Sveinbjörg Ólöf Sigurðardóttir (Lóa) fæddist í Rauðseyjum á Breiðafirði 7. nóvember 1930. Hún lést 24. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Sigurður Sveinbjörnsson frá Bjarneyjum, f. 1894, d. 1975, og Þorbjörg Lilja Jóhannsdóttir, f. á Dönustöðum 1903, d. 1987.

Systur Lóu eru: Guðfinna Steinunn Bjarney, f. 1929, d. 2022, Jóhanna Björg, f. 1931, d. 1997, Kristjana Guðrún, f. 1933, og Elín Sóley, f. 1935, d. 2010.

Lóa giftist hinn 23. september 1949 Eyjólfi Jósep Jónssyni (Eyfa) frá Sámsstöðum. Foreldrar hans voru Magnúsína Steinunn Böðvarsdóttir, f. 1889, d. 1977, frá Sámsstöðum og Jón Jóhannes Jósepsson, f. 1897, d. 1997, frá Vörðufelli á Skógarströnd.

Lóa og Eyfi eignuðust þrjú börn og þau eru: 1) Sigurður, f. 16. júlí 1949, kvæntur Ólafíu Margréti Gústavsdóttur, f. 3. ágúst 1953. Þau eiga þrjú börn og tíu barnabörn. 2) Jófríður Anna, f. 28. desember 1953, gift Guðmundi Ásgeiri Ellertssyni, f. 29. júní 1950. Þau eiga þrjú börn, tíu barnabörn og þrjú barnabarnabörn. 3) Jón Steinar, f. 4. maí 1967, kvæntur Önnu Björgu Valgeirsdóttur, f. 23. júlí 1961. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn.

Lóa flutti í Efri-Langey með fjölskyldunni árið 1939 og þaðan að Sámsstöðum árið 1949 þar sem hún og maður hennar bjuggu blönduðu búi. Nokkru eftir andlát Eyfa flutti hún í parhús við Sunnubraut í Búðardal og bjó þar þar til hún fékk inni á Dvalarheimilinu Silfurtúni þar sem hún lést.

Lóa verður jarðsungin frá Hjarðarholtskirkju í dag, 13. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Mig langar að minnast mömmu í nokkrum orðum. Það er margs að minnast þegar ég hugsa til baka. Hún var mjög traust, ákveðin, glaðleg, góð, grínisti, hláturmild og vildi allt fyrir alla gera. Hún fæddist í Rauðseyjum og var því vön að vera nálægt sjó sem krakki og unglingur. En eftir að hún flutti að Sámsstöðum saknaði hún sjávarins. Hún flutti í Búðardal 2015 og þar gat hún horft út á Hvammsfjörðinn af Sunnubrautinni. Mamma var mikil hestakona og átti sér uppáhaldshesta, t.d Glanna, Glettu, Tvist og fleiri. Hún var heiðursfélagi í hestamannafélaginu Glað og vann mikið fyrir það á mótum á Nesodda. Það var oft glatt á hjalla heima á Sámsstöðum þegar hestamenn komu í heimsókn til þeirra mömmu og pabba. Eftir 2006 fór hún á mörg námskeið, postulínsmálun, skartgripagerð, útskurð og allskonar handavinnu og á ég marga muni frá henni sem mér þykir vænt um. Árið 2014 varð mamma langalangamma og því komnir fimm ættliðir í beinan kvenlegg, sem sagt tíu ár núna 8. apríl síðan Bríet Erna fæddist. Ég vil þakka þér mamma fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína og allar góðu stundirnar sem við höfum hlegið og fíflast saman, ég ætla að halda því áfram með stelpunum okkar.

Ég ákvað að baka hvítu lagtertuna þína og hafa með kaffinu núna 13. apríl. Hún hefur sjaldan tekist jafn vel svo ég held að þú sért ánægð með það.

Bið að heilsa í sumarlandið.

Þín dóttir,

Anna.

Jæja mamma.

Úr því að ég er byrjaður, er ekki rétt að setja inn smá sagnfræði.

Þú fæddist sem fyrr segir í Rauðseyjum á Breiðafirði en fjölskyldan flutti í Efri-Langey árið 1939. Elstu systurnar sinntu ýmsum verkum til sjós og lands þegar þær höfðu aldur og þroska til eins og þá tíðkaðist, skólagangan var farskóli m.a. í Fremri-Langey og á Ormsstöðum.

Þú réðst í vist hjá Bjarna Benediktssyni og frú Sigríði en þar hafði Steinunn systir þín verið veturinn áður. Í Reykjavík hittir þú líka strák vestan úr Dölum, sem vann við að byggja Sjómannaskólann, og varð það úr að þið fóruð að búa á Sámsstöðum í Laxárdal, fyrst í einu herbergi í gamla bænum en þið fluttuð í nýtt hús árið 1955 og bjugguð þar ykkar búskapartíð.

Þú vannst hefðbundin búskaparstörf eins og þau komu fyrir, m.a. rakaðir þú saman heyinu eftir að Land-Roverinn kom til sögunnar. Þú hafði unun af hestum og þið pabbi áttuð jafnan góða hesta sem voru undirstaða landbúnaðarins og góðir reiðhestar í bland. Þú vannst mikið starf í grasrót hestamannafélagsins hvort sem það var að henda reiður á rásnúmerum á kappreiðum á Nesodda eða standa vaktir fyrir félagið á fjórðungs- og landsmótum.

Þú ræktaðir kartöflur þó að uppskeran væri stundum rýr þegar norðanáttin sló niður kartöflugrösin löngu fyrir fyrstu frost. Og svo var það tilraunastarfsemin eins og þú kallaðir það, rófufræ í afskornum mjólkurfernum í öllum gluggum, setja þau út í smástund til að herða plönturnar og svo að planta og uppskera rófustýri á haustin. Þú talaðir um að þú öfundaðir þá sem hefðu heitt vatn og gætu ræktað hvað sem er. Ég held að þú hefðir blómstrað í stóru gróðurhúsi þar sem hægt væri að gera allavega tilraunir. Svo var það veturinn þegar ég bauð ykkur í bíltúr og við enduðum fyrir ofan Dönustaða-Hnúkinn, okkur þótti ekki leiðinlegt að sjá yfir landið og sveitina. Eftir að þú fluttir á Sunnubrautina fékk ég stundum símtöl þar sem þú kvartaðir yfir því að einhver hefði fiktað í sjónvarpinu og annaðhvort sást ekkert eða það heyrðist svo hátt í því og ekki hægt að lækka. Þetta er nú allt í lagi Jón minn ef þú kemur á föstudaginn og lagar þetta fyrir mig, ég set bara púða fyrir eyrað sem ég heyri eitthvað með og hlusta með hinu. Sumt var hægt að laga í gegnum síma en við vorum hvort sem annað því að ég mundi stundum ekki alveg hvernig fjarstýringarnar litu út og gat ekki sagt þér á hvaða takka átti að ýta.

Þú hafðir gaman af vísum og kveðskap og varst fljót að læra vísur, sérstaklega ef þær voru fyndnar. Ég ætla að ljúka þessu spjalli með tveimur sem fengu þig til að glotta út í annað. Ég veit ekkert um höfunda og vona að ég fari rétt með, en það verður þá að hafa það.

Stoppa þú nú Stormur minn.

Stökk þín usla gerðu.

Mitt er orðið skrýtið skinn

í skorunni að aftanverðu.

Undir barði eiga töf,

oft með raunir þungar.

Þeir eru að auka þjóðargjöf,

þessir samskitungar.

Takk fyrir allt elsku mamma, það var ekkert leiðinlegt að kynnast þér.

Litli strákurinn þinn,

Jón Steinar.

Það er rosalega erfitt að setjast niður og minnast ömmu Lóu í nokkrum orðum, en þegar ég hugsa til baka átta ég mig á því hvað ég var ofboðslega heppin að alast upp með hana í næsta húsi. Amma hefur alltaf verið mín mesta fyrirmynd, og á ég henni margt að þakka. Ég var alltaf mikið hjá ömmu Lóu og afa Eyfa sem barn, og þegar afi dó flutti ég yfir til ömmu á næturnar svo hún væri ekki ein. Okkar bestu stundir voru oft fyrir svefninn, þegar ég annaðhvort las fyrir hana eða hún mig, og svo héldumst við í hendur þar til ég sofnaði. Amma var mikil hestakona og átti alltaf súkkulaði í hesthúsinu, og var ég ekki gömul þegar ég var farin að fara með ömmu í hesthúsið og klifra upp á alla hesta sem þar inni voru, og auðvitað sníkti ég alltaf einn súkkulaðimola í leiðinni. Amma Lóa bakaði líka bestu skúffuköku í heimi, sem var í raun ekki skúffukaka, heldur kryddkaka með glassúr og hún skar kökuna líka alltaf í tígla. Það voru ófá skiptin sem ég sat í eldhúsinu hjá ömmu, í sætinu hans afa við gluggann og borðaði skúffuköku og drakk mjólk meðan ég horfði fram Laxárdalinn eins og afi gerði alltaf.

Þegar ég átti mitt fyrsta barn sagði amma við mig að ég yrði að passa vel upp á þessa stelpu okkar, hún væri brothætt eins og demantur og ætla ég svo sannarlega að standa við það.

Ég skal passa vel upp á demantinn okkar amma mín, ég veit að þú gerir það líka.

Þín ömmustelpa,

Aníta.