Arna Grétarsdóttir
Arna Grétarsdóttir
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir hefur hjartslátt þjónandi leiðtoga sem slær til biskupsþjónustu fyrir alla Íslendinga.

Arna Grétarsdóttir

Nú stendur yfir kjör til biskups Íslands. Kirkjufólk stendur frammi fyrir því að velja sér og öllu þjóðkirkjufólki leiðtoga. Það er því mikilvægt að hlusta eftir leiðtogafærni og forystuhæfileikum þegar aðeins um 2.300 manns fá að kjósa og taka þannig ákvörðun fyrir um 260 þúsund Íslendinga sem skráðir eru í þjóðkirkjuna. Þjónandi forysta er árangursrík nálgun í forystu og stjórnun og fellur vel að kristnum gildum og á því einstaklega vel heima innan þjóðkirkjunnar. Þjónandi leiðtogi er sá eða sú sem fylgir hugmyndafræði þjónandi forystu. Jesús Kristur varðaði leiðina er stjórnunarstíll hans er rýndur og er oft litið til hans sem helstu fyrirmyndar hins kristna leiðtoga.

Þjónandi leiðtogi leiðir fólk með hjartanu. Hann hlustar á eigin hjartslátt og finnur taktinn með því að mæta fólki í þeirra hjartslætti. Þjónandi leiðtogi hefur sterka siðferðisvitund og komið er fram við hvern einstakling af virðingu. Þá er ekki litið til þeirrar virðingar sem er áunnin heldur þeirrar grundvallarvirðingar sem allar manneskjur eiga skilið hvar sem þær eru staddar í lífinu. Við erum öll börn Guðs og höfum öll eitthvað fram að færa. Þjónandi leiðtogi stígur fram þegar hann metur þörf á því og stígur til baka og gefur öðrum rými til að blómstra þegar hann nemur hæfileika og styrkleika annarra. Þjónandi leiðtogi sækist ekki eftir titlum eða völdum heldur sækist hann eftir því að hafa áhrif til góðs fyrir samfélagið í heild og þá helst fyrir þá sem höllum fæti standa á einhvern hátt.

Prófsteinar hins þjónandi leiðtoga samkvæmt Robert K. Greenleaf upphafsmanni hugmyndafræðinnar eru allrar athygli verðir og eru settir fram í spurnarformi. Vaxa þeir sem þjónað er, verða þeir heilbrigðari, vitrari, frjálsari og sjálfstæðari og sjálfir líklegri til að þjóna? Einnig er litið til þess hvaða áhrif leiðtoginn hefur á þau sem höllum fæti standa. Þessir prófsteinar koma fram í bókinni Þjónn verður leiðtogi sem kom út í íslenskri þýðingu Róberts Jack og var gefin út af Þekkingarsetri um þjónandi forystu árið 2018.

Dr. Sigrún Gunnarsdóttir hefur farið fyrir rannsóknum á þjónandi forystu hérlendis og erlendis síðustu áratugi ásamt fjölda fræðafólks. Niðurstöður hinna fjölmörgu rannsókna renna styrkum stoðum undir jákvæðan ávinning, þar sem vinnustaðir og samfélög blómstra þar sem viðhorf þjónandi forystu eru ríkjandi. Árangur næst með því viðhorfi að allt fólk er metið í allri sinni fjölbreytni, einlægni og heiðarleiki ríkir, unnið er saman í teymum, forysta og hlutverk eru skýr og forystu er deilt og dreift. Þá eykst ávinningur einnig ef leiðtoginn styður við sjálfstæði, treystir fólki og stuðlar að nýsköpun.

Ef rýnt er í hugmyndafræði þjónandi forystu með gleraugum guðfræðingsins þá opnast sá leiðtogaheimur sem Jesús Kristur var og er; leiðtogi sem náði ótvíræðum árangri.

Jesús steig fram af festu og af mildi. Hann miðlaði kærleika og von. Hann setti skýra stefnuyfirlýsingu sem enn er farið eftir og kallast skírnarskipunin þ.e að fara ætti út um allan heim og skíra og kenna (Matt. 28.18-20).

Jesús deildi forystu og hann tók af skarið þegar þurfti, hann dró sig til baka og hvíldi sig. Hann treysti lærisveinum sínum, hlustaði á þá, kenndi þeim og hlúði að þeim bæði líkamlega og andlega. Þvoði fætur þeirra, bað með þeim og sýndi þeim hvernig börn, konur og veikburða fólk, jaðarhópar þess tíma, skyldu fá sérstaka athygli og blessun.

Þannig voru lærisveinarnir nestaðir út á akurinn til að boða fagnaðarerindið. Andinn gaf kraft, upprisan tilgang og þeir náðu árangri.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir hefur stigið fram og býður fram krafta sína til biskupsembættis þjóðkirkju Íslands. Sr. Guðrún hefur hjarta hins þjónandi leiðtoga. Hún hefur sjálfstraust sem gerir hana óhrædda við að berskjalda sig, hún er góður greinandi, á auðvelt með alla yfirsýn og mætir fólki af næmni og visku. Hún á einlæga trú sem er sett fram á ígrundaðan og djúpan hátt svo hvert mannsbarn skilur. Sr. Guðrún setur skýr mörk, veit hvert hún stefnir, hvernig hún ætlar að komast þangað og með hverjum. Þetta eru allt einkenni þjónandi leiðtoga sem hún ber, sem og að vinna aldrei ein, vita að árangur vinnst og markinu aðeins náð í samstarfi og samtakamætti margra.

Íslenskt samfélag og vinnumarkaður þarf þjónandi leiðtoga og þjóðkirkjan þarf biskup sem hefur hjartslátt hins þjónandi leiðtoga og leiðir kirkjuna í takt við þjóðina. Sr. Guðrún Karls Helgudóttir hefur hjartslátt þjónandi leiðtoga sem slær til biskupsþjónustu fyrir alla Íslendinga.

Það má kynna sér hugmyndafræði þjónandi forystu á vefsvæði Þekkingarseturs um þjónandi forystu, www.thjonandiforysta.is.

Höfundur er sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós og með MS-gráðu í forystu og stjórnun.