„Valdið er hringekja þar sem sama fólk skiptist á að vera aðal.“
„Valdið er hringekja þar sem sama fólk skiptist á að vera aðal.“ — AFP/Daniel Roland
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það segir sig sjálft að völd yfir öðrum – þurfi slík völd að vera til yfirhöfuð – ættu að vera falin fólki sem vill þau ekki.

Smitberinn

Halldór Armand

halldorarmand@

gmail.com

Opnunaratriði Söngvakeppninnar 2020 var besta myndlíking fyrir íslensk stjórnmál sem ég hef séð og snilldin var ekki síst fólgin í því að hún var flutt af ríkisstjórninni sjálfri. Þar þóttust leiðtogar stjórnarflokkanna spila lag; Bjarni Benediktsson þóttist spila á píanó, Lilja Alfreðsdóttir þóttist spila á trommur og Katrín Jakobsdóttir þóttist spila á saxófón. Þetta var fullkomið dæmi um það þegar undirliggjandi hugmyndafræði þjóðfélags, sem reynt er að fela, tekur á sig efnislegt form og brýst fram í daglegu lífi.

Þarna á skjánum birtust nefnilega helstu mýturnar um íslensk stjórnmál: píanómelódía sjálfstæðisstefnunnar sem grunnur lagsins, framsóknartrommuslátturinn sem „límið“ í samstarfinu, og pólitíski einleikarinn Katrín, sem átti ekkert sameiginlegt með sínum eigin flokki, spilaði sóló á saxófóninn. Eins og í góðu listaverki vorum við áhorfendur síðan hluti af verkinu – við þóttumst vera að hlusta á alvöru lag, alveg eins og við sem íslenskir kjósendur þykjumst trúa á íslensk stjórnmál. Það sem lét svo kokkinn kyssa fingur sína var sú staðreynd að atriðið var hluti af hinni æðisgengnu og alltumlykjandi Eurovision-væðingu íslensks samfélags, sem hefur m.a. það hlutverk að beina athygli almennings frá köldum raunveruleika þess að vera þræll í krónuhagkerfi. Þarna hlóðust upp mörg lög af brilljans.

Að vera Íslendingur er oft eins og að búa inni í grunnskóla þar sem allt snýst um nemendaráð og ímyndað mikilvægi þess. Fólkið í landinu hefur ekkert um ákvarðanir valdastéttarinnar að segja og lyftutónlistin sem berst frá Alþingi á ekki upptök sín í stjórnmálum í almannaþágu heldur er lagið samið og spilað af lobbýistum þeirra sérhagsmuna sem löggjafinn verndar fyrir almenningi. Þegar ég var krakki og unglingur var alltaf sama ríkisstjórnin, sami forseti, alltaf sama fólkið sem réð öllu. Þetta er eins núna. Valdið er hringekja þar sem sama fólk skiptist á að vera aðal. Afleiðingin er síaukin hætta á samþjöppun valds, elítisma og ólígarkíu auk þess sem venjulegt fólk upplifir sig gjörsamlega valdalaust, sem aftur leiðir svo til þess að traust til stofnana dvínar.

Nú er Sigurður Ingi orðinn fjármálaráðherra. Hvort hann er betur til þess fallinn að hafa völd yfir öðru fólki og peningum þess heldur en bakarinn í Sveinsbakaríi hef ég ekki hugmynd um. En hann hefur frá árinu 2013 verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra, forsætisráðherra, samgönguráðherra og innviðaráðherra. Hringekjan heldur áfram að snúast og núna fær hann sjötta tækifærið til að vera aðal á nýju sviði.

Þegar Katrín tilkynnti um ákvörðun sína sýndi fjórða valdið mátt sinn og spurði hvers hún muni sakna úr stjórnmálum og hvort við áhorfendur fáum að sjá meira af eiginmanni hennar þegar við hyllum hana á Bessastöðum. Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér, Katrín? Hún var ekki spurð hvernig henni lítist á fordæmi þess frá öðrum löndum að forsætisráðherra gerist forseti, ekki spurð hvort hún telji það samfélaginu hollt að það sé alltaf sama fólkið sem fær að vera aðal, sama fólkið sem fær öll tækifærin, hvort mögulega sé það rétt sem mannkynssagan kennir að vald spilli meira að segja hlýjustu hjörtunum, hvort lítið traust til stofnana á Íslandi geti eitthvað tengst því að sama fólkið sé alltaf í nemendaráði.

Það segir sig sjálft að völd yfir öðrum – þurfi slík völd að vera til yfirhöfuð – ættu að vera falin fólki sem vill þau ekki. Það fyrirkomulag þar sem fólk væri valið af handahófi til að sitja tímabundið á Alþingi væri mun nær einhverju sem kallast „fulltrúalýðræði“ heldur en þessi firringarhringekja þar sem sama fólkið á ofurlaunum skiptir um einkabílstjóra eins og nærbuxur. En best væri að lýðræðisleg ákvarðanataka væri dreifstýrð, lókalíseruð og bein, án stigveldis og stjórnenda. Fólki er fullkomlega treystandi til þess að ráða sínu eigin lífi sjálft.