Björg Baldursdóttir fæddist 7. apríl 1958. Hún lést 31. mars 2024.

Útför Bjargar fór fram 12. apríl 2024.

Við systkinin eigum öll þá minningu þegar við vorum að ganga heim úr skólanum að vori til. Sól á lofti og gott veður. Við rétt komin að Holti, sáum að svalahurðin á Skjólbrekku var opin og tónlistin ómaði um allt Hammersminnið. Ýmist voru í spilun Ríó tríó, Bjartmar Guðlaugs, Raggi Bjarna, Helgi Björns eða aðrir tónlistarmenn sem voru í uppáhaldi hjá þér hverju sinni. Inni varst þú að baka kleinur, prjóna eða hekla eða gera hvað eina annað sem þú hafðir unun af. Kleinurnar þínar voru þekktar um allan Djúpavog og þó víðar væri leitað.

Eitt af áhugamálum þínum var að fara niður í fjöru og tína steina. Við öll og barnabörnin fengum kennslu og vorum orðin nokkuð góð í að finna „réttu“ steinana. Í fyrrasumar fórum við svo síðustu ferðina með þér austur á Berufjarðarströnd, neðan við Kross. Þar vorum við öll saman komin, börn og barnabörn. Öll jafn áhugasöm og þú. Þú varst þar í essinu þínu, sast efst í fjörunni, sagðir okkur hvar helst væri að leita, tókst svo á móti steinunum og flokkaðir í fötur. Okkur þykir öllum ótrúlega vænt um þá minningu.

Þú hafðir mikið dálæti á hvers kyns sauma- og prjónaskap. Prjónaðir vettlingar og sokkar frá þér eru til á allflestum heimilum á Djúpavogi, sem og í öðrum bæjarfélögum á landinu. Bútasaumur átti um tíma hug þinn allan, en þegar frá leið varstu þó farin að reiða þig á nákvæmni pabba við mælingar og skurð efna í saumaskapnum. Verkstjórinn þú þó alltaf á vaktinni og passaðir upp á að allt væri rétt gert á endanum. Alls kyns teppi frá þér hafa ratað ofan í vöggur og rúm barnanna okkar og eru þau nú dýrmætar minningar.

Þú varst okkur börnunum afar kær og elskuleg. Barst hag okkar ávallt fyrir brjósti, í einu og öllu. Þú kenndir okkur að gefast aldrei upp, hvattir okkur áfram í hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem það voru íþróttir, nám eða hvað eina annað. Þú komst alltaf til dyranna eins og þú varst klædd, álit annarra skipti þig engu máli. Besta dæmið um það var í fyrstu lyfjameðferðinni þinni, þegar þú misstir hárið og áttir að fá hárkollu. Þú sagðir að hún færi aldrei upp, svo einfalt væri það. Við það stóðst þú og þessi kolla var aldrei notuð.

Öll barnabörnin elskuðu þig afar heitt, enda veittir þú þeim alltaf óskipta athygli og ást. Þú varst alltaf með allt á hreinu hvað hver var að gera. Að koma keyrandi frá Djúpavogi til Reykjavíkur til að passa fyrir okkur var gert fyrir eitt orð. Síðan fóru krakkarnir oftar en ekki með ykkur aftur austur og voru hjá ykkur pabba í góðu yfirlæti í nokkra daga.

Þú tókst á við veikindi þín af mikilli yfirvegun og æðruleysi. Þú varst aldrei ósátt við hlutskipti þitt og kveinkaðir þér aldrei. Þú elskaðir að hafa fólkið þitt í kringum þig og heyra hvernig dagurinn hefði verið hjá okkur. Á þessum tíma höfum við fundið hversu samheldin og náin við erum sem fjölskylda og hversu mikið það hefur hjálpað okkur, enda lagðir þú mikið upp úr því. Við erum þakklát fyrir að hafa verið öll hjá þér þegar kallið kom, náð að kveðja þig og vefja þig ást og umhyggju.

Sigurborg Ósk Karlsdóttir,
Sigurður Karlsson,
Sólveig Karlsdóttir,
Jón Karlsson.

Kæra Björg, nú er þinni þrautagöngu lokið eftir níu ára baráttu við hinn illvíga sjúkdóm krabbamein.

Þú varst elst af okkar systkinum. Kraftmikill krakki og fórst þínar eigin leiðir. Þú eignaðist þitt fyrsta barn einungis 17 ára gömul með Kalla þínum. Síðan búin að eignast öll fjögur börnin þín áður en ég eignaðist mitt fyrsta barn. Já svona var Björg … best að drífa þetta af … ekkert hálfkák hjá henni.

Hún og Kalli byggðu sér fallegt heimili á sínum fyrstu hjúskaparárum og fluttu þau inn í Skjólbrekku um haustið 1979 sem sýndi mikinn dugnað og elju hjá þessum samhentu hjónum.

Samhliða öðrum störfum gerðist þú dagmamma, ásamt uppeldi þinna yngri barna. Því hlutverki sinntir þú af alúð og dugnaði eins og þér einni var lagið. Tel ég að sá farvegur sem þú valdir þér þar hafi hentað þér albest því þú hafðir yndi af börnum.

Í mörg ár bakaðir þú kleinur og annað bakkelsi fyrir togarann Sunnutind og fréttist það í flotanum að engin bakaði betri kleinur en Björg.

Stundum leitaði ég til þín þegar ég þurfti pössun fyrir drengina mína og alltaf varstu boðin og búin til að hjálpa mér þegar ég þurfti þess með.

Svona var Björg alltaf tilbúin að gera öðrum greiða, en síðan mátti eiginlega aldrei gera neitt fyrir hana. Með árunum urðum við systur nánari en við vorum áður, slíkt verður seint fullþakkað. Við áttum oft trúnaðarsamtöl um þetta og hitt sem er ómetanlegt. Það er virkilega erfitt að sætta sig við að þú sért farin frá okkur, en ég mun halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð.

Karl og börnin þín: Sigurborg, Sigurður, Sólveig og Jón, ásamt mömmu og pabba, Auðuni bróður og fjölskyldum okkar allra, það er mikið skarð höggvið í okkar raðir með brottför þinni.

Hafðu hjartans þakkir fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur í lifandi lífi. Blessuð sé minning þín. Hvíl þú í friði.

Þín systir

Sólveig og fjölskylda.

Elsku Björg, konan með stóra hjartað og hlýja faðminn. Takk fyrir árin sem við áttum saman bæði sem vinnufélagar og vinkonur. Mér er minnisstætt tímabilið sem við fengum okkar eigin deild í öðru húsnæði þegar leikskólinn var sprunginn, bara þú og ég og börnin.

Svo margar minningar koma upp hjá mér þegar þú átt í hlut, þú lást aldrei á skoðunum þínum og mikið var gaman að rökræða við þig um hin ýmsu málefni.

Hvort sem það var að koma í heimsókn til þín í Skjólbrekku eða hitta þig í bílnum hjá Kalla, það var alltaf svo gaman að hitta við þig.

Að heyra þig tala um börnin þín öll, stór og smá, var unun. Þú varst alltaf svo stolt af þeim öllum og engin undantekning þegar þú talaðir um Kalla þinn, þau voru allur heimurinn fyrir þér.

Væntumþykjan sem þú sýndir mér og síðar Rán þegar hún fæddist mun aldrei gleymast, allar gjafirnar sem Rán fékk frá þér. Dúkkan sem þú gafst henni fékk nafnið Kalli og síðar fékk hún aðra sem fékk nafnið Björg.

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman, þótt hann hafi verið af skornum skammti upp á síðkastið en þá var gott að geta gripið í símann og sent þér skilaboð.

Þú munt alltaf eiga hlut í hjarta mínu og ég mun ætíð sakna þín.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Sjáumst síðar.

Ásdís Heiðdal.

Leiðir okkar Bjargar lágu saman haustið 2003 þegar við fjölskyldan fluttum á Djúpavog vegna vinnu minnar. Ég og þáverandi eiginmaður vorum með fimm ára stúlku og níu mánaða tvíbura sem enn voru ekki nógu gamlir til að fara í leikskóla.

Björg, sem þá starfaði sem dagmamma, tók við þeim í vistun allan daginn. Fljótlega eftir að við fórum að venja komur okkar á heimili þeirra hjóna sá maður að Kalli tók ekki síður þátt í uppeldinu í Hammersminninu en Björg. Þetta gerðu þau bæði af hjartans ást og umhyggju, sem gekk langt út yfir alla venjulega skyldurækni. Maður verður auðmjúkur og orðavant þegar börnin manns njóta slíks aðbúnaðar hjá vandalausum.

Þeir komu heim með poka af kleinum og ástarpungum sem þeim fannst svo góðir. Þá fengu þau lopapeysur að gjöf sem voru mikið notaðar. Einnig er bíltúranna niður á sand, í smiðjuna með Kalla og ferðanna í fjárhúsin í Hamarseli á vorin minnst með mikilli hlýju á mínu heimili.

Í okkar huga hafa þau ætíð verið eitt Björg og Kalli. Á þessum árum myndaðist órjúfanleg vinátta þótt oft hafi lönd og álfur skilið að. Þá skal það einnig sagt að oftar voru þau hjón gefendur og við þiggjendur. Til marks um þetta þá hringdi ég eitt sinn í Björgu frá Svíþjóð rúmu ári eftir að við fluttum þangað og spurði hvort hún þekkti einhvern góðan ungling sem gæti komið og passað börnin mín í einn eða tvo mánuði sumarið 2007. Hún þagði stundarkorn í símann en sagði svo: „Heyrðu, við Kalli komum bara.“ Mig setti hljóða en þetta lýsir henni vel. Kalli gekk úr vinnu í tvo mánuði og hún lagði þetta á sig vitandi hvað hún var geysilega flughrædd. Kalli kenndi strákunum mínum að hjóla þetta sumar og þeirra hjóna var lengi minnst í hvert sinn sem stigið var á hjólin.

Björg var ekki allra, en hún var okkar og fyrir það verðum við ævinlega þakklát. Hennar barátta við illkynja sjúkdóm tók níu ár og alltaf bar hún sig vel þegar spurt var um heilsu og líðan.

Við vottum Kalla, börnum þeirra fjórum og fjölskyldum þeirra, sem og Baldri og Stellu, okkar innilegustu samúð. Þeirra missir er mikill.

Fjóla Björnsdóttir
og börn.