Grindavík Margar eignir í bæjarfélaginu eru stórskemmdar eftir hamfarir.
Grindavík Margar eignir í bæjarfélaginu eru stórskemmdar eftir hamfarir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Þorbjörnsson, löggiltur fasteignasali í Grindavík, segir mörg dæmi um að fasteignaeigendur í Grindavík sitji uppi með neikvætt eigið fé í eign sinni. Fyrir vikið þurfi að endurskoða aðstoð ríkisins til þessa hóps

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Páll Þorbjörnsson, löggiltur fasteignasali í Grindavík, segir mörg dæmi um að fasteignaeigendur í Grindavík sitji uppi með neikvætt eigið fé í eign sinni. Fyrir vikið þurfi að endurskoða aðstoð ríkisins til þessa hóps.

Sem kunnugt er var fasteignafélaginu Þórkötlu komið á fót til að kaupa fasteignir af Grindvíkingum í kjölfar jarðhræringa og eldgosa. Þórkatla miðar við 95% af brunabótamati en fasteignaeigendur hafa verið hvattir til að láta endurmeta matið við umsóknarferli. Þá til dæmis ef húsnæðið hafi verið stækkað eða endurbætt en það ekki endurspeglast í brunabótamati.

Geta ekki keypt

Máli sínu til stuðnings tekur Páll dæmi af íbúðaeigendum í Grindavík sem sitji jafnvel uppi með neikvætt eigið fé í eign sinni og geti því ekki keypt aðra fasteign í staðinn í Reykjanesbæ eða öðrum nágrannasveitarfélögum.

Eitt dæmið sé íbúð í nýbyggingu sem afhent var í fyrra. Ásett verð var 51,9 milljónir króna en brunabótamatið 43,8 milljónir. Þórkatla greiði 95% af brunabótamatinu eða 41,61 milljón króna. Fyrir vikið sé um 10 milljóna króna munur á ásettu verði og því sem Þórkatla greiðir. Fasteignamat eignarinnar sé 49,9 milljónir. „Þessir aðilar eru að tapa dýrmætu eigin fé en eignin hefði selst samdægurs síðasta sumar,“ segir Páll.

Neyðast til að leigja

Vegna þessa mismunar sé eigið fé þessara fasteignaeigenda gufað upp. Afleiðingarnar af því geti verið mjög slæmar enda neyðist þeir þá hugsanlega til að fara á leigumarkað við krefjandi aðstæður.

Síðara dæmið sé að endaraðhús hafi selst á 71 milljón króna síðasta sumar. Brunabótamatið sé nú 71,6 milljónir og uppkaupsfjárhæð Þórkötlu, samkvæmt 95% reglunni, því 68 milljónir. Í því tilviki tapi eigandinn um þremur milljónum króna.

Páll bendir á að nær vonlaust sé fyrir fasteignaeigendur í Grindavík að selja eignir sínar á viðunandi verði í náinni framtíð, velji þeir á annað borð þann kost, enda láni fjármálastofnanir ekki út á eignir í Grindavík. Mikil óvissa sé um framvindu jarðhræringa við bæinn.

Rétt að miða við 110%

Samandregið telur Páll sanngjarnt að Þórkatla miði við fasteignamat, ef það er hærra en brunabótamat, og helst að miðað sé við 110% af fasteignamati. Þá fái eigendurnir sannverð fyrir eignirnar og eigi því raunhæfari möguleika á að kaupa eignir í Reykjanesbæ eða nágrannasveitarfélögum.

Hann hafi rætt við verktaka sem treysti sér ekki til að byggja íbúðir á því verði sem Þórkatla greiði fyrir íbúðir í Grindavík. Að öllu óbreyttu muni nokkuð fjölmennur hópur, ekki síst fyrstu kaupendur, sitja uppi með neikvætt eigið fé. Því hafi stjórnvöld brugðist í stuðningi sínum, hvort heldur sem er við íbúðaúrræði eða fjárhagslegan stuðning. Raunar geti aðilar sem hafa keypt eignir í Grindavík síðustu ár endað með neikvætt eigið fé.

Höf.: Baldur Arnarson