[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrea Sigurðardóttir andrea@mbl.is

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Börnum á leikskólaaldri, hvort sem þau eru í leikskóla eða ekki, hefur fækkað í Reykjavík frá árinu 2014. Börnum sem eru í leikskólum borgarinnar hefur sömuleiðis fækkað, en á sama tíma hefur starfsfólki leikskólanna fjölgað umtalsvert. Börnum á leikskólaaldri hefur aftur á móti fjölgað á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, það er í Kraganum, en fjölgun starfsmanna hefur verið sambærileg.

Leikskólabörnum hefur einkum fjölgað á sjálfstætt starfandi leikskólum á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið í Reykjavík, en ekki á leikskólum reknum af sveitarfélögunum.

Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands hefur börnum á aldrinum 1-5 ára sem búsett eru í Reykjavík fækkað um tæp 9% frá árinu 2014. Í upphafi þessa árs voru þau um 7.700 en höfðu verið um 8.500 í upphafi árs 2014. Á sama tímabili hefur börnum á þessum aldri fjölgað um tæp 4% í Kraganum, úr um 6.800 í rúm 7.000.

Leikskólabörnum fækkað í borginni

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur börnum á leikskólum borgarinnar fækkað um 7%, úr 7.000 í 6.500 frá árinu 2014, en nýjustu tölur eru frá árinu 2022. Á sama tímabili hefur starfsfólki leikskólanna fjölgað um 16%, úr 2.050 í 2.400.

Börnum á leikskólum í Kraganum hefur aftur á móti fjölgað um 4% á sama tíma, úr 5.900 í 6.150. Starfsfólki á leikskólum á svæðinu hefur fjölgað svipað og í Reykjavík, um 17%, úr 1.800 í 2.100.

Einkarekstur leiðir fjölgun leikskólabarna

Athygli vekur að börnum hefur einkum fjölgað á sjálfstætt starfandi leikskólum, hvort heldur litið er til Reykjavíkur eða Kragans.

Þannig hefur börnum á leikskólum sem borgin rekur fækkað um ríflega 9%, úr um 6.000 í 5.450, en börnum á sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni hefur fjölgað um 13%, úr 1.120 í 1.260.

Fjöldi barna á leikskólum sem sveitarfélögin í Kraganum reka hefur staðið í stað á tímabilinu og er um 5.000, en börnum á sjálfstætt starfandi leikskólum í Kraganum hefur á sama tíma fjölgað um 30%, úr tæplega 800 í ríflega 1.000.

Hinn 4. apríl síðastliðinn voru 1.327 börn ársgömul og eldri, sem ekki eru í öðrum leikskólum í borginni, á biðlista eftir plássi á leikskólum Reykjavíkurborgar. Flest börnin eru á aldrinum 12-17 mánaða eða ríflega 500, en yfir 400 börn á aldrinum 18-23 mánaða bíða eftir plássi. Tæplega 150 barnanna eru 24-29 mánaða, færri en 100 30-35 mánaða en um 150 eru þriggja ára og eldri.

Á annað þúsund börn á biðlista í borginni

Þá eru 267 börn til viðbótar á sjálfstætt starfandi leikskólum með umsókn um flutning yfir á borgarrekna leikskóla, sem ekki eru talin með.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn skóla- og frístundaráðs borgarinnar. Innritun á leikskóla borgarinnar fyrir haustið stendur nú yfir. Í bókun Sjálfstæðisflokksins vegna málsins segir meðal annars:

„Staðan í ár mun ekki verða betri en í fyrra en við biðlistann bætast að jafnaði 100 börn á mánuði. Þótt um 1.400 börn hætti í leikskóla og fari í grunnskóla þá má slá föstu á þessum tímapunkti að biðlistinn muni að lágmarki telja um 500 börn sem ekki fái inngöngu í leikskóla í haust.“

Í frétt Morgunblaðsins frá því í ágúst 2014 kemur fram að þá hafi verið 55 börn á biðlistum borgarinnar. Verði 500 börn á biðlistanum nú í haust hefur biðlistinn nífaldast frá 2014, þrátt fyrir að börnum á leikskólaaldri hafi fækkað umtalsvert á tímabilinu.