Tindafeðgar Frá vinstri: Jómundur Atli, Bjarni, Guðlaugur og Atli.
Tindafeðgar Frá vinstri: Jómundur Atli, Bjarni, Guðlaugur og Atli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrír ættliðir koma fram á vortónleikum Karlakórs Hreppamanna, sem verða í Hveragerðiskirkju klukkan 16.00 í dag, í Guðríðarkirkju í Grafarvogi kl. 20.00 nk. föstudag, 19. apríl, og í félagsheimilinu á Flúðum á sama tíma kvöldið eftir

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þrír ættliðir koma fram á vortónleikum Karlakórs Hreppamanna, sem verða í Hveragerðiskirkju klukkan 16.00 í dag, í Guðríðarkirkju í Grafarvogi kl. 20.00 nk. föstudag, 19. apríl, og í félagsheimilinu á Flúðum á sama tíma kvöldið eftir. Atli Guðlaugsson er kórstjórnandi, Bjarni og Guðlaugur, synir hans, syngja einsöng, og Jómundur Atli, sonur Bjarna, er 17 ára og yngstur í rúmlega 30 manna kórnum. „Jómundur byrjaði að syngja í báðum núverandi kórum mínum, þegar hann var 14 ára, en synir mínir voru 16 ára í sömu sporum,“ segir Atli.

Atli býr ásamt fjölskyldu sinni á Tindum á Kjalarnesi og ekur þaðan á æfingar í félagsheimilinu á Flúðum á hverjum þriðjudegi, samtals um 200 kílómetra fram og til baka. Sonarsonurinn og kórfélagi frá Akranesi eru í för með honum. „Þetta hefur ekki verið neitt mál nema einu sinni í fyrra, þegar ég þurfti að hætta við að fara austur. Kórfélagar komust þá ekki á æfingu vegna veðurs en ég hefði reyndar komist.“

Í fótspor Baggalúts

Í inngangsorðum viðamikillar söngskrár segir Bjarni Arnar Hjaltason, formaður kórsins, að yfirstandandi 27. starfsár marki tímamót, því ákveðið hafi verið að leggja íslenska þjóðbúninginn til hliðar og mæta á vortónleikana í nýjum kórbúningi.

Hefðbundin karlakóratónlist verður á dagskrá fyrir hlé en síðan taka við átta lög sem hljómsveitin Baggalútur hefur flutt, flest eftir Braga Valdimar Skúlason, sem jafnframt samdi flesta textana. „Ég útsetti þessi lög fyrir kórinn, sem er einn sá besti sem ég hef stjórnað,“ segir Atli. Hann bætir við að ámóta skipting á efnisskránni hafi verið tekin upp í fyrra við góðar undirtektir. „Þá útsetti ég níu lög og texta eftir Ladda.“

Atli er trompetleikari og söngvari og hefur stjórnað kórum í 42 ár auk þess sem hann starfaði sem tónlistarkennari í tæplega hálfa öld. Hann hefur samið fjölda laga og texta og útsett fyrir karlakóra og sönghópa. Hann hefur verið í Tindatríóinu ásamt sonum sínum síðan 2003 og stjórnar jafnframt Sprettskórnum í Kópavogi. „Flestir kórfélagar eru hestamenn og kórinn var með vortónleika fyrir páska en er nú kominn í sumarfrí. Leiðin að Flúðum er frekar bein en heiman frá mér og að félagsheimili hestamannafélagsins Spretts á Kjóavöllum, þar sem við æfum á mánudagskvöldum, eru 18 hringtorg.“

Atli fór með Sprettskórinn á norrænt kóramót á Borgundarhólmi í fyrravor og var það fyrsta utanlandsför kórsins. „Þeir voru svo ánægðir með ferðina að á bakaleiðinni var ákveðið að stefna á söngferð til Kanada 2025.“ Nokkrir félagar úr Karlakór Hreppamanna hafi farið með til Danmerkur í fyrra og það hafi lagt grunn að auknu samstarfi. „Ég stefni á að fara með sameinaðan karlakór á Íslendingadaginn í Manitoba sumarið 2025. Trúlega verður þetta um 50 manna kór og annað eins af fylgifiskum.“