fella alla mannlega breytni undir „mannréttindi“, sem ganga verða fyrir öllu öðru, þá er lýðræðið fyrir bí. Lýðræðisleg umræða – þar sem ólík sjónarmið og rök koma fram, þar sem að lokum er kosið um ólíkar leiðir og svörin eru ekki hvarvetna eða alltaf hin sömu – verður óhjákvæmilega hliðarsett.

Afstaða dómenda til lýðræðisins kemur raunar fram með beinum hætti í dómnum:

„Lýðræðið má ekki smætta niður í vilja meirihluta kjósenda og kjörinna fulltrúa, án tillits til takmarka réttarríkisins.“ – Sem sagt, að kjósendum og fulltrúum þeirra sé ekki treystandi um annað en það sem hinir vísu og hlutlausu dómarar leyfa.

Í dómnum er ekki gerð minnsta tilraun til þess að færa lögfræðileg rök fyrir honum, heldur er einfaldlega úrskurðað að 8. gr. sáttmálans feli héðan í frá í sér „rétt einstaklinga til skilvirkra varna ríkisvaldsins gegn alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á líf þeirra, heilsu, velferð og lífsgæði“.

Getur þess verið langt að bíða að einhver kæri leikskólabiðlista Reykjavíkurborgar eða liðskiptabiðlista heilbrigðiskerfisins til MDE? Húsnæðisskortinn? Verðbólgu og vexti? Bankið í ofnunum? Allt raskar það friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt þessari nýju og frumlegu túlkun MDE.

Höfundar mannréttindasáttmálans höfðu ekkert slíkt í hyggju, dómurinn er afskræming á hugsjóninni að baki honum. Dómararnir skáka hins vegar í skjóli 32. gr. sáttmálans sem gefur dómstólnum sjálfdæmi um lögsögu sína og getur fyrir vikið aukið við völd sín og lögsögu að vild. Það hefur hann gert, en árið 1978 úrskurðaði MDE að sáttmálinn væri „lifandi réttindaskrá“ sem dómarar hans mættu og ættu að túlka og útvíkka að vild, án þess að spyrja aðildarríkin.

Þetta er því miður ekki ný þróun, en Mannréttindadómstóll Evrópu er hér kominn í þvílíkt öngstræti að ekki verður lengur við unað. Hann á að standa vörð um mannréttindi, en hver stendur vörð um lýðræðið? Draga verður í efa að Evrópuráðið sýni það frumkvæði í því sem þarf; þá geta þau aðildarríki, sem vilja halda lýðræðið í heiðri, fátt annað gert en að huga að úrsögn.